Bloggið

Það er rúmt ár síðan ég fór að blogga. Var búin að íhuga að opna síðu í nokkurn tíma, fannst ég þurfa að tjá mig óhindrað um pólitískar skoðanir mínar. Reyndin varð önnur, ég fór að blogga í skömmu eftir að ég greindist og fór í lungnaaðgerðina. Umræðuefni mitt var fyrst og fremst veikindin, síðar sorgin en inn á milli pólitíkin.  Sat heima löngum stundum, vakti gjarnan þegar aðrir sváfu, svaf á meðan aðrir vöktu, ekki síst á meðan lyfjameðferðinni stóð.

Fór inn á margar síður en þær sem ég heimsótti mest voru síðurnar hjá Ástu Lovísu, Þórdísi Tinnu, Lóu, Hildi Sif og síðar Gíslínu og Sigríðar í Lindarbæ. Fylgdist með baráttu þeirra og átti oft ekki orð yfir því hversu hreinskilnar og jákvæðar þær voru gagnvart veikindum sínum. Allar voru þær hetjur í mínum augum og daglega lærði ég eitthvað nýtt. Það eru engar ýkjur þegar ég segi það að þessar konur hvöttu mig oftar en ekki áfram í minni baráttu. Sumum þeirra kynntist ég betur en öðrum eins og gengur og stóðu Gillí og Þórdís mér einhvern veginn næst þar sem ég kynntist þeim best. 

Allar þessar hetjur hafa nú kvatt jarneskt líf, sú fyrsta af þeim 30. maí og sú síðasta í gær, 21. jan.  Ég get ekki neitað því að mér er þungt fyrir brjósti og brugðið. Allar yngri en ég, Lóa yngst, var innan við tvítugt.  Allar börðst þessar hetjur af ærðuleysi, deildu með okkur sínum hugsunum, líðan, sigrum og sorgum. Maður getur ekki annað en spurt sig; hvar er réttlætið? Hjá sumum þeirra leit allt vel út um tíma og svo virtist sem þær myndu hafa betur en síðan tók líf þeirra óvænta stefnu. 

Ég veit að það liggur fyrir okkur öllum að kveðja þetta jarðneska líf einhvern tíman og fæst okkar vita hve langan tíma við fáum hér. Það breytir því ekki að flestir vilja vera hér sem lengst, getað fylgt sínum börnum eftir á þroskabrautinni og ,,lifa lífinu" til fulls fram á gamals aldur. Enginn getur svarað því af hverju sumir þurfa að fara fyrr en aðrir, af hverju sumir veikjast en aðrir ekki og af hverju áföllin virðast skella oftar á suma en aðra.  Til eru þeir sem trúa því að þau svör fáum við þegar okkar vist lýkur hér, vonandi er það rétt.

Það að greinast með krabbamein og aðra illvíga sjúkdóma er þungur dómur, bæði fyrir einstaklinginn og ekki síst aðstandendur. Lífið verður aldrei eins aftur. Fólk er alltaf á verðinum og bregst við öllum einkennum og teiknum á lofti. Eilíf óvissa; hvenær.........., ef........... En slíkur dómur er ekki bara neikvæður, maður lærir að meta lífið með öðrum hætti og fer að hugsa öðruvísi. Áherslurnar breytast, forgangsröðunin tekur nýja stefnu og tíminn verður dýrmætur. Maður kann betur að meta það sem maður hefur og hættir að hugsa um það hvað maður vildi hafa.

Sem betur fer læknast margir af krabbameini í dag. Auðvitað fer það eftir tegundinni, hversu langt sjúkdómurinn er genginn við greiningu o.fl. en horfurnar betri en voru fyrir áratug í mörgum tilfellum. Vonandi er ég sloppin, þannig lítur það út í dag og það liggur við að mér finnist það ósanngjarnt. Af hverju slepp ég en ekki hetjurnar mínar?

Ég veit hins vegar að ekkert er tryggt í þessum málum fremur en öðrum og við það þarf ég að lifa og ekki síst börnin mín. Sjúkdómurinn hangir yfir manni en það er ekkert vit í því að láta hann stjórna sér og sínum og leyfa honum að ráða för. Við sjálf verðum að halda um stjórnartaumana í okkar lífi á meðan við getum.

Eitt er þó víst að þær hetjur sem nú eru fallnar frá, ruddu brautina í umræðunni um krabbamein og þá baráttu sem því fylgir. Brautina ruddu þær á blogginu og höfðu víðtæk áhrif á samferðamenn sína. Þær höfðu mjög jákvæð áhrif á mig og mína líðan og fyrir það er ég þakklát.  En mikið sakna ég þeirra. Bloggheimar hafa einhvern veginn orðið fátæklegri með ótímabærri brottför þeirraHeart

roses and candles


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þessar hugsanir koma gjarnan upp hjá mér á barnadeildinn. Æðruleysi unglinga td. er oft með ólíkindum. Kenningin er sú að þau vilji hlífa foreldrum sínum. Nokkrar vinkonur mínar hafa greinst með krabbamein. Ein þeirra átti þá 4 ungar dætur. En ennþá hefur gengið bærilega hjá þeim flestum þótt þær séu ekki lausar. En þótt að vel gangi tekur þetta mikinn toll af öllum. Ég þekkti vel ungan mann sem greidist með krabbamein þegar hann var nýbúinn að eignast þríbura. Hann var dáinn fyrir tveggja ára afmælið þeirra. Hann var með brandara á vörunum til dauðadags. Slíkt er auðvitað gríma.  Við verðum að nýta lífið vel því við vitum aldrei hver er næstur. En það er í lagi að verða dapur, reiður og sorgmæddur. Við værum ekki mannleg án þessara tilfinninga. Til að þekkja gleðina þarf að þekkja sorgina. Gangi þér áfram vel í þinni baráttu. Kveðja

Hólmdís Hjartardóttir, 23.1.2008 kl. 00:16

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir þetta Hólmdís, þennan feril þekkir þú vel. Það veit ég. Það er alveg rétt hjá þér, gleðina getum við ekki þekkt nema að hafa kynnst sorginni.

Maður verður að nota tíman vel og lifa lífinu lifandi.  

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.1.2008 kl. 00:18

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

roses and candles

Til minningar þeirra sem fallnir eru frá.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.1.2008 kl. 02:02

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sammála þér Guðrún , að lifa lífinu lifandi.   Kær kveðja .

Georg Eiður Arnarson, 23.1.2008 kl. 08:01

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Við sem bloggum erum í raun að skrifa okkar eigin minningargreinar og skiljum eftir okkur bergmála í bloggi við brottför.

Velti stundum fyrir mér hvað verður um þetta blogg okkar, verður því eitt ef við eru óvirk í einhvern tíma eða verður afrit vistað fyrir afkomendur og sagnfræðinga framtíðar.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 23.1.2008 kl. 09:03

6 Smámynd: Sigrún Óskars

Guðrún, enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna er mikilvægt að njóta dagsins eins og við getum og lifa lífinu lifandi.

Gangi þér vel, kveðja,

Sigrún Óskars, 23.1.2008 kl. 13:49

7 identicon

Guðrún, þú stendur þig eins og hetja.

Inga (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 15:22

8 identicon

Hefði gaman af að hafa samband við þig. Er búin að fara í lyf og skurð - fyrir töluvert löngu - . I.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 22:23

9 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Mikið rétt hjá ykkur öllum, hjartans þakkir fyrir innlitið og kveðjurnar.

Segi það sama Ingibjörg. Netfangið mitt er gjg1@hi.is. Gaman væri að heyra frá þér. 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.1.2008 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband