12.1.2008 | 16:02
Erfiðir einstaklingar
Öll þekkjum við það að umgangast erfiða einstaklinga, bæði í vinnu, vinahópnum, pólitíkinni og jafnvel heima. Stundum ná þeir að gera okkur lífið leitt, draga okkur niður og jafnvel kippa undan okkur fótunum í tilverunni.
Fræðin eru skýr og afdráttarlaus þegar kemur að því að greina og lýsa erfiðum einstaklingum sem flokka má niður eftir ,,hegðunareinkennum"
Fyrst ber að nefna leynimorðingjan eða leyniskyttuna sem eru erfiðustu einstaklingarnir. Þeirra aðalsmerki er að ráðast á fólk aftan frá, jafnvel að því fjarstöddu en eru sakleysið uppmálað þegar málin eru rædd og koma ofan af fjöllum. Þessir kafbátar hæða nánungann og gera lítið úr honum, eru stöðugt með gagnrýni og spinna upp gróusögur eins og þeim sé borgað fyrir það. Þeir eru duglegir að afla sér fylgis og safna klíku í kringum sig þar sem sannleikanum er hagrætt eins og hentar hverju sinni. Sá sannleikur verður ,,hinn eini sanni" og óskráð lög. Ná oft miklum völdum og komast til æðstu metorða enda með sterkan stuðningsmannahóp í kringum sig. Mestu skaðræði af augljósum ástæðum, ekki síst í pólitíkinni enda erfitt að standa þá að verki og afhjúpa þá
Næstir koma einræðisherrarnir sem fara hátt og ná völdum með því að gera lítið úr öðrum. Eins og gefur að skilja, eru orð þeirra lög. Þeir taka ekki þeim hugmyndum vel sem stangast á við þeirra eigin og verð fljótt reiðir. Eru auk þess oft algjörlega óútreiknanlegir og fara oft yfir strikið í samskiptum. Hafa náttúrlega litla sjálfsstjórn enda stjórnast þeir af eigin reiði og pirringi. Kurteisi er ekki hugtak í þeirra kokkabókum, takmarkast af því að biðjast afsökunar á yfirgangi sínum þegar þeir telja það nauðsynlegt. Eins og gefur að skilja er sjaldnast rými fyrir fleiri en einn einræðisherra í hópnum. Þessir einstaklingar eiga það til að kúga aðra og misbeita valdi sínu til að koma eigin hagsmunum í gegn. Margur einræðisherran í pólitíkinni hef ég trú á eða hvað
Þriðji hópurinn eru skoðanaleysingjarnir. Þeir eru eftirlátssamir og hafa mjög ríka þörf fyrir að láta öðrum líka við sig, eiga erfitt meða að taka ákvarðanir og slá öllu á frest. Eru fljótir að samþykkja hluti en ekki jafn tilbúnir til að standa við þá síðar og því erfitt að treysta á þá. Auðvelt að hafa áhrif á þá og móta eins og leir.
Hinir þöglu fylgja fast á eftir. Segja aldrei neitt af fyrra bragði, svara gjarnan með eins atkvæðis orðum. Þeir hafa yfirleitt einhverjar skoðanir en láta hana ekki uppi þannig að við vitum sjaldnast hvar við höfum þessa einstaklinga. Eru oft ansi litllausir í samskiptum og ,,leiðinlegir". Erfitt að vita t.d. hvar maður hefur þá.
Fimmta hópinn skipa vitringarnir eða ,,besserwisserarnir". Sjálfstraustið ætlar þá lifandi að drepa enda vita þeir allt og eru sérfróðir í öllu. Þeir hafa einnig lag á því að tjá sig með þeim hætti að svo virðist sem kunnátta þeirrra og ,,sérþekking" sé gríðaleg og auðvitað einstök. Þeir geta verið mjög sannfærandi þó innihaldið sé rýrt. Þeir reyna að selja öðrum allt. Allt snýst um þeirra eigin skoðanir, aðrar koma ekki til álita enda ekkert pláss fyrir þær. Komi það hins vegar í ljós að þeir hafi rangt fyrir sér, eru þeir með það algjörlega á hreinu af hverju það er og hverjum það er að kenna. Auðvitað ekki þeim sjálfum.
Sjötta hópinn skipa nöldrararnir sem hafa allt á hornum sér. Líf þeirra gengur út á að gagnýrna allt og alla í kringum sig. Alltaf finna þeir einhvern sem ekki er að gera hlutina eins vel og skyldi og alltaf vantar sökudólg fyrir vandamálunum. Nöldrararnir eru síkvartandi undan okkur við aðra og undan öðrum við okkur. Oftar en ekki heyrum við yfirlýsingar frá nöldraranum eins og ,, aldrei er neitt gert fyrir okkur" ,,ég hef aldrei verið spurður álits", ,,djö... drasl er í kringum þig". Nöldrarin tekur aldrei ábyrgð á sinni óánægju, hún er alltaf öðrum að kenna. Hafa mjög eyðileggjandi áhrif á móralinn eins og gefur að skilja.
Fáir hópar eru án fýlupúka. Þeir eru kannski ekki endilega að láta uppi óánægju sína í orðum heldur fremur með þögulli tjáningu sem allir verða þó varir við. Fýlupúkarnir eru sjaldnast kaldrifjaðir og ætla sér etv. ekki að stjórna öðrum með fýlunni, eru yfirleitt ekki meðvitaðir um hana. Þeir vita hins vegar ekki hvernig þeir eiga að koma óánægju sinni á framfæri öðru vísi en með skeifu og vanþóknunarsvip og eru því öðruvísi en nöldrarinn að því leytinu til. Það er ekki auðvelt að fá eitthvað upp úr fýlupúkanum þegar hann er spurður að því hvað sé eiginlega að. Ósköp drungalegur og vansæll einstaklingur í samskiptum og dregur aðra niður.
En hvað er til ráða? Erfiðir einstaklingar eru til alls staðar í kringum okkur og í sumum tilfellum er einn af öllum ,,tegundunum" í hópnum okkar eða vinnustaðnum. Ég held að besta ráðið er að horfa á þessa einstaklinga út frá þeim veikleikum sem stjórnar þeim. Í öllu falli er lífið stutt og við eigum ekki að láta erfiða einstaklinga skyggja á lífsgleðina, hamingjuna og lífsgæðin.
Athugasemdir
Heil og sæl og gleðilegt árið. Takk fyrir innlitið. Já, ofurmenn virðast til í raunveruleikanun, ekki einungis í bíómyndum
Er á mínum stað
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 12.1.2008 kl. 17:47
Hvar er eg tha?Eg veit naestum thvi allt en kann ad halda kjafti ef eg get ekki sannad mitt mal Nei thettad er bara soldid rett hja ther
Ásta Björk Solis, 12.1.2008 kl. 22:35
Þetta maður þekkir maður allt. Góður pistill
Hólmdís Hjartardóttir, 12.1.2008 kl. 22:56
Hvað skyldir þú vera með mörgum týpum á hverri vakt Hólmdís?
á Dropanum????
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 12.1.2008 kl. 23:02
Já, var á vakt á barnadeild þegar ég svaraði áðan. Gaman að þessum pistli. Ég var einmitt að hugsa um það í dag hversu misvel fólk höndlaði völd. Og hversu misvel fólk getur tekið stjórn. Á vinnustað sérðu alla flóruna. Ég þekki bæði einræðisherrastíl stjórnanda og svo þekkir maður yfirmenn sem eru ófærir um að taka á vanda. En við þekkjum líka starfsmenn sem taka illa stjórn. Það er mikill munur á sjúkrahúsi og hjúkrunardeild. Á barnadeildum eru allir fagmenntaðir, allir eru vissir um sitt hlutverk og fólk vinnur vinnuna sína. Á hjúkrunardeild er hinsvegar fjölbreitt flóra starfsmanna sem margir eru óöruggir með sig. Það fólk þolir illa breytingar í vinnubrögðum og er hrætt við nýungar. Og þar eru einstaklingar sem ganga eins langt og þeir komast og taka því illa þegar sagt er hingað og ekki lengra. Svo stjórnmálin, það eru margir einræðisherrar við völd.
Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2008 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.