9.1.2008 | 23:48
Hæfniskröfur bæjarstjórnar- og sveitarstjórnarmanna
Hnaut um áhugverða lesningu í kvöld. Elliði, bæjastjóri Vestmannaeyja kvartar sáran yfir stöðu þeirra byggða sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Kennir þingmönnum um alvarlega stöðu mála og þá helst þingmönnum Frjálslynda flokksins og jú, einhverjum öðrum líka. Vildi hins vegar ekki nafngreina þá sem hann telur ábyrga. Mig skal ekki undra, hann getur ekki nafngreint einn þingmann Frjálslyndra sem ber ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í sjávarplássunum, ekki nema þá með því að fara með ósannindi opinberlega. Gæti reynst honum dýrt og því betra að loka þverrifunni. Honum reynist örugglega erfitt að nafngreina félaga sína og samflokksmenn. Er ekki núverandi sjávarútvegsráðherra Bolvíkingur og hefur setið í ríkisstjórn í meira en áratug? Hver skyldi ábyrgð hans vera í málefnum landsbyggðarinnar?
Viðtalið við Elliða vakti mig til umhugsunar um þá hæfni og kröfur sem eru gerðar til bæjar- og sveitarstjórnarmanna almennt. Þær eru í raun engar aðrar en þær að vera með lögheimili í því byggðalagi sem þeir starfa og vera fjárs síns ráðandi. Síðustu árin hefur borið á því að erfiðara er að fá fólk til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það undrar mig svo sem ekki enda pólitíkin hörð og óvægin, ekki síst í litlu klíkusamfélögunum þar sem áherslur og málefni ráða ekki för heldur fjölskyldu- og vináttubönd. Það er erfitt að fara gegn slíkum klíkum enda með ítök alls staðar. Seint verður hægt að segja að pólitísk barátta innan litlu samfélaganna sé málefnaleg. Þar ræður skítkast og níð för. Allt týnt til sem hægt er að finna, ef ekkert finnst þá er það einfaldlega búið til og virðist engin takmörk á hugmyndaflugi manna í þeim efnum.
Skipta má þeim einstaklingum sem veljast til bæjarstjórna- og sveitarstjórnastarfa gróflega í tvo hópa; annars vegar þá sem sækjast eftir því að komast til valda og áhrifa til að svala eigin valdaþörf og hins vegar þá sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera samfélag sitt eftirsóknarvert og betra samfélag til að búa í. Sem sé af hugsjón og með þarfir íbúanna í huga. Vissulega er það til í dæminu að menn eru hreinlega tilneyddir að taka að sér þessi störf, ekki síst í allra minnstu samfélögunum og er það þá undir hælinn lagt hvorum hópnum þeir tilheyri eða jafnvel einhvers staðar á milli, hlutlausir og aðgerðarlitlir.
Í fyrrnefnda hópnum þar sem menn sækjast eftir áhrifum og völdum eru gjarnan einstaklingar sem þegar hafa nokkur ítök í sínu byggðalagi í krafti starfs síns; skólastjórinn, atvinnurekandinn, útgerðarmaðurinn, óðalsbóndinn, formenn stjórmálafélaga, bankastjórinn, jafnvel presturinn, sýslumaðurinn og læknirinn. Sem slíkir hafa þeir mikil áhrif og að viðbættum völdum og áhrifum sem bæjar- og sveitarstjórnarmenn hafa, eru þeim engin takmörk sett. Þeir hafa alls staðar ítök, áhrif og völd. Ráða í raun hverjir búa í sveitarfélaginu, hverjir fá atvinnu, lánafyrirgreiðslu, húsnæði, lóðaúthlutanir, leikskólapláss o.s.frv.
Völdin virðast ótakmörkuð, eigin áhuga- og hagsmunamál sett á oddinn og ná að öllu jöfnu fram að ganga. Ef einhver mótmælir er snarlega reynt að þagga niður í honum, með góðu eða illu. Valdamiklir einstaklingar eru vanir að safna í kringum sig hirð ,,já-manna" sem þóknast ,,leiðtoga" sínum í einu og öllu. Þannig spynnst eins konar valdaköngulóavefur inn í samfélagið, valdamaðurinn með ítök og þræði alls staðar þar sem skiptir máli. Þannig getur hann séð eigin hagsmunum borgið. Ósjaldan er ,,já-mönnum" hent út þegar búið er að nota þá til þess sem þeir eru ætlaðir til og nýjum hleypt inn fyrir hliðið.
Það er vissulega erfitt að gera ákveðnar hæfniskröfur til bæjar- og sveitarsjórnarmanna en ef litið er á eðli starf þeirra er ljóst að þeir þurfa að hafa haldgóða þekkingu í opinberri stjórnsýslu og stjórnsýslulögum. Hver einasta ákvörðun bæjar- og sveitarstjórnar er stjórnvaldákvörðun og ber að fara að lögum þegar þær eru teknar. Fjármál eru stór þáttur í störfum þeirra, þ.e. að ákvarða dreifingu og forgangsröðun á tekjustofnum sveitarfélaganna. Þeim ber að tryggja að lögbundnum verkefnium sveitarfélaganna sé sinnt og veita ákveðna grunnþjónustu sem einnig er bundin í lögum. Semja fjárhagsáætlanir, bæði til eins árs og þriggja ára og reka stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þurfa þ.a.l. að hafa haldgóða þekkingu í fjármálafræðum og þekkingu á hlutverkum sveitarfélaganna.
Slíka þekkingu og reynslu er ekki hægt að tileinka sér á stuttum tíma, það er hins vegar auðvelt að verða sér úti um grunnþekkingu á þessum sviðum og leita eftir sérþekkingu þegar það á við. Þá kröfu er hægt að gera til bæjar- og sveitarstjórnarmanna. Hún er sjálfsögð. Hins vegar má gera þær kröfur til bæjar- og sveitarstjóra að þeir hafi haldgóða þekkingu á málaflokkum á sveitarstjórnarstiginu og á fjármálum. Þeir eru jú framkvæmdarstjórarnir og sérfræðingarnir.
Við sem höfum búið eða búum í litlum samfélögum úti á landi, þekkjum áhrif þeirra sem sækjast eftir völdum og hafa ítök alls staðar. Gegna oft trúnaðarstörfum og sem slíkir hafa þeir aðgang að viðkvæmum upplýsingum um nánungann. Heilsufar, fjármál, fjölskyldumál. Klíkan allsráðandi, engum utanaðkomandi hleypt inn í sæluna. Þeir verða að sitja úti í kuldanum og láta þetta yfir sig ganga. Mótmælin of dýrkeypt, starfið getur fokið, búskapurinn, börnin látin gjalda þess o.s.frv. Hvernig er hægt að vera pólitískur andstæðingur bankastjórans, sóknarprestsins eða yfirlæknisins? Alfeiðingarnar auðvitað ,,disaster".
Íbúarnir verða að láta ýmsilegt yfir sig ganga og geta fátt gert í stöðunni, ekki nema á 4 ára fresti og ansi oft eru sárir íbúar fljótir að gleyma og fyrirgefa þá.
Sumir eiga ekkert erindi inn í pólitíkina og bæjar- og sveitarstjórnarmál. Eiga að halda sig við sitt fag. Elliði er dæmi um það, vinsæll kennari en kolómögulegur bæjarstjóri sem rýkur í fjölmiðlana um leið og honum mislíkar eitthvað. Hefur hátt enda með gjallarhorn í rassvasanum. Ætti að halda sig við lífsleiknina og starfið með unga fólkinu. Láta pólitíkina eiga sig. Það sama má segja um einn bæjarstjórann vestur á firðum. Ætti að halda sig við tónlistina og skipulagningu tónleika. Listinn ótæmandi í þessum efnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Facebook
Athugasemdir
Engin furða að þú vekir athygli á þessu. Ég held að ég muni engin dæmi um að maður í ábyrgðarstarfi sem þessu hafi látið frá sér fara á opinberum vettvangi viðlíka bull og þessi blessaður maður gerði þarna.
Mér kom fyrst í hug spurningin hvort hann hefði verið mikið drukkinn.
Eiginlega hallast ég ennþá að þeirri skýringu.
Árni Gunnarsson, 10.1.2008 kl. 00:00
Nei, því miður verð ég eiginlega að segja. Hann er alltaf svona. Þvílíkum ,,bæjarstjórakostum" búinn
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 10.1.2008 kl. 00:02
Heil og sæl, Guðrún Jóna og velkomin í spjallvinahóp minn !
Þakka þér; afdráttarlausa grein hér; sem og fyrir athugasemd þína, maklega; á minni síðu, fyrir stundu.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 00:02
Nú verður eihver pirraður....
Hólmdís Hjartardóttir, 10.1.2008 kl. 01:09
Takk fyrir þetta Guðrún. kv.
Georg Eiður Arnarson, 10.1.2008 kl. 08:01
Þakka ykkur öllum fyrir ,,commentin". Mér finnst þessi mál alls ekki nógu mikið rædd opinskátt. Menn komast upp með hvað sem er fyrir vikið og semja sínar eigin leikreglur og lög.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 11.1.2008 kl. 00:11
Takk fyrir að Ýta á þetta viðkvæma kýli samfélagsins, Ætti engin að fá að hefja störf að loknu kjöri, nema að ljúka skyldunámskeiði um stjórnsýslu ofl.
Full þörf á að setja þrengri ramma um störf sveitarstjórnarmanna og skýrari verklagsreglur.
Góð greining hjá þér.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 17.1.2008 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.