3.4.2008 | 00:34
,,Aldrei að segja aldrei"
Var illþyrmilega minnt á þessi orð í gær. Hef lýst því fjálglega að á slysa- og bráðamóttköku LSH færi ég ekki nema meðvitundarlítil og á börum. Neyddist sem sé til að éta þau orð ofan í mig í gær.
Ég fékk nefnilega þá ranghugmynd að nú væri komið vor og að gluggar skyldu þrifnir enda ekki vanþörf á. Var auk þess með gardínur fyirr annan eldhúsgluggan tilbúnar sem átti eftir að hengja upp þannig að ég réðst í hörkuframkvæmdir um kaffileytið í gær. Ég er náttúrlega ekki þekkt fyrir annað en brussuskap og ótrúlega lífseiga óheillastjörnu og klikkaði ekkert á því fremur en endranær.
Flaug á hausinn, mölbraut á mér hægri fótlegg og hnjáliðurinn í mask.Öll liðbönd slitin. Neyddist þ.a.l. að skríða niður stigan hjá mér og koma mér upp á slysó með taxa þar sem við tók maraþon bið, að vanda, frá kl. 17.30. Reyndist auðvitað ekki í forgangi, verkjastillt kl. 23.30 þegar mér var trillað upp á skurðstofu. Hímdi eins og hver annar aumingji á biðstofunni til kl. 20.30, tókst að næla mér í hjólastól sem bókstaflega bjargaði lífi mínu. Gekk illa að hoppa á öðrum fæti. Hálsbólgur og eyrnarbólgur í forgangi á því heimilinu en eitthvað slæddist sjúkrabíll af og til á móttökuna.
Brotið neglt í nótt sem sé, og því tjaslað saman sem hægt var að tjasla. Var rækilega minnt á að ég er ekki tvítug lengur. Ekki þýddi að svæfa þá gömlu, fór í mænudeyfingu og fékk í alla staði frábæra þjónustu og ummönnun á skurðstofunni. Og það sem meira var, ég var verkjastillt enda ekki nokkur lífisins leið að hreyfa bév löppina til eins eða neins.
Reynsla mín og upplifun á slysó og legudeild efni í heila bók. ,,Mátti vera í sólahring" ef ég vildi en fljót að pilla mér heim hið snarasta um leið og ástand leyfði. Meira um það síðar.
Hoppa sem sé á hækjum, stíg ekki í fótinn næstu vikurnar og í gipsi upp í nára. Háð öðrum með allar bjargir,hef notið þvílíkrar aðstoðar Söru, systurdóttur minnar og Gunnars Brynjólfs. Næ að koma mér niður stigana á hækjunum en rög við að hoppa upp þannig að mín skríður á rassinum eins og lítið barn. Er haldin þeirri þráhyggju að ég muni detta.
Bölva mikið að búa á 3 hæðum en þetta kemur til með að blessast. Tíkurnar keyrðar akút vestur í Borganes þar sem Lóa tók á móti þeim og fór með vestur. Þar verðar þær um stundarsakir, alla vega. Ekki veit ég hvar ég væri ef þeirra nyti ekki við. Ég er enn og aftur minnt á hvað ég á góða að.
Erfitt fyrir krakkana að halda sér við námið, vildu auðvitað koma beint heim en þetta er nú ekki hundrað í hættunni, brot er ekki alvarlegur sjúkdómur og grær. Verð komin með massíva upphandleggsvöðva áður en langt um líður, löngu orðið tímabært að fara í einhverja líkamsrækt. Get ekki hugsað mér að krakkarnir fari að missa úr skóla til þess eins að þjóna mér. Námið of strembið til að þau geti leyft sér að missa úr. Þetta gæti verið verra, eins gott að aðsvif var ekki ástæðan fyrir fallinu, þá hefði maður verið að kljást við allt annað.
Maður á sem sé ,,aldrei að segja aldrei" og ég neyðist til að éta fyrri orð mín ofan í mig. Var reynda bent á að ég hefði fengið skjótari þjónustu ef ég hefði hringt í 112. Sjálfsbjargarviðleitnin borgar sig alla vega ekki í þessum efnum. En satt best að segja þá held að ég muni láta fyrri orð standa og fari ekki með öðrum hætti í gegnum slysa- og bráðamóttöku LSH en á börum, jafnvel þó ég verði einungis með litla skrámu. Það er eitthvað stórkostlegt að kerfinu á þeim bænum, svo mikið að að starfsólk virðist vera búið að fá nóg og gefast upp. Það hefur hins vegar lítið upp á sig að skjóta sendiboðan, vandinn er djúpstæðari en svo. Meira um það síðar en réttur fótur var alla vega negldur.
Eldhúsgardínurnar fóru upp, mitt fyrsta verk að ljúka því þegar heim var komið. Rosalega gott að vera komin heim í heiðardalinn. Búin að uppgötva áður óþekkta vöðva, nú verður tekið á því
Þigg það hins vegar að losna undan eilífðaróheillastjörnunni
Athugasemdir
Ja kona mín. Ég byrjaði að athuga dagatalið...nei 1. apríl er liðinn. Ótrúleg óheppni. Ég skil líðanina eftir að hafa sjálf brotið ökkla og 4 ristarbein fyrir ekki svo löngu síðan. Þetta er vont en það venst.....Þú átt alla mína samúð. Ég var á strangri legu í 18 daga á aðventu geri það ekki aftur. En ég fékk loks tíma til að lesa.....og hvíla mig og þannig verðurðu að taka á þessu. Og þú átt rétt á heimilisþrifum athugaðu það! Þú ert nú ekki alveg venjuleg....
Hólmdís Hjartardóttir, 3.4.2008 kl. 00:56
Elsku Guðrún mín, þetta ætlar engan endi að taka hjá þér. Ef það er eitthvað sem ég get gert, þér til hjálpar, skaltu ekki hika við að hafa samband. E-mailið mitt er á síðunni minni.
Sigrún Jónsdóttir, 3.4.2008 kl. 00:58
Einmitt það sem krakkarnir hugsuðu þegar ég hringdi í þau á ellefta tímanum í gærkvöldi; aprílgabb
Takk fyrir elskurnar, þið eruð frábærar eins og alltaf. Hólmdís; sagan kemur síðar, ég lofa þér því að hún er skrautleg
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.4.2008 kl. 01:10
Ja hérna megin Gunna mín Þetta verður seint toppað mín kæra.
Vont að vera langt í burtu núna en endilega kannaðu hvort þú getir ekki fengið heimilishjálp þennan tíma sem þú ert í gipsinu. Það kostar kannski nokkur símtöl en ég er viss um að þú eigir að geta fengið slíkt hjá Reyjavíkurborg.
Farðu svo varlega í stigana og...gluggaþrif
Katrín, 3.4.2008 kl. 08:23
Reyndu nú að hvíla þig í dag mamma mín
Katan , 3.4.2008 kl. 09:25
Ég er sammála Kötu frænku! fá heimilishjálp og kannski gardínuhjálp
Katan , 3.4.2008 kl. 12:06
Sko Kata sys, það toppa mig enginn, það veistu. Mér hefur löngum tekist það sem öðrum tekst ekki
Hef það annars nokkuð gott, skrönglast um á hækjunum en hoppa ekki í stiganum, skríð eins og litlu börnin og stunda svo kraftlyftingar til að hífa mig upp. Harðsperrur og alles en hva.., þetta hefði getað orðið verra.
Læt gluggaþrifin eiga sig en einbeiti mér bara að gardínusaumaskap á næstu vikum. Leyfi öðrum að hengja þær upp. Það verður orðið uber flott hjá okkur, dóttir kær, þegar þú kemur heim í sumar
Skoða þetta með heimilishjálpina, ekki mun veita af
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.4.2008 kl. 12:34
Ekki algengt að fólk skrifi skemmtifærslu um eigin slys og áföll, segir töluvert um manneskjuna, og allt frekar jákvætt.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.4.2008 kl. 13:47
Kjarna kona hún Guðrún.
Georg Eiður Arnarson, 3.4.2008 kl. 19:48
Ég veit svei mér þá ekki með saumaskapinn systir góð...er ekki hætta á að þú saumir yfir puttana??? Vertu bara sem mest í sófanum með sjónvarpið og bækur....alveg kyrr þar til ,,hjálpin" mætir, þá máttu fara á stjá hehehe
Katrín, 3.4.2008 kl. 21:17
Þú segir nokk systir góð, þörf ábending. Tek hana til greina
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.4.2008 kl. 21:33
Jahérna. Það á aldeilis ekki af þér að ganga. Góður punktur hjá Katrínu að vara þig við saumaskapnum. Það hefur ekki þótt par fínt að vera samansaumaður.
Anna Einarsdóttir, 3.4.2008 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.