21.1.2008 | 21:29
Í hringi
Ég snýst í hringi núna, líkt og aðrir landsmenn. Hvernig má annað vera í þeim pólitísku sviptingum dynja yfir borgarbúa og landsmenn alla í raun? Sagan að endurtaka sig, einungis 103 dagar síðan borgarpólitíkin tók óvænta stefnu, eiginlega um 360°! Grunnurinn virðist ekki síður veikur nú og þá. Hvernig ætlar Ólafur F. Magnússon að standa vaktina einn, ekkert bakland. Er í raun flokkslaus, yfirgaf sinn flokk með Margréti Sverris á sínum tíma og nú fylgir hún ekki ,,guðföður" fráfarandi meirihluta. Kannski hún verði búin að skipta um skoðun í fyrramálið, það er aldrei að vita og ekkert kæmi á óvart í þeim efnum sem öðrum í pólitíkinni.
Villi hlýtur að vera kampakátur og vonandi hefur borgarflokkur Sjálfstæðismanna náð að efla liðsheildina. Menn virðast sáttir innbyrðis enda búnir að læra af biturri reynslu. En ,,come on" til hvers eru kosningar og hver er tilgangurinn með því að fara á kjörstað og kjósa? Kjörnir fulltrúar haga seglum eftir vindum hverju sinni og það fer ekki fram hjá neinum að vindáttin er síbreytileg í pólitík Reykjavíkurborgar. Hvar er ábyrðgartilfinning kjörinna fulltrúa gagnvart kjósendum?
Menn tala um traust, trúnað og trúverðugleika hver ofan í annan. Ég fæ ekki séð að nokkur af þeim kjörnum fulltrúum í Reykjavíkurborg eigi þá innistæðu. Menn stinga hvorn annan í bakið og á hol eins og ekkert sé og halda svo áfram með næsta þar til þeir eru komnir allan hringinn. Minnir mig á Sturlungaöld hina síðari vestur í Dölum, sem mörgum þótti ekki til eftirbreytni
Ég get ekki sagt að ég þekki væntanlega borgastjóra nokkuð skapaðan hlut, hann virðist þó hafa nokkur áhrif innan borgarstjórnar úr því honum tekst að mynda í raun 2 nýja meirihluta á rúmlega hundrað dögum. Hann hlýtur að vera klókur á einhverjum sviðum en mér sýnist hann hafa reist nýja bústað sinn á sandi núna. Sá maður sem hefur ekkert bakland stendur ekki lengi vaktina einn uppi í brúnni. Það gefur auga leið. Það á hann einnig að vita enda læknir. Þeim virðast fjölga ofurlæknunum, hann skipar sér í hóp ofurlæknisins fyrir vestan sem er allt í öllu, allan sólahringinn.
Eitthvað virðast fyrri veikindi vera viðkvæmt mál fyrir Ólaf, ekki veit ég hvað plagaði manninn en hann er nýkominn úr rúmlega árs veikindaleyfi. Vill ekki ræða þau mál og telur allar spurningar þ.a.l. óviðeigandi og get ég að vissu leyti tekið undir það. Veikindi eru einkamál hvers og eins. Það er hins vegar eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að maðurinn sé í stakk búinn til að standa undir því mikla álagi sem framundan er. Það hefði því verið sterkt að upplýsa þjóðina og fullvissa hana um eigin styrkleika í þeim efnum.
Ég verð að segja eins og er, ég er með rugguveiki líkt og aðrir. Hvernig má annað vera? Hversu margir nýjir meirihlutar verða myndaðir fram að næstu kosningum? Í öllu falli tel ég þá sem hafa staðið að þessum sviptingum öllum, rýtingsstungum og trúnaðarbresti vera búna að stimpla sig út úr pólitíkinni í framtíðinni. Hef ekki trú á því að borgarbúar né aðrir, séu tilbúnir að treysta þeim aftur. Menn voru kosnir vegna stefnu þeirra og málefna, treyst til að fara vel með það umboð og vinna að þeim áherslumálum sem þeir settu á oddinn. Þeir skipta svo um hest í miðri á, jafnvel oftar en einu sinni og kjósendur hafa ekkert um það að segja, ekki fyrr en í næstu kosningum. Hverjum verður þá treyst til að fara með völdin?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Facebook
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn keypti Ólaf
Hólmdís Hjartardóttir, 22.1.2008 kl. 00:20
Algjörlega sammála ykkur báðum, Ólafur lét kaupa sig. Er sannfærð um að þú hafir rétt fyrir þér Tryggvi, varðandi dvergana 6.
Mér til mikillar undrunar virðist formaður Frjálslynda og fleiri fagna ákvörðun Ólafs og styðja hann. Margir fagna í þeim herbúðunum. Maðurinn rauk úr flokknum með hurðaskellum og látum ásamt Margréti.
Ég hef talið mig fygjast nokkuð grannt með pólitík en vá, hlutirnir gerast hratt. Eftir á að hyggja ætti maður kannski ekki að vera undrandi á þessum útspili Sjálfstæðismanna. Þeir hafa verið óvenju þögullir síðustu vikur en engu að síður kampakátir.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.1.2008 kl. 13:42
kvitt-kvitt og kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 22.1.2008 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.