18.2.2008 | 10:32
Samningar
Sé það eftir lestur Moggans í morgun að menn halda ekki vatni yfir nýgerðum kjarasamningum. Á það bæði við verkalýðsforystuna, Samtök atvinnulífsins og stjórnmálamenn. Meira að segja Valgerður Sverris og Guðjón Arnar eru ánægð. Ég er bókstaflega kjaftstopp
Ég er búin að lesa helstu samingatriðin aftur og aftur yfir, með jákvæðu hugafari. En, sorry, ég sé ekki yfir hverju menn eru svona kampakátir. Vissulega má segja að í hluta af samningnum megi greina að ákveðinu áfangamarkmiði sé náð, t.d.með hækkun persónuaflsláttar en hækkunin svo snautleg að hún nær trúlega ekki hefðbundinni vísitöluhækkun, hvað þá hækkun á neysluverði.
Í stutt máli finnst mér menn hafi samið af sér, samningarnir eru fyrst og fremst til að mæta kröfum Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar sem kallar eftir stöðugleika. Þó kostnaðurinn við samningana sé talinn nema um 20 milljarða þá hlýt ég að spyrja, líkt og aðrir, hvert er hlutfall lækkunar á fyrirtækjaskattinum af þeirri upphæð.
Ég fórna höndum ef þetta er það sem koma skal í komandi kjarasamningum minna stéttafélaga. Ef ég skoða laun hjúkrunarfræðinga sem dæmi þá er ljóst að við höfum dregist hrikalaega langt aftur úr öðrum stéttum auk þess sem launaviðmiðun er algjörlega á skjön við aðrar sambærilegar stéttir. Sjúkraliðar með framhaldsmenntun í öldrun, sem er á framhaldsskólastigi, slaga upp í laun mín. Hef ég um 25 ára starfsreynslu auk framahldssnám á háskólastigi. Þeirra laun eru hærri en mín sem starfandi framhaldsskólakennari. Ég er með kennsluréttindanám á háskólastigi. Ég er ekki að segja að sjúkraliðar eigi sín laun ekki skilið en hvað hefur gerst í minni stétt? Eintaklingur með stúdentspróf sem fær starf í banka er með hærri grunnlaun en hjúkrunarrfræðingar eftir 4 ára háskólanám. Það sama gildir þegar kennaralaun eru borin saman við umrætt nám á framhaldsskólastigi.
Sjálf tók ég þátt í kjarasamningum fyrir 11 árum þar sem m.a. framvindukerfið var tekið upp. Það hefur aldrei skilað mér neinu. Þó hafði ég tröllatrú á því kerfi á sínum tíma. Það hefur brugðist, ekki einungis innan minnar stéttar heldur og allra ríkisstarfsmanna.
Ef að líkum lætur, gefa nýgerðir kjarasamningar með aðkomu ríkisstjórnar, tóninn að þeim kjarasamningum sem framundan er. Ég sé enga ástæðu til bjartsýni, síður en svo. Kjarabætur ná ekki að vega upp á móti hækkun á neysluverði og vísitölu síðustu ára. Ef mín stétt á vel við að una, dugar ekki rúmlega 20% hækkun. Ég skil vel að tryggja þurfi stöðugleika í þjóðarbúskapnum en ef ég lít á stöðuna blákalt þá hefur hagnaður ríkissjóðs sjaldan verið meiri. Af hverju skyldi það vera? Tengist það etv. þeirri staðreynd að launum hefur verið haldið niðri í mörg ár og skattalækkanir ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda árum saman. Skattleysismörk standa í raun í stað, ár eftir ár.
Það má kannski til sanns vegar færa að einhverjar félagslegar úrbætur felist í nýgerðum samningum. Launþegar hafa barsist fyrir þeim áratugum saman þannig að kannski má segja að smásigrarnir liggi þar. Þeir vega hins vegar ekki nógu þungt til að réttlæta þessa snautlegu samninga, að mínu mati.
Ég treysti því að forystan í mínum stéttarfélögum hafi allar klær úti og gefi ekki eftir í komandi kjarasamningum. Hjúkrunarfræðingar hafa t.d. barist fyrir því að 80% vaktavinna jafngildi 100% starfi allt frá því að ég man eftir í kringum 1980. Við höfum aldrei náð því markmiði á tæplega 30 árum. Við höfum ekki náð sama vaktarálagi og ófaglærðar stéttir í ummönnunargeiranum sem og sjúkraliðar. Grunnröðun er ekki í neinu samræmi við nám og ábyrgð.
Ég trúi ekki öðru en að mín stéttarfélög berjist fyrir betri samningum, kjarbaráttan verður hörð en ég er þess fullviss að flestir séu tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná fram sanngjarnari kjörum og eðlilegu mati á störf okkar með réttmætu mati og verðmiða á þau.
Þeir samningar sem nú liggja fyrir, fá falleinkun hjá mér. Ég á erfitt með að trúa því að stjórnarandstaðan sé ánægð með þá. Samfylkingin sýnir enn annan viðsnúninginn og er kampakát. Ekkert nýtt í stöðunni á þeim bæ. Er ekki í lagi? Ég fæ hroll, bókstaflega
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Facebook
Athugasemdir
Flott samantekt hjá þér Guðrún Jóna. Ég hef miklar áhyggjur af ánægju Vilhjáms Egilssonar og stjórnmálamanna með þessa samninga. Bara það að þessir aðilar séu ánægðir segir mér að þessir samningar séu ekki góðir fyrir launafólk!
Hætti mér nú ekki út í umræður um launamál okkar sjúkraliðanna v/ launamál ykkar hjúkrunarfræðinganna, en treysti Elsu okkar til að upphefja störf okkar til þeirrar virðingar, sem þau eiga skilið.
Áfram launafólk!
Sigrún Jónsdóttir, 18.2.2008 kl. 13:24
Guðrún, þú ert góður penni. Og ég er algjörlega sammála þér, sé ekki hvað er svona gott við þessa samninga. En varðandi okkar kjör, þá er maður hæfilega bjartsýnn, en vonandi stöndum við saman og krefjumst leiðréttingar. Ef maður skoðar hvað aðrir háskólamenn, t.d. viðskiptafræðingar eru að fá, þá erum við mjög aftarlega á merinni. Af hverju á nýútskrifaður viðskiptafræðingur að fá meira en ég? Og ég er með yfir 25 ára starfsreynslu og framhaldsnám í Háskóla Íslands. Maður spyr sig, en það er fátt um svör. Baráttukveðjur,
Sigrún Óskars, 18.2.2008 kl. 18:24
Frábær lestur hjá þér Guðrún,
Sannarlega sammála hjá þér varðandi kjör hjúkrunarfræðinga. Nú þurfum við að snúa bökum saman varðandi okkar kjarabaráttu. Hættum að bera okkur saman við sjúkraliða ... ég vill bara að við verðum MIKLU ofar en sjúkraliðar. Ég vil fá námið mitt metið að verðleikum. Þetta er 4ja ára krefjandi háskólamenntun, þar sem við förum launalaus í verknám flestar annirnar og vinnum þar eins og hver annar á deildinni.
Ég vil fá góða samninga nú í ár og styð Elsu og Cissý í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur. Vegurinn er brattur en við verðum að ná upp á toppinn ... með einum eða öðrum hætti.
Baráttukveðjur ...
Hjördís Ósk (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 21:43
Takk fyrir commentin öll sömul. Ég er alveg sammála ykkur kollegum mínum hér varðandi forystuna okkar. Ég ber fullt traust til hennar. Það verður hins vegar á brattan að sækja, ekki í síst í ljósi þessar nýgerðu samninga. Ekki hjálpar það okkur að Viljhálmur Egilsson hefur verið í fararbroddi þar þó hann eigi ekki að koma nálægt okkar samningum.
Samanburður minn við sjúkraliða er eingöngu til að benda á hversu ólíkar forsendur virðast liggja að baki launaröðunar. Ég uni þeim vel að hafa sín laun en ég vil fá háskólanámið metið að verðleikum. Í þetta sinn er ég tilbúin að fara alla leið með öllum þeim ráðum sem þarf til. Við þurfum því að standa þétt á bak við forystu okkar.
Fjallið verður grýtt og illt yfirferðar m.v. áherslur núverandi ríkisstjórnar. Snýst ekki allt um einkavæðingu í dag?
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.2.2008 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.