10.2.2008 | 02:39
Enn og aftur brottför
Ungarnir mínir týnast úr hreiðrinu aftur smátt og smátt. Katan fór fyrir viku og eftir nokkra klukkutíma leggur Haffinn af stað. Sælan búin í bili. Búið að vera frábær tími sem hefur liðið allt of hratt. Við náðum ekki að gera það sem var á áætluninni, heimsóknir urðu af skornum skammti enda margt sem gerðist á örskömmum tíma. Við gerum bara betur næst, er hætt að stressa mig á því þó eitthvað verði að bíða. Veikindi hafa og sett nokkurt strik í reikninginn.
Er auðvitað pínu aum yfir því að missa krakkana út aftur en á móti kemur að ég er stolt af því sem þeir eru að gera og mjög sátt. Það verður tómlegt í kofanum, alla vega svona fyrst um sinn en ég hef meira en nóg að gera þannig að ég örvænti ekki. Mér mun ekki leiðast um of, nema á laugardagskvöldum. Þau eru einfaldlega ,,drep" leiðinleg.
Mér finnst það forréttindi að fá að sjá krakkana þroskast og verða sjálfstæða einstaklinga sem geta staðið á eigin fótum. Eitt af markmiðum mínum síðasta árið hefur einmitt verið það að sjá að þau geti tekist á við verkefni lífsins án þess að vera endilega í skjóli mínu. Það að þau ,,vaxi" frá mér á meðan ég er enn hér, er takmark út af fyrir sig. Fyrir 18 mán. hugsaði ég ekki einu sinni út í svona mál, fannst sjálfsagt að ég yrði hér til eilífðarnóns, ekkert öðruvísi þankagangur en hjá öðrum. Nú veit ég betur, tími okkar er takmarkaður og það þarf að fara vel með hann. Ég er hins vegar ekkert á förum á næstunni, það er ekki það. Mér liggur hins vegar kannski meira á en mörgum öðrum, á eftir að gera ótal hluti.
Kannski ætla ég mér of mikið, ég veit það ekki. Mér finnst það ekki. Forgangsröðunin er önnur, því er ekki að leyna. Eitt af því sem hefur breyst er það ég mér finnst algjör óþarfi að finna til og vera verkjuð. Vil að mér líði vel á meðan ég er ofan jarðar og ég sé engan akk í því að harka eitthvað sérstaklega af mér. Ég hef líkt og aðrir Íslendingar harkað af mér í gegnum tíðina og mun gera það áfram á flestum sviðum. Ég ætla hins vegar ekki að vera með einhverja sjálfspíningarhvöt.
Ég sé ekki heldur ástæðu til að dvelja við aðstæður sem ég er ekki sátt við né láta yfir mig ganga óviðeigandi framkomu. Ég get alveg leitt hjá mér þá sem eru þreyttir, illa stemmdir og láta það bitna á öðrum, t.d. mér. Ég get líka valið að umgangast ekki slíka einstaklinga. Þeir hafa nefnilega alltaf ákveðin áhrif á mann og draga aðra niður með sér. Í ,,gamla lífinu" lét ég ansi margt yfir mig ganga og þraukaði lengur en heilbrigt var við aðstæður sem ekki er mönnum bjóðandi. Í ,,nýja lífi" mínu eru áherslubreytingar hvað þetta varðar. Er hins vegar ekki enn búin að ákveða hvert ég stefni, er enn að læra á kompásinn og gengur það ágætlega.
Heilsan er svona upp og niður. Gærdagurinn var reyndar einn sá besti um all langt skeið, þrátt fyrir týpíska verkjanótt. Þessi dagur hins vegar síðri. Ég má reikna með að þurfa að vinna uppsagnarfrestinn sem óhjákvæmilega fylgir uppsögninni á veikindapakkanum. Í raun hef ég sagt veikindum stríð á hendur. Er reyndar ekki enn búin að kaupa mér kort á líkamsræktarstöð eða í jóga. Blómafrævlarnir ekki enn komnir inn í hús en allt er þetta í vinnslu og stendur til bóta.
Þorrablótinu fyrir vestan var frestað vegna veðurs og var ég fegin. Bæði út af veðurspá, brottör Haffa og ekki síst vegna tímasetningarinnar sem var óheppileg að mörgu leyti. Stutt í dánardægur Guðjóns og erfiður tími framundan. Sárin rifna upp.
Vona að Haffinn fái sæmilegt ferðaveður, ekki lítur það vel út hér á landi, flughálka á Reykjanesbrautinni og farþegar hafa þurft að kúldrast inni í vél í fleiri klukkutíma. Ég yrði laglega biluð ef það kæmi fyrir mig. Næ varla andanum á meðan vélin er á lofti sérstaklega ef loftræstingin er af skornum skammti. Hvað þá ef vélin er kyrrstæð og búið að drepa á öllum hreyflum. Það yrði tilefni til að ræsa út Neyðarlínuna Í öllu falli er flugið hans Haffa enn á áætlun og vonandi kemst hann á réttum tíma. Hefur þó nokkurn tíma til að hlaupa upp á í Köben, biðin þar 8-9 klst. þannig að það er ekki hundrað í hættunni þó fluginu seinki eitthvað.
Sjáum hvað setur, í öllu falli kominn tími á ræs, Haffi lagði sig í 1-2 klst. ég þorði ekki að sofna enda erfitt að vekja mig eftir stuttan svefn. Ég bæti mér það upp á morgun, á því er enginn vafi Hef meiri áhyggjur af Haffanum sem á framundan sólahringsferðalag
Athugasemdir
Já, ég skil þig 100% í sambandi við þennan tómleika á heimilinu. En hvað er þetta með laugardagskvöldin? Hvers vegna eru þau svona leiðinleg? Það er hægt að nota leiðinleg kvöld í kvöldgöngur og það er ekkert verra þótt veðrið sé vont, þ.e.a.s. ef maður á hlý föt og góða skó.
Gangi þér vel með uppsagnarfrestinn, vona að hann verði sem styðstur.
Sigrún Óskars, 10.2.2008 kl. 21:32
Ástarkveðjur til þín frá mér.
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 11.2.2008 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.