29.1.2008 | 22:35
Pestaryksuga
Einn bloggvinur minn kom með ágætis orð yfir pestasækni mína, þ.e. pestaryksuga. Það er svo sannarlega orð að sönnu. Búin að liggja eins og drusla í dag og haldið mér inni við. Betri af magakveisunni (vonandi ekki NORO) en með flensulík einkenni og skelfilega slöpp. Svitna við minnstu hreyfingu. Lýsing sem margur kannast við þessa dagana, trúi ég. Tími flensu og allra handa pesta núna.
Það dugir víst ekki til að vera iðinn við kolann í hinum ýmsu lyfsölum, kaupandi blómafrævla og alls kyns sólhatta og dropa. Ég þarf að fara pína þessu ofan í mig, glösin og innihaldið gera lítið gagn uppi í hillu hjá mér. Ótrúlegt hvað maður blekkir sjálfa sig.
Er annars á því að ég sé hitabeltisplanta og eigi að búa á suðlægari slóðum í sól og hita. Mér líður best í slíku umhverfi. Þarf eiginlega að fara á fá einhverja brilliant viðskiptahugmynd og koma mér á þær slóðir. Nenni þessu pestafargani engan veginn. Verð bæði hundfúl og naga mig að innan með sektarkennd, þoli ekki að geta ekki mætt til vinnu og staðið mína pligt. Einfaldlega þoli það ekki
Það er þó sitthvað sem léttir lund mína á þessum síðustu og verstu tímum. Ég komst í kynni við Maddý, þann frábæra ljósmyndara og er heilluð upp úr skónum. Ætla svo sannarlega að eignast myndir hjá henni. Hér kemur ein sem ég er dolfallin yfir; The last dance
Vona að þú takir þessu ekki illa Maddý, ég bara má til
Fleira hefur verið að gleðja mitt litla hjarta, komin í samband við aðra bloggvinkonu mína, Helenu sem á blindrahundinn Fönix. Helena er mjög sjónskert en málar engu að síður. Hvernig hún fer að því, veit ég ekki. Ótrúlega þrautseig og hörð af sér. Listræn í meira lagi og ekki skemmir að hún er Garðhreppingur. Myndirnar hennar eru stórgóðar. Hér kemur ein: Kyrrð
NB!ég er búin að panta hana
Hef aldrei gefið mér tíma né leyft mér að gæla við svona fallegar myndir en nú er rétti tíminn enda nýtt líf hjá mér
Í þriðja lagi hef ég heyrt frá einni hetjunni sem barðist við lungnakrabbamein og hafði betur. 4 ár frá meðferð, horfur ekki beint upplífgandi hjá henni í fyrstu en hér er hún enn, eldspræk og laus við sjúkdóminn. Þó ég viti að tölfræðilega sé þetta möguleiki er alltaf raunverulegra að heyra í einhverjum sem hefur gengið í gegnum þetta ferli og haft betur. Ekki síst á þessum tímum þegar hver hetjan af fætur annari hefur mátt láta í minni pokann.
Spennandi tímar framundan þrátt fyrir pestafár sem ég hyggst komast yfir hið snarasta.
Athugasemdir
Auðvitað tek ég þessu ekki illa Guðrún mín, ég er upp með mér
En ég vil endilega finna einhvern á Íslandi sem getur hjálpað mér til að koma myndunum frá mér á ódýrari hátt, við skulum bara flýta okkur hægt í þessum málum, við höfum nógan tíma
Maddý (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 18:50
Hvernig datt þér í hug Norge Helena? Það er svo kalt þar á veturna... Sumrin hljóta að vinna þann ókostinn upp.
Ég er eins og spenntur krakki að bíða eftir jólapakka, mig hlakkar svo til að eignast myndir, það hálfa væri nóg. Þið eruð báðar þvílíkar listakonur
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 30.1.2008 kl. 19:20
Gott að fá ferska vinda til að þyrla upp pestarumræðunni. Veðrið náttúrlega frábært þó kalt sé. Vona að við lifum ekki þessa þurrka sem þú spáir, Stýri. Við erum allt of vön góðu
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 30.1.2008 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.