17.1.2008 | 22:14
17. janúar
Þessi dagur hálfheilagur hjá mér. Dánardagur móður minnar; Auðbjargar. Hún lést þennan dag fyrir 8 árum eftir óvenju harða, illviga en stutta baráttu við lungnakrabbamein. 'Atti í raun aldrei von um bata, það sér maður best eftir á. Sjúkdómurinn orðinn mjög útbreiddur þegar hún greindist og frumutegundin trúlega sú illvígasta sem hægt er að fá (neuroendocrine). Var búin að vera lengi með sterkar vísbendingar en féllst ekki á að fara til læknist. Hafði orðið fyrir mjög neikvæðri reynslu 34 árum áður, greindist þá með leghálskrabbamein og var afskrifuð strax af hennar lækni. Hún einungis 37 ára og átti 8 börn, það yngsta 2 ára. Hún neitaði að gefast upp, krafðist erfiðrar meðferðar sem var á tilraunastigi; radium geislar, sem voru gefnir í fantaskömmtum. Geislunin svo gríðalega að eftir að radiumhylkinu hafði verið komið fyrir, var sjúkrastofunni lokað í rúman sólahring og konurna rmáttu bjarga sér sjálfar, fárveikar. Enginn vildi koma inn í alla geislana en þegar verst lét, fór einn hjúkrunarfræðingur inn og sinnti móður minni og gaf henni verkjasprautu. A.ö.l. varð hún að láta sig hafa þetta, með uppköst og mikla verki, stundum með annarri konu í sömu aðstöðu. 6 konur hófu þetta tilraunaverkefni, móðir mín var ein sem lifði sjúkdóminn og meðferðina af. Krafðist síðar aðgerðar þar sem restin af meininu var fjarlægð. Enginn myndi sætta sig við slíka meðferð í dag en ávinningur hennar og okkar var 32 ár sem hún fékk og kom okkur öllum til manns. Hún vissi ábyggilega hvað bjátaði á síðustu mánuðina áður en hún greindist, það vissi ég líka. Hún þurfti hins vegar að ljúka ýmsu áður en hún tók á veikindunum.
Naflastrengurinn slitnaði aldrei á milli mín og móður minnar og var hún minn helsti trúnaðarvinur í gegnum súrt og sætt. Lá aldrei á skoðunum sínum og eins og ein vinkona hennar sagði í minningagrein um mömmu; hún var bæði gull og grjót. Hún vissi og sá meira en margur enda framúrskarandi næm. Það þýddi lítt að fara á bak við hana, man hvað mér fannst það bölvað á unglingsárunum. Hún varði sig og sína af mikilli hörku og brást mjög harkalega við öllu ranglæti enda með ríka réttlætiskennd.
Mér hefur oft fundist sárt að missa foreldra mína svo snemma, mamma nýorðin sjötug og pabbi sem fór 7 mán. síðar aðeins 69 ár úr sama sjúkdóm en var með aðra frumutegund. Það er trúlega engin tilviljun að ég fékk bland í poka, sem sé frumtegundir beggja, þ.e. neuroendocrine og adenocarcinoma.
Ég er þess fullviss að margt hefði farið öðruvísi hjá mér á Sturlungaöld hinni síðari, ef ég hefði notið þeirra og getað sótt í þeirra reynslu- og viskubrunn. Það á ekki síður við þegar Guðjón fór, ég er viss um að stuðningur þeirra hefði fleytt mér og ekki síst krökkunum langt og yfir erfiðustu tímana.
En þessu ráðum við ekki. Öll göngum við að því vísu að fæðast í þennan heim og kveðjast. Hvenær veit enginn fyrirfram en þangað til verðum við að nýta tíman vel og á þann hátt að maður sé sáttur að lokni ævistarfi, hversu langt sem það verður. Númer eitt, tvö og þrjú er í mínum huga að getað undirbúið krakkana undir slíkan viðskilnað og farið frá góðu búi. Slíkur valkostur er ekki alltaf í stöðunni. Ég hef þá trú að annað taki við eftir að jarvist lýkur og að brottför manns sé eftirlifandi erfiðari en þeim sem kveður. Kannski er það tóm eigingirni en rosalega sakna ég foreldra minna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2008 kl. 03:10 | Facebook
Athugasemdir
Mamma þín hefur greinilega verið sterk kona. Blessuð sé minning hennar.
Hólmdís Hjartardóttir, 17.1.2008 kl. 22:35
ps.fyrirgefðu hve langur minn pistill er kv.linda
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 17.1.2008 kl. 22:45
Georg Eiður Arnarson, 18.1.2008 kl. 10:09
Takk fyrir hlý orð, þið eruð yndisleg.
Ég heyri að þú kannast við lungnakrabbameinið Linda sem og önnur krabbamein. Sorginni hefur þú kynnst allt of ung og þekki því hversu erfitt það er þegar nákominn tekur sitt eigið líf. Eftir situr maður með svo margar spurningar sem aldrei fást svör við, sjálfsásökun og stundum myrkur.
Ég þarf ekki að kvarta, nú er rétt rúmlega ár liðið síðan ég greindist, var örugglega orðin veik 2003 enda æxlið stórt. En hér er ég enn, slapp við meinvörp og enn sem komið er laus við sjúkdóminn. Ekki eru allir jafnheppnir og ég hef verið.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.1.2008 kl. 21:55
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.