27.3.2008 | 00:32
Fátt og smátt
Allt við það sama í þessum herbúðum. Fékk þó þær gleðilegu fréttir að ekki greinast nein merki um krabbmein hjá mér, hvorki í lunga, lifur né annars staðar. Brenglaðar blóðprufur enn og merki um sýkingu einhvers staðar. Hún er hins vegar ekki fundin ennþá. Smámál miðað við það sem það gæti hafa verið, þannig að nú er bara að bíta á jaxlinn og sjá hvort ástandið haldi ekki áfram að skána. Tilraunir til fæðuinntektar enn afdrífaríkar þannig að ég mun hægjia á mér í þeim efnum í bili. Er ekki á fullri orku, svaf í 4 tíma seinni partinn og fram og kvöld. Rétt náði að klóra mig í gegnum dagsverkið. Geri aðrir betur
Hef hætt mér áfram út í umræður á blogginu um innflytjendamálin en verð að viðurkenna að það er ekki þess virði. Sumir eru einfaldlega liðamótalausir tréhestar og sjá einungis hlutina í svörtu og hvítu. Þýðir ekkert að rökræða við þá. Slíkir menn eru þó hættulegir, komist þeir til valda og það er áhyggjuefni. Ekki hægt að skrifa allt á unggæðishátt og sterkar hugsjónir. Menn geta blindast og gleymt sér í offorsinu sem kann ekki góðri lukku að stýra. Ekki vænleg leið til árangurs að vaða yfir fólk á skítugum skónum og ,,æla yfir það", eins og unga fólkið orðar það.
Hins vegar vona ég að ráðamenn þjóðarinnar vakni til lífsins og fari að viðurkenna þann vanda sem upp er kominn í þjóðfélaginu varðandi glæpi. Hann er þó ekki einungis bundinn við innflytjendur en vissulega hafa sumir hverjir breytt áherslum og litað ástandið hressilega síðustu misserin.
Ekki blæs byrlega fyrir okkur þjóðinni þessa dagana. Núverandi ríkisstjórn segist þó sátt og hlutirnir í lagi. Engin ástæða til að örvænta. Einhvern veginn tekst ráðamönnum ekki að sannfæra mig í þessum efnum. Framundan áframhaldandi hækkanir. Fæ ekki séð að kaupmáttur launa haldist óbreyttur. Var það ekki eitt af skilyrðum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru í vetur?
Lengi getur vont versnað, svo mikið er víst. Við erum rétt að þreifa á toppi ísjakans, grunar mig. Þó eru allar kistur ríkissjóðs fullar. Einhverjir sitja eins og Jóakim frændi á þeim en hver skyldi hagnast mest?
Nýskipuð lyfjanefnd undir forystu Pétur Blöndals hlýtur að fara að skila áliti og tillögum um breytta hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Var að taka sama lauslega kostnað minn vegna gigtarlyfja en ég hef leyst út ógrynni af fjölmörgum tegundum undanfarnar vikur, í því skyni að finna ,,rétta" lyfið. Sá kostnaður slagar upp í 70 þús krónur. Pakkningarnar rofnar en meiri hluti af skammtinum enn í pakkningunum uppi í skáp þannig að úrvalið er mikið. Get sem sé ekki notað lyfin. Verð að viðurkenna að mér finnst ansi hart að fara með lagerinn í næsta apótek til að láta eyða honum. En hver skyldi kostnaðurinn verða af sömu lyfjum og skömmtum eftir fyrirhugaða breytingu? Það verður fróðlegt að sjá.
Meira um lyf, gerði litla könnun á verði á algengu verkjalyfi um daginn. 20 stk í töfluformi, kosta 460 kr. í apóteki utan höfuðborgarsvæðisins en 280 kr. í sömu lyfjakeðju í höfuðborginni. Sama lyf, magn og skammtur en í formi stíla, kostar 2.400 kr. rúmar. Hverfandi munur var á verði gigtarlyfs á milli þessara apóteka og enginn munur á lyfjaformum, þ.e. sama verð á töflum og stílum. Ótrúlegt en dagsatt. Meira um það síðar.
Athugasemdir
Gott að engin merki eru um krabba......en það verður að finna sýkinguna. Lyfjaverð er út í bláin á Íslandi.....eins og matarverð og öll önnur verð. Maður verður að vera ríkur til að hafa efni á að vera veikur.
Hólmdís Hjartardóttir, 27.3.2008 kl. 01:21
Ég tek undir Hólmdísi það er dýrt að vera veikur,það er ekki á bætandi á þann sem verður fyrir því að verða veikur,að þurfa að hafa líka áhyggjur af því hvort hann hafi efni á að kaupa sér lyf eða ekki,hvað þá, að þurfa að velja hvort á ég að kaupa lyfin mín eða mat til að borða.Svona er Ísland í dag
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 27.3.2008 kl. 13:56
Mikið er gott að það eru engin merki um krabba!
Þú ert svo pennafær að þú ferð létt með að taka þátt í innflytjendaumræðunni, ég hef misst svo niður mína pennafærni en dunda í myndunum í staðinn.
Takk fyrir kveðjuna ...
Maddý (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 22:47
Hann leynir sér ekki landsdygða skatturinn . kv .
Georg Eiður Arnarson, 28.3.2008 kl. 09:48
Góðar fréttir varðandi krabbameinið. vonandi alveg búið. Ástæðan fyrir annarri vanlíðan finnst vonandi sem fyrst svo "lækning" finnist og þér geti farið að líða betur.
Þú ert nú alltaf svo málefnaleg, þannig að ég er bara fegin að þú treystir þér í innflytjanda-umræðuna, ekki geri ég það. Las nokkrar þannig færslur í gær og varð bara þunglynd!
Sigrún Jónsdóttir, 28.3.2008 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.