13.1.2008 | 01:25
Berklar
Vísir blæs upp frétt um mann með ,,meint berklasmit" í tengslum við áflog eða árás á annan mann. Maðurinn útlendingur. Það hlaut svo sem að koma að því að fjölmiðlar tækju við sér vegna berkla sem víða eru vandamál í Evrópu, USA, Indlandi, Afríku og ég veit ekki hvar og hvar. Hitt er svo annað mál að mér finnst óþarfi að rjúka upp til handa og fóta með æsifrétt, við erum búin að búa við þá staðreynd að hingað eru fluttir ótal einstaklinga sem eru með bakteríuna í sér, einkennalausir eða veikir. Allt frá því að landið var galopnað og dregið úr sóttvörnum landsins, ekki síst með því að leggja af berklaeftirlit nýbúa frá EES löndunum.
Við Íslendingar náðum að hindra útbreiðslu berkla á síðustu öld og síðusta áratuginn hafa einungis innan við 20 einstaklingar greinst með smit á hverju ári. Við vorum með virkt berklaeftirlit bæði í skólum og á vinnustöðum og algengt var að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn allt fram á 8. áratug síðustu aldar gegn berklum. Fyrir rúmum áratug taldi sóttvarnaeftirlitið okkur hafa náð það góðum árangri í berklavörnum að hefðbundið berklaeftirlit var lagt niður. Of dýrt og svaraði ekki kostnaði.
Hins vegar voru allir útlendingar sem hingað komu til að stunda vinnu, allir berklaprófaðir og heilsufarsskoðaðir áður en þeir fengu atvinnuleyfi. Líður í sóttvörnum landsins. Þeir sem greindust með smit voru einfaldlega meðhöndlaðir líkt og við Íslendingar. Þetta eftirlit er ekki lengur til staðar nema hjá útlendingum utan EES landanna. Í dag ganga menn beint að atvinnu hér, ekkert eftirlit að neinu tagi svo fremi sem þeir komi frá EES löndunum, jafnvel þó berklar séu víða vandamál í þeim löndum. Ekki einungis hefðbundinn stofn berklabaktería sem veldur usla heldur og einnig fjölónæmir stofnar sem fátt eitt bítur á.
Berklar geta verið lúmskur sjúkdómur, hinn sýkti oft einkennalaus eða með væg, almenn einkenni. Margir bera því bakteríuna í sér án þess að hafa hugmynd um það og án þess að vera veikir. Talið er að um yfir þriðjungur íbúa heimsins séu útsettir fyrir bakteríunni og nýtt smit eigi sér stað á einnar sekúnda fresti. Dulinn og einkennnalus sýking algengust en tíundi hver af smituðum fær virka berkla. Tölur frá 2004 staðfesta að 14.6 milljónir manna hafi með króníska og virka berkla, ný tilfelli um 8,9 milljón og 1,6 milljónir manna létust. Talið er að í 20% tilfella sé bakterían ónæm fyrir hefbundnum lyfjum og 2% ónæm fyrir ,,varalyfjunum". Þessar tölur hafa hækkað síðan.
Bakterían ræðst yfirleitt á lungun en getur verið til staðar í taugakerfinu, sogæðakerfinu, blóðrásarkerfinu, kynfærum, beinum og liðum og jafnvel í húðinni. í 75% tilfella verða lungun fyrir barðinu og eru helstu einkennin verkur fyrir brjósti,hósti með uppgangi sem varir í meira en 3 vikur, hiti og kuldahrollur, nætursviti, lystarleysi, þyngdartap, húðfölvi og viðkomandi hefur skert úthald og þreytist fljótt. Einkenni sem geta bent til margs annars, s.s. flensu, berkjubólgu o.fl. Fáir kveikja á perunni enda fræðsla um sjúkdóminn meðal almennings af skornum skammti.
Þegar hinn sýkti hnerrar, talar, kyssir eða hrækir berast sýktir dropar út í andrúmsloftið. Hver dropi sem getur verið 0.5 to 5 µm í þvermál og hvert sinn sem viðkomandi hnerrar geta 40.000 slíkir dropar borist í andrúmsloftið. Það þarf ekki marga dropa til að valda smiti hjá næsta manni.
Sjúkdómurinn er útbreiddur, eins og sjá má.
World TB incidence. Cases per 100,000; Red = >300, orange = 200300; yellow = 100200; green 50100 and grey <50. Data from WHO, 2006.
Þróun berklatilfella í heiminum síðan 1990:
Kúrvan á hraðri uppleið
Fjölmargir bera bakteríuna án þess að gera sér grein fyrir því og eftir að sóttvarnaeftirlitið slakaði á klónni er augljóst að smit hlýtur að grassera. Það er ekki fyrr en einhver er orðinn veikur og þarf jafnvel á sjúkrahús að menn kveikja á perunni, berklaprófa þann veika og komast að smitinu. Í gang fer ákveðið ferli, allir sem hafa starfað með eða eru í návígi við viðkomandi eru berklaprófaðir. Þeir sem reynast jákvæðir, eru rannsakaðir enn frekar og sýni þeir einhverjar breytingar á lungnamynd, eru þeir meðhöndlaðir með lyfjum.
Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af er sú staðreynd að fjölmargir eru smitaðir án þess að vera greindir, berklaeftirlitið er slappt. Menn hafa sofnað á verðinum og miðað við flæði útlendinga til landsins kemur að því að við fáum fjölónæma bakteríustofna sem ekkert bítur á, hafi það þá ekki gerst nú þegar. Fjölónæmir berklar eru mikið vandamál í mörgum fyrrum Sovétríkjum, einkum
Eystrasaltsríkjunum svo dæmi séu nefnd. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru berklar mjög útbreiddir.
Hvað voru menn að hugsa hjá sóttvörnum ríkisins og í þeirri ríkisstjórn sem lagði af berklaeftirlit með öllum útlendingum, í skólum og á vinnustöðum?.Vissulega kostar eftirlitið en einungis brot af því sem það kostar að meðhöndla þann fjölda sem greinist svo ekki sé minnst á þjóðhagsleg áhrif.
Umræðan hefur ekki farið hátt, menn forðast að tala um þessar staðreyndir enda rasistastimpilinn sem Frjálslyndir fengu fyrir síðustu kosningar ekki eftirsóknarverður. En hvernig í ósköpunum er hægt að tengja berklaeftirlit og annað smitsjúkdómaeftirlit við rasisma? Mér er það með öllu óskiljanlegt.
Við skulum ekki gleyma því að okkur tókst að útrýma fleiri sjúkdómum en berklum á síðustu öld. Barnaveiki og mænusótt sjáum við ekki lengur. Kíghóstatilfellin ekki mörg, stífkrampi ekki algengur. Bólusetningar hafa komið í veg fyrir þessa sjúkdóma og við höfum náð feikigóðum árangri. Hvað varir sá góði árangur lengi? Ýmsar aðrar þjóðir hafa ekki náð svona langt.
Við skulum einnig hafa það í huga að eyðni er víða landlægur sjúkdómur og hvert er eftirlitið með þeim sjúkdóm hér á landi? Meðal Íslendinga takmarkast reglulegt eftirlit við þungaðar konur. Þeir útlendingar sem eru tékkaðir koma frá löndum utan EES svæðisins. Öðrum þjóðum stendur slíkt eftirlit ekki til boða af fyrra bragði.
Ég er svartsýn þegar kemur að berklum hér á landi. Tel að stjórnvöld hafi sofnað á verðinum með frjálsu flæði útlendinga til landsins án þess að viðhafa heilsufars- og smitsjúkdómaeftirlit. Flestir útlendingarnir koma frá EES löndunum, hafa trúlega enga hugmynd um það hvort þeir beri bakteríuna í sér eða aðra smitsjúkdóma. Margir þeirra óskráðir í landinu og engin leið að fylgjast með því hverjir eru smitaðir eða veikir. Ekki víst að skráðum tilfellum fari fjölgandi á næstu árum, ekki fyrr en fjöldi þeirra sem veikist og þarf læknishjálp eykst og er ég hrædd um að þá séum við að tala um faraldur.
Kannski þessar hugleiðingar verði taldar ,,rasismi". Ég er ekki sammála því, flokka þær undir staðreyndir, áhyggjur og gagnrýni stjórnvöld fyrir ábyrgðarleysið í þessum efnum. Aðeins eitt stjórnmálaafl vakti athygli á þessum málum fyrir síðustu kosningar og gerir enn. Meðlimir þess lentu nánast í aftöku ,,í beinni" þar sem þeir þorðu að vekja athygli á þessum málum. Okkur hættir nefnilega til að gleyma okkar skyldum gagnvart þeim útlendingum sem hingað sækja. Þeir eiga sama rétt og við til heilbrigðiseftirlits og þjónustu. Okkur ber að sjá til þess að þeir fái hvorutveggja auk viðeigandi meðferðar, líkt og við Íslendingar! Sá réttur er ekki bundinn stjórnmálaflokki heldur stjórnarskránni og mannréttindum. Á það hafa hins vegar Frjálslyndir réttilega bent.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:33 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil, deili með þér þessum áhyggjum. Berklar blossuðu upp í MA þegar ég var þar fyrir margt löngu. Ég fór að vinna í Danmörku fyrir 24 árum, þá var ég berkaprófuð, tekin lungnamynd , blóð-og þvagprufur. Eitthvert eftirlit ætti að vera sjálfsagt.Það er ekkert grín að fá þessa ónæmu berklabakteríu inn í landið. Áhyggjur af því hefur ekkert með fordóma að gera. Ekki upplifði ég neina niðurlægingu þótt ég þyrfti að skila heilbrigðisvottorði áður en ég fór að vinna í Danmörku. Allir sem koma af erlendum sjúkrahúsum eru settir í einangrun[VEGNA MÓSA].
Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2008 kl. 01:43
Takk fyrir þessa fínu úttekt á þessu alvarlega vandamáli í mörgum löndum . kveðja.
Georg Eiður Arnarson, 13.1.2008 kl. 11:47
kvitt'búin að lesa og góðar kveðjur .
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 13.1.2008 kl. 14:51
Takk fyrir þennan pistil, mjög fróðlegur. Einu hef ég áhyggjur af, það er hætt að berklaprófa skólabörn, það á reyndar að taka skólahjúkrunarfræðinga úr skólunum (til að spara). Umhugsunarvert.
Fyrst þú minntist á eyðni og HIV þá er mér minnistætt að 3ja heimsríkið Brasilía gefur smokka (var þar fyrir 2 árum), þeir eru bara ókeypis, en hér í ríka landinu þurfa unglingar að kaupa þá dýrum dómum.
kveðja,
Sigrún Óskars, 13.1.2008 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.