23.2.2008 | 22:37
Sátt
Er býsna sátt við framlag okkar í Eurovision. Hefði viljað sjá Magna og Birgittu ofar með sitt fantagóða lag og flutning en Friðrik Ómar og Regína áttu sigurinn sannarlega skilið. Regína hefur áður sýnt þjóðinni hvers hún er megnug sem sönkona, ef við hefðum valið hennar lag þá hefðum við komist lengra en með Silvíu. Kann þó alltaf betur og betur að meta lagið hennar Silvíu, mér til mikillar undrunar. Er greinilega seintekin. Mér finnst Friðrik Ómar hafa vaxið sem söngvari, hann fór á kostum í kvöld, þvílík rödd!
Skil ekkert í þjóðinni að kjósa Mercedes club yfir höfuð, rammfalskur flutningur þó lagið sé grípandi en textinn eingöngu hey, hó, hey, hó, hó. Fínt á gólfinu en minnir mig dálítið á ,,sýrulag" Dr. Spock með sniðugt lag og flottir gúmmíhanskar en come on ....
Hét því reyndar fyrir nokkrum árum að hætta öllum afskiptum af Eurovision enda deginum ljósar að við eigum ekkert erindi í keppnina eftir að öll Austantjalds löndin komu inn. Sterk samstaða innan blokkarinnar og útilokað að ná árangri með því fyrirkomulagi sem hefur ríkt. Finnst að Vestur Evrópa eigi að taka sig saman og leyfa hinum þjóðunum að eiga sína keppni.
Bleik var reyndar brugðið þegar ég lísti þeirri ákvörðun yfir að nú væri ég hætt afskiptum af keppninni, ég hef grun um að fáir hafi verið meiri Eurovision fan en ég í gegnum tíðina. Þvílíkar serimóníur í kringum undankeppnina hjá mér svo ekki sé minnst á stóra kvöldið sjálft. Skipulagði bæði kvöldin með margra mánaða fyrirvara, ég skildi tryggja það að vera ekki á vakt, hvorki kvöldið sjálft né daginn eftir. Að sjálfsögðu teiti á heimilinu. Eurovision hefur verið heilög hjá mér allt frá að við Íslendingar fengu að fylgjast með henni og Dana vann keppnina. Ég ól mín börn upp í þessum anda og ekki laust við að sum systkinabörnin hafi verið undir sömu áhrifum. Sé ekki betur en að krakkarnir séu jafn spenntir og ég var. Búin að setja þá kvöð á Kötu og Haffa að þau haldi merkjum mínum á lofti og fyrirskipa ,,hitting" árlega á Eurovision kvöldi í framtíðinni þar sem mín skál verði drukkin.
Í öllu falli horfðu Kata og Haffi á keppnina í gegnum netið en náðu ekki að sjá úrslitin. Sendingu lokið klukkan 22, hvað sem því veldur. Og mútta kaus fyrir þau samviskusamlega.
Annars fannst mér mörg lögin fantagóð, hafði lítið fylgst með Laugardagslögunum fram til þessa, enda ,,hætt" að fylgjast með. Páll Rósinkrans náttúrlega í sérflokki sem og Magni, Birgitta og Ragnheiður Gröndal. Rosalega eigum við mikið af sterku tónlistafólki, ég segi ekki annað. Ég vil fara sjá það gera garðinn frægan á erlendri grund, líkt og Magni gerði. Þau eru öll á heimsmælikvarða.
Einhvern tíman hefði frúin haldið upp á kvöldið og fagnað sigri á viðeigandi hátt. Það er af sem áður var. Nú gæti ég ekki drukkið einn bjór án þess að fá bévítans verki. Ferlegt hreint út sagt!
Gerði heiðarlega tilraun til að ná sambandi við minn meltingasérfræðing sem ég var hjá í mörg herrans ár. Var boðið að senda honum tölvupóst sem ég reyndar þurfti að stíla á almennt netfang læknastofunnar. Sjálfsagt hafa ritarar lesið það fyrst og komið skilaboðum áleiðis. Lýsti þar fjálglega mínum einkennum og verkjum ásamt sjúkrasögu síðasta árs og lét í ljós eindregna ósk að fá tíma sem fyrst. Ég fékk hringingu tæpum 3 vikum síðar og mér boðinn tími þann 27. mars þannig að í heildina er 7 vikna bið eftir tíma hjá mínum manni. Málið greinilega ekki í forgangi. Ég afþakkaði pent.
Hringdi á allar stofur meltingasérfræðinga í kjölfarið og fyrsti lausi tíminn er 7. mars. Þangað til verð ég að láta mig hafa verkina og óþægindin. Ekki fitna ég á meðan í öllu falli þó ég sé eins og útblásin blaðra. Það verður fróðlegt að heyra hver greiningin verður. Ég er búin að þola við síðan í desember, ætti að geta þraukað enn í nokkrar vikur en viðurkenni að róðurinn verður æ þyngri. Get ekki hugsað mér að fara í gegnum Læknavaktina enda einungis um skyndiplástralausn að ræða þar og á bráðamóttöku fer ég einungis á börum. Verkjaköstin fara versnandi á því er enginn vafi en ég mun þrauka áfram eins og ég hef gert hingað til. Skárra væri það nú enda ekki metin í forgangi.
Hér verður snemma gengið til náða í þeirri von að dagurinn á morgun verði betri en þessi sem var með versta móti, satt best að segja. Ótal verkefni hafa hrúgast upp þannig að það verður af nógu að taka sem fyrr. Ekki verið í miklu stuði það sem af er
Athugasemdir
Lagið með Regínu var gott en langbest var lagið hennar 2006.
Þér við hlið.
Hefði viljað spóla til baka og senda það.
Vona að þú losnir undan þessum verkjum
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 23.2.2008 kl. 22:50
Algjörlega sammála þér með lagið hennar Regínu 2006. Það er hreint út sagt frábært og á sannarlega heima þarna úti. Hefði örugglega náð langt. Vildi heyra meira af því.
Úff, er ansi hrædd um að verkirnir eigi bara eftir að versna þar til ég kemst að og niðurstaða fæst. Sú hefur þróunin verið fram til þessa
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.2.2008 kl. 23:02
Ég er sammála þér, ég hefði viljað sjá Magna og Birgittu fara út, en sjálfsagt höfðar þetta diskólag Regínu og Friðriks Ómars ágætlega til júró-aðdáenda í austur evrópu.
Mér finnst það skandall, ef þú með þína sjúkrasögu kemst ekki fyrr að í þessu forgangskerfi okkar!
Ég sakna færslunnar þinnar, sem var um gagnrýni, ég held hún hafi verið á blogginu þínu þann 19.02.
Bestu kveðjur og farðu vel með þig.
Sigrún Jónsdóttir, 23.2.2008 kl. 23:10
Bölvuð leiðindi, samt skárra með 1 viku en 4 vikur í bið.
Leiðindi samt, og bölvað að vera ráðalaus.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 23.2.2008 kl. 23:13
Ég fékk gæsahúð þegar Magni byrjaði að syngja og ég hefði vilja að þau hefðu unnið en nota bene þau voru líka flott Regína og Ómar,en mitt lag var með Birgittu og Magna(er ekki mikið fyrir Birgittu) en Magni er frábær söngvari og strákur góður.
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.2.2008 kl. 23:35
Úpps,Gleymi Pál Rósinkrans hann var flottur og bara flott lag.hann er mjög svo góður söngvari og bara rokkar
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.2.2008 kl. 23:38
Mér fannst lag Regínu og Ómars langflottast.
En Guðrún, sorglegt að þurfa að bíða í tæplega 2 vikur eftir tíma hjá meltingarsérfræðingi. Maður þarf að þekkja einhvern eða þekkja einhvern sem þekkir einhvern til að komast að. Það er víst það sem virkar. En vona að þessir dagar verði fljótir að líða.
Ég sakna líka færslunar um gagnrýni, hún var mjög góð.
Sigrún Óskars, 24.2.2008 kl. 00:12
Sorry. mér finnst sigurlagið hundleiðinlegt. Að mínu mati er Páll Rosinkrans besti söngvarinn í keppninni. En ég er engin Eurovision kona.
Hólmdís Hjartardóttir, 24.2.2008 kl. 04:15
http://valli57.blog.is/blog/valli57/entry/454441/
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 24.2.2008 kl. 11:18
Ég var bara svo fegin að hvorki Gulu hanskarnir né falski Hó-hópurinn unnu að ég er yfir mig glöð með allt annað. Ætli ég sé orðin gömul að finnast þessir hanskar ekkert minna en það langversta sem ég hef nokkurn tíma séð ?
Anna Einarsdóttir, 24.2.2008 kl. 16:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.