19.3.2008 | 22:48
Kreppa
Sé ekki betur en að við séum að sigla inn í kreppu. Eldsneytisverð í hæstu hæðum, matvörur að klifra upp stigan og ekki síst stjarnfræðilegar vaxtahækkanir á íbúðalánum. Líður að því að við förum með hjólbörur fulla af seðlum til að kaupa brauðið, líkt og í Þýskalandi forðum daga.
Baknarnir búnir að skella í lás, nánast útilokað að fá lán, ekki einu sinni yfirdráttur er á boðstólnum lengur. Hefur hingað til þótt góð tekjulind fyrir bankana og skjótfenginn gróði. Nú er allt í lok, lok og lás og innheimtuaðgerðir sögulega harðar
Hvað hyggst ríkisstjórn gera í málum? Nákvæmlega ekkert. Eins og forsætisráðherra sagði opinberlega; ,,þetta er ekki okkar mál". Ástandið væri vegna utanaðkomandi áhrifa utan úr heimi. Ríkisstjórn gæti ekki skipt sér að því. Pétur Blöndar messar yfir þjóðinni og biður hana um að vera bjartsýna. Hér á landi sé ekkert atvinnuleysi þannig að við séum svo vel í stakk búin til að mæta kreppu sem þessari. Landinn væri aðlögunarhæfur, nú yrði rykið dustað af hjólunum og sultarólin hert. Við þurfum ekki að borða eins mikið og við gerum. Pétur telur okkur sýna eigingirni og einblína eingöngu á eigin hag. Við eigum að horfa á þjóðarbúskapinn í heild. Hann er það eina sem skiptir máli og framtíðin. Við eigum að hugsa til margra ára í senn, ekki einungis daginn í dag eða þetta ár. Hækkandi ál- og fiskverð muni vega á móti skertum tekjum þjóðarbúskapsins. Pétri finnst landinn væla.
Hvað segja Samfylkingarmenn? Hef ekki verið mjög dugleg að fylgjast með fréttum að undanförnu en hef vafrað á netinu og kíkt á síður fjölmiðla. Sé engar sérstakar yfirlýsingar frá viðskiparáðherra né öðrum Samfylkingarstrumpum, nema þá um inngöngu í ESB. Utanríkisráðherra og formaður flokksins í fylgd sérsveitarmanna að bjarga heiminum, má ekkert vera að því að skipta sér af svo léttvægum málum eins og fjárhagsvanda fjölskyldna í landinu. Heyrist ekki boffs í Jóhönnu sem margur Íslendingurinn horfði til með glampa og traust í augunum. Hún átti að bjarga öryrkjum, öldruðum og efnaminni fjölskyldum.
Einkennilega staða sem upp er komin. Nýgerðir kjarasamningar samþykktir og menn héldu ekki vatni yfir. Sú snautlega kjarabót uppétin ,,med det samme" þannig að menn standa ver í dag en fyrir samningana. Þjóðarbúið rekið með milljarða tekjuafgangi og hagnaði, lántökur þjóðarinnar í sögulegu lágmarki að sögn Sjálfstæðismanna. Þjóðarskútan aldrei haft slíkan meðbyr og ég veit ekki hvað og hvað.
Hvað er hægt að gera í stöðunni? Samfylkingarmenn vilja rjúka upp til handa og fóta og sækja um inngöngu í ESB, taka upp evruna. Virðast halda að þjóðin sé ólæs og illa upplýst. Við getum einfaldlega ekki sótt um inngöngu fyrr en við uppfyllum skilyrði um efnahagslega stöðugleika o.s.frv. Erum fjarri frá því að uppfylla skilyrðin. Kæmi til viðræðna um inngöngu, tekur ferli mörg ár. Hvernig má þá vera að Samfylkingarstrumpar telji þessa leið færa yfir höfuð? Viðræður um inngöngu leysa nákvæmlega engin vandamál í dag, á morgun eða á næsta ári.
Stjórnvöld hafa ýmiss stjórntæki til að hafa áhrif á efnhagslega stöðu þjóðarinnar. Þau geta lækkað skatta, lagt fyrir Seðlabanka fyrirmæli um lækkun vaxta en þyrftu þá náttúrlega að brjóta odd af oflæti sínu og tala við helstu ráðamenn innan bankans. Stjórnvöld geta beitt lækunn virðisaukaskatts, lækkað álögur á eldsneyti og lækkað innflutningstolla. Etv. aukið ábyrgð ofurfyrirtækjana og hækkað skatta þeirra á móti lækkun á tekjuskatti. Lagt beina ríkisstyrki í verkefni á landsbyggðinni og svona mætti lengi telja. Stjórnvöld hafa svigrúm með allan tekjuafganginn í ríkisrekstrinum.
Forsætisráðherra og samflokksmenn telja hins vegar vandamálið ekki heyra undir ríkisstjórn. Á sama tíma og hækkanir á matvörum, eldsneyti og örðum nauðsynjavörum dynja yfir landan, er kostnaðarþáttur einstaklinga aukin innan heilbrigðisþjónustunnar sem og lyfjakostnaður. Námsmenn á erlendri grund blæða fyrir gengishrun krónunnar, námslánin rýrna líkt og vatnssósa steik í potti. Fer að minna á ástand námsmanna á 5.og 6. áratug síðustu aldar, þegar þeir áttu fyrir mat fyrri hluta mánaðar og sultu seinni hlutan, fengju þeir ekki matarsendingar að heiman.
Hver skyldi rótin af hluta vandans vera? Gæti hún falist í einkavæðingu bankana og síðar græðgi og nýrri auðmannsstétt? Gæti hún falist í brattri útrás fyrirtækjanna eða einkavæðingu annarra ríkisfyrirtækja? Auðurinn hefur ekki látið á sér standa í kjölfarið. Hann hefur hins vegar safnast í fárra manna hendur. Það er etv. erfitt að finna einhlítt svar en eitt er þó víst; landinn nýtur ekki þess skjótfengna gróða sem m.a. einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur haft í för með sér. Það gerir nýja auðmannsstéttin hins vegar
Í öllu falli er eins gott að menn njóti páskanna og eigi gleðilega rest af þessum mánuði. Lánaafborganir munu hækka næstu mánaðarmót og ekki útilokað að einhverjir verði að fresta utanlandsreisum og bílakaupum þetta árið.
Eins og einn hlustandi þáttarins ,,Ísland í býtið" sagði í beinni í morgun; við munum ekki gleyma verkum þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að kosningum næst". Sá hinn sami hafði kosið Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum og sá mikið eftir því.
Áhrif skerts þorskkvóta og hækkandi verð á steinbítskvóta fara að koma fram af fullum þunga næstu vikur. Eru auðvitað farin að koma fram en eigum eftir að sjá enn alvarlegri afleiðingar. Eignarýrnun landsmanna allra framundan. Mótvægisaðgerðir jafnþýðingarmiklar og að pissa upp í vindinn. Jaðarbyggðir að hrynja.
Framundan kjaraviðræður við ýmsar stéttir eins og kennara og hjúkrunarfræðinga. Ég tilheyri báðum stéttum og treysti forsvarsmönnum fyllilega til að leggja fram og fylgja eftir raunhæfri kröfugerð og sýna hörku. Það kemur hins vegar til með að reyna á stéttafélagsmenn sjálfa og samheldni þeirra. Kvennastéttir, ekki síst innan ummönnunargeirans, hafa löngum verið ,,aumingjagóðar" og ekki lagt út í harðar aðgerðir þar sem þær komi til með að bitna á skjólstæðingum okkar. Málið er hins vegar það að ábyrgðin er ekki okkar, a.m.k. ekki nema að litlu leyti. Ábyrgðin liggur hjá ríki og atvinnurekendum.
Máltækið ,, Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér", á svo sannarlega við. Nú er ekkert annað en að duga eða drepast.
Ég tel mig ekki svartsýna, er raunsæ. Það stoðar lítt að stinga hausnum ofan í sandinn. Það verður að horfast í augu við staðreyndir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2008 kl. 00:35 | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki verið að skafa utanaf hlutunum á þínum bæ. Frábær pistill og ég get tekið undir með þér í einu og öllu.
Sigrún Jónsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:31
Ég held að ástandið sé mjög alvarlegt fyrir hundruð fjölskylda. Auðvitað ber ríkisstjórn að aðhafast.
Hólmdís Hjartardóttir, 20.3.2008 kl. 02:02
Mikið til í þessu Guðrún, en fólk verður að taka ábyrgð á gerðum sýnum sjálft.
Stór hluti þjóðarinnar hefur nýtt sér hækkun fasteignaverðs, til að taka hærri lán út á eignirnar, og vegna nægjanlegs framboðs á lánsfjármagni, hefur það sem sagt tekið eignaraukninguna út fyrirfram, og rýrt eigið fé.
Þessa peninga hefur fólk ekki notað til að greiða niður óhagstæð lán, eða til tekjuaukandi ráðstafana, og eða sparnaðar.
Nú vakna fjölmargir upp við það að eigið fé er búið ,og afborganir af neyslulánum eru á hraðri uppleið, en tekjurnar á niðurleið.
Þetta sama, er algengasta orsök þess að fyrirtækjarekstur endar í gjaldþroti, tekið er út úr rekstrinum of mikið til eigin neyslu eigenda.
Nú verður fólk bara að axla ábyrgð, og takast á við sýn mál, en ekki kalla á ríkið eða Seðlabankann, sem hefur ítrekað varað fólk við á síðustu árum, en enginn hlustaði.
Það á líka eftir að koma grátkór hinna ábyrgðarlausu sveitarstjórnarmanna, sem hafa ekki haft neina sjálfstjórn, sólundað peningum sveitarfélagana í aukningu á rekstrakostnað,i og skuldbundið þau langt fram í tíman með lántökum fyrir ótímabærum framkvæmdum á þenslutíma,
Nú kemur að þeim að skera niður rekstrarkostnaðinn vegna samdráttar í tekjum, og það er miklu erfiðara en að auka útgjöld, þá er líka að koma að þeim tímapunkti þegar sveitarfélögin áttu að auka útgjöldin til að halda uppi atvinnu og auknum útgjöldum hjá félagsþjónustunni, en nú er búið að skuldsetja þau upp fyrir haus, lánsfjárþurrð og hvað þá.
Bæði þú og ég höfum alið upp börn Guðrún, er Ríkið og Seðlabankinn ekki í sama hlutverki.
Geta þeir ekki bara sagt.
Sagði ég þér ekki, þú átt líka að læra að hlusta.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 20.3.2008 kl. 10:29
Svona til að það komi fram, ég kaus ekki þessa Ríkisstjórn, né flokkana sem að standa.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 20.3.2008 kl. 10:30
Sammála Guðrún , það er ansi lítið eftir af þessum svokölluðu kauphækkunum. kv .
Georg Eiður Arnarson, 20.3.2008 kl. 10:36
Alveg sammála þér Þorsteinn, við verðum að axla ábyrgð á eigin þennslu og sukki. Hins vegar bætast við önnur áhrif, t.d. vegna kvótaskerðingar o.fl. með tilheyrandi tekjuskerðingu sem einstaklingar geta ekki axlað.
Satt er það að sveitarfélögin hafa staðið í endalausum fjárfestingum og framkvæmdum þrátt fyrir blikur á lofti. Aðhald ekkert enda menn á fylleríi. Það verður fróðlegt að sjá hversu mörg sveitarfélög verða komin í gjörgæslu eftir þetta árið.
Er samt á því að stjórnvöld geti gert ráðstafanir til að auka kaupmátt launa og dregið aðeins úr skellinum. Væntanlegir kjarasamningar hljóta að taka mið af stöðunni eins og hún er orðin sem eykur væntanlega á vandan. Hækkun persónuafsláttar eða skattalækkun tekjulægri hópa hefðu trúlega mildað ástandið.
Finir punktar hjá þér Þorsteinn
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 20.3.2008 kl. 11:24
Ef ég réði myndi ég gefa krókaveiði á handfæri frjálsa strax, en línuveiðar frjálsar utan 4 mílna og banna botntroll.
En ég ræð ekki, enn.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 20.3.2008 kl. 11:54
Baedi i Uk og USA hafa ,,sedlabankar " og riki sett peninga i bankakerfin m.a. med tvi ad veita lan, jafnvel vaxtalaus svo ekki komi til lokunnar. Rikistjornin telur sig orugglega ekki bera neina abyrgd a ruglinu sem vidgengist hefur undanfarin arin Kvedjur heima a Fron
Katrín, 20.3.2008 kl. 17:41
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 20.3.2008 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.