23.3.2008 | 00:59
Páskafrí
Sú var tíðin að mér þótti páskafríið vera langt og sumir dagar ætluðu aldrei að líða. Hver man ekki eftir föstudeginum langa sem var óendanlega langur? Ekkert við að vera enda allt bannað nema að borða og fara í messu. Verslanir og veitingastaðir lokaðuð.
Sá tími er greinilega liðinn. Nú líða þessir dagar með ógnarhraða, páskafríið að verða búið. Einungis tveir dagar eftir. Hef setið sveitt við verkefnagerð síðustu daga, ýmist yfir einstaklings- eða hópverkefnum og hvergi nærri því búin. Var svo bjartsýn að ég taldi mig geta rumpað þeim af í síðasta lagi í dag. Ætlaði heldur betur að dúlla mér hér innandyra, fara í göngur og ég veit ekki hvað og hvað. Hef ekkert gert af því sem ég ætlaði í þeim efnum. Hef hins vegar verið yfirmáta iðin við svefninn, finn mér endalausar ástæður til að leggja mig á milli stríða. Get því ekki sagt annað en að ég hafi haft það gott.
Katan er ein að dúlla sér úti núna, Hafsteinn í ferðalagi fram á miðvikudag. Veit að hún er með heimþrá en stendur sig vel. Þessir páskar öðruvísi en hún á að venjast, var í prófi í gær, á föstudaginn langa og hafði ekki tök á því að mæta í fermingu systur sinnar. Fer í páskadinner annað kvöld með vinum sínum þannig að það væsir ekki um hana. Er flúin úr herbergi sínu vegna innrásar maurana sem láta ekki á sig bilbug finna og blómstra sem aldrei fyrr. Enn nokkuð kalt í veðri í Debrecen þó vissulega sé farið að hlýna.
Set stefnuna á að ljúka verkefnum á morgun svo ég geti notað a.m.k. einn dag í tiltektir og annað sem hefur safnast upp. Heilsufarið í áttina á meðan ég gæti þess hvað fer ofan í mig en finn að úthaldið er minna en oft áður. Vonandi verða einhverjar línur lagðar eftir páska. Það er ekki nóg að greina vandan, það þarf að meðhöndla hann.
Læt það pirra mig svolítið að fá ekki Moggan minn á morgnana í heila 5 daga. Finnst það með ólíkindum, ekki lækkar áskriftargjaldið sem því nemur. Hef ráðið krossgátur í staðinn sem kemur ekki í staðinn fyrir þá hefð að fletta blöðunum á morgnana. Maður er ekkert annað en vaninn og frekjan í þeim efnum.
Heyrist ekki boffs í stjórnmálamönnum, allir í fríi og vandamálin hrannast upp án umræðu. Einu fréttirnar sem berast eru ýmist um rán, ofbeldi eða það sem verra er; banaslys. Síðast ungur maður fæddur ´84. Ég fæ hroll við tilhugsunina, það er erfitt hjá mörgum þessa dagana.
Þrátt fyrir strembna verkefnavinnu, verður ekki hægt að segja annað en að ég sé búin að hafa það gott. Svolítið ein á báti og skrítið að hafa ekki fjölskylduna í kringum sig en svona er lífið. Sumt er ekki við ráðið. Ekkert annað en að aðlagast breytingum taka þeim með bros á vör. Í öllu mótlæti felast tækifæri.
Verð í góðum félagskap annað kvöld hjá bróður og hlakka mikið til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.