16.2.2008 | 02:06
Þung vika
Vikan búin að vera býsna þung. Erfiðar hugsanir og mikið álag. Ekkert sem á að koma mér á óvart, vissi af álaginu og öllum tilfinningapakkanum sem myndi gera vart við sig. Var þó svolítið hissa hvað þessi tími tók á. Maginn gaf sig formlega með miklum látum í nótt og í dag. Hlaut að koma að því hugsaði ég með mér þegar allt fór af stað í nótt. Einkennilegt hvað næturnar verða fyrir barðinu alltaf, hef einhvern tíman sagt þetta áður. Í öllu falli fór þessi dagur fyrir lítið
Ég verð að viðurkenna að ég á langt í land í sorgarferlinu, heilmikil vinna eftir. Sjálfsásakanirnar verstar og nagandi óvissa. Íþyngjandi spurningar. Hefði ég getað afstýrt ósköpunum? Ég kem aldrei til með að fá að vita það. Mér finnst það vond tilfinning. Hef alltaf átt erfitt með að sætta mig við að fá ekki að vita allt sem mér finnst skipta máli. Eftir á að hyggja veit ég ekki hvernig við fórum í gegnum ferlið í fyrra. Stuðningur systkina minna, fjölskyldna þeirra og vina fleytti okkur ansi langt. Trúlega hefur ákveðinn dofi verið til staðar fyrstu vikurnar eftir andlátið. Var auk þess að berjast í lyfjameðferðinni. Það er eins og sársaukinn sé meiri núna að mörgu leyti, ég sé allt ljóslifandi fyrir mér, allt rifjast upp.
Hef tekið eftir því að daginn er farið að lengja, þvílíkur munur. Farið að birta um 9 leytið á morgnana. Vorið verður komið áður en maður veit af. Ég hlakka ekki lítið til. Finn að það er kominn framkvæmdarhugur í mig. Langar að fara að þrífa, mála, breyta og brasa. Af nógu er að taka í þeim efnum. Svo ekki sé minnst á garðinn og lóðina. Listinn sem sé langur, mér á ekki eftir að leiðast.
Strax farin að hugsa um sumarið. Tryggvi, bloggvinur minn, hefur verið ötull að minna mig á hrossin mín. Auðvitað á ég að taka þau suður. Það yrði frábært ef það gengi upp að finna laus pláss fyrir þau. Það hefur reyndar aðeins haldið aftur af mér að vera ekki búin að ákveða hvar ég vil búa. Mér gengur hægt að taka ákvörðun um þau málefni. Hef engan áhuga á höfðuborginni, vil vera í ,,sveitinni", í öllu falli nær náttúrunni og kyrrðinni. Hafa nóg pláss fyrir mig og hundana og geta hleypt þeim út, öðruvísi en í spotta.
Allt tekur tíma og góðir hlutir gerast hægt, stendur einhvers staðar. Þó mér liggi á að framkvæma sem mest og ljúka sem flestu þá ætla ég ekki að flýta mér við ákvörðun um næstu skref í mínu lífi. Mér dugar að taka einn dag í einu í þeim efnum. Finnst ótrúlegt að ég skuli hafa sloppið eins vel og raun ber vitni og er farin að leyfa mér að horfa fram í tíman og láta mig dreyma. Það hefur skipt sköpum að eiga góða að. Þar hef ég verið heppnari en margur.
Þeir standa okkur næst
sem skilja hvað lífið er okkur,
geta sett sig í okkar spor,
tengst okkur í sigrum og ósigrum,
og brjóta álög einmanaleikans.
(Henry Alonzo
Horfi bjartsýn fram á veginn. Eins og dóttir mín orðar það á heimasíðu sinni: lífið er eins skemmtilegt og þú vilt hafa það
Athugasemdir
Orðfátt, því bara kvitt.
Blogg er eins og samtal við fólk í fullum sal
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 16.2.2008 kl. 08:54
Bradum kemur betri tid med blom i haga, saeta langa sumardaga.
Hólmdís Hjartardóttir, 16.2.2008 kl. 09:18
Núna þarf ég að fletta afturábak í blogginu þínu til að vita betur hvað skeði en ég votta þér samúð mína og hvet þig áfram í baráttunni, ég er í sömu sporum og þú að langa nær náttúrunni og mig langar í hund og kött og helst í fleirtölu, kannski nokkrar hænur líka ...
Knús á þig ...
Maddý (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 13:08
Gangi þér vel í sorgarferlinu Guðrún. Sorgarferlið tekur tíma eins og við vitum (þessi 5 stig sem voru kennd í Hjúkrunarskólanum í den) og stuðningur ættingja og vina er ómetanlegur.
Ég er svo heppin að búa fyrir utan borgina, á Álftanesi, þar sem hestafólk er með hesta í haga fyrir aftan húsið mitt. Svolítið sveitó og allt annað en að vera bara með malbik og ljósastaura í kringum sig. Skil þig bara vel, sérstaklega ef þú hefur búið í alvöru sveit.
Sigrún Óskars, 16.2.2008 kl. 15:09
Elsku Guðrún mín,ég veit ekki hvað ég á að segjaorðlauség veit samt að lífið er oft and....óréttlátt og mismikið lagt á okkur mannfólkið en afhverju fá sumir meira en aðrir,og aðrir minna en hinir,guð ég vildi að ég vissi það,en ég veit það ,að þetta er sárt og mjög sárt og ég hef oft spurt sjálfan mig af því,gerði ég eitthvað svo slæmt í mínu fyrra lífi,sem kostar þennan mikla sársauka,ég vona ekki,en ég vildi að ég gæti tekið á móti þér og hjálpa þér að bera þessa þungu og miklu sorg,en ég get það víst ekki, nema bara með hlýju,ást og fallegum og hlýlegum orðum,því að falleg orð,hlý orð kostar ekki neitt,nema fallegt bros og yl í hjarta.kv.linda
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 16.2.2008 kl. 18:21
Takk fyrir þetta öll, smá lægð býst ég við hérna megin en ekkert alvarlegt. Hjartans þakkir fyrir hlýjar kveðjur. Orð gefa oft meira en maður hyggur.
Vissulega er hægt að fá húsnæði víða á landsbyggðinni Tryggvi en ég er nokkuð viss um að byggingakostnaður sé hinn sami, ef ekki meiri þar en á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst vegna flutningskostnaðar. Einnig erfitt að fá iðnaðarmenn þannig að þeir eru oft ,,,aðkeyptir" með tilheyrandi aukakostnaði. Ég væri svo sannarlega til í að drífa mig út á land en get ekki með nokkru móti ákveðið mig hvert ég vil fara. Að einhverju leyti háð vinnu.
Það er svo skrítið Sigrún, að eftir áratuga starf við hjúkrun og stuðning við ættingja og deyjandi sjúklinga þá virðist maður óttalega bjargalaus þegar þannig er ástatt hjá manni sjálfum. Hef þó trú á því að reynslan og þekkingin hafi sitt að segja. Álftanes er yndislegur staður og í raun sveit í borg. Átti þar æskuvinkonu sem ég dvaldi stundum hjá en sjálf er ég alin upp í Garðabænum. Er orðin rótgróin landsbyggaðtútta eftir áratuga búsetu fjarri höfuðborgarsvæðinu. Hitt er svo annað mál að maður getur ekki fest sig í fortíðinni, lífið heldur áfram og áherslur breytast. Er enn að leita af sjálfri mér
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.2.2008 kl. 00:31
Þú lætur okkur vita þegar þú finnur þig. . kv .
Georg Eiður Arnarson, 17.2.2008 kl. 17:56
Það eru til hesthús hér á Suðurnesjum og fullt af góðu húsnæði
sigrún sys (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 19:23
Þú ert sterk kona Guðrún Jóna. Ferlið tekur tíma, langan tíma.... en það smá léttist og sólin kíkir oftar og oftar í huga manns... uns hún skín látlaust á ný.
Anna Einarsdóttir, 22.2.2008 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.