6.1.2008 | 23:31
Heima er best
Rosalega er gott að vera komin heim. Þrátt fyrir yndislegan tíma úti með krökkunum þá er heima alltaf best. Er þeytt eftir ferðina, klikkaði ekki á því að sofa frameftir frekar en fyrri daginn. Hef eiginlega ekkert gert af viti í allan dag. Vona að ég hafi náð að bjarga þeim blómum sem voru enn á lífi við heimkomuna
Katan hefur ekki snert jörðina síðan hún kom heim og síminn ekki þagnað. Verið eins og fiðrildi um allt enda vinirnir margir. Hún bókstaflega blómstrar. Ekki laust við að ég hafi áhyggjur af Haffanum einum úti, veit þó að hann tekur því með jafnaðargeði að þurfa að vera lengur. Stefnir á heimferð þann 17. janúar. Er farin að leita að verðugu lambalæri fyrir drenginn.
Opnaði jólakortin mín í dag, varð auðvitað viðkvæm og aum. Þakklát þeim sem mundu eftir okkur. Fyrir mér eru jólakort mikilvæg, ég get ekki skrifað þau á einhverju handavaði. Nei, takk það eru serimóníur í kringum þá athöfn. Rétt stemning, lengi að finna orðin, hvað passar nú hverjum o.s.frv. Okkar kort fóru frá Debrecen en allsendis óvíst hvenær og hvort þau berist. Það verður að koma í ljós en óneitanlega leiðist mér sú óvissa.
Er aðeins að ná mér niður eftir dópleitina á Keflavíkurflugvelli í gær. Tel það með öllu útilokað að um hefðbundna tollskoðun hafi verið að ræða. Maður á kannski að fagna þessu ,,góða" eftirliti sem haft er með farþegum til landsins. Trúlega er ólíklegasta fólk sem flytur eiturlyf til landsins þó mér finnist erfitt að ímynda mér að miðaldra kerling falli undir þann hóp, enda var uppskera manna rýr. Mér finnst ég hafa verið aðalhlutverki í hörku bíómynd og stórmerkileg persóna. Ekki þykir það amalegt.
Þótti fróðlegt að fara út í búð með dótturinni í dag. Allt tómt í kofanum auðvitað eða útrunnið þannig að nú varð að fylla á. Þvílíkur verðmunur á nauðsynjavörum hér og úti, maður minn! Sá munur er meiri en þrefaldur í flestum vöruflokkum og svei mér ef mér finnst verðlagið ekki hafa hækkað síðan ég fór síðast út í búð hér. Hef ekki verið dugleg við innkaup eftir að krakkarnir fóru út. Vissulega eru sumar vörur dýrar úti í Ungverjalandi, einkum og sér í lagi svonefndar munaðarvörur en verðlagið hér er ótrúlegt. Vikubirgðir af mat og hreinlætisvörum þar sem ekkert var til sparað fóru aldrei yfir 10.000 kr. úti og við Kata greiddum 25.000 forentur eða rúmar 8.000 kr. samanlagt fyrir hótelgistingu, kvöldverð og ýmsilegt annað (lúxus) í Búdapest sem þykir dýr borg miðað við aðrar borgir í Ungverjalandi. Nauðsynlegustu matvörur sem endast fram á morgundaginn og hreinlætisvörur kostuðu rúmar 8.000 kr. í Krónunni í dag. Þarf að leggja höfuðið í bleyti og finna góða viðskiptahugmynd.
Framundan nýtt ár og breyttar áherslur. Er býsna spennt og hlakka til enda nýtt ár og ný tækifæri. Þarf auðvitað að ljúka ákveðnu uppgjöri og finn að dvölin úti, næðið og breytt umhverfi gerðu mér gott. Finnst ég betur í stakk búin til ýmissa ákvarðana og hef að einhveru leyti aðra sýn á sum mál. Alvara lífsins tekur við á morgun, er spennt að takast á við ný verkefni. Allt tekur að enda og í öllu mótlæti felast tækifæri. Á það verður einblínt.
Athugasemdir
Ég hef lent í þeim í Flugstöðinni. Annars virðist þeim sérlega uppsigað við þig þarna suðurfrá.
Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 23:52
Velkomin heim.
Georg Eiður Arnarson, 7.1.2008 kl. 21:16
Takk fyrir það Georg og fyrir innlitið.
Já Hómdís, á því var enginn vafi. Einkennilega nákvæm miðað við að blessaður hasshundurinn vildi ekkert með okkur hafa en menn gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hef á tilfinningunni að menn hafi talið sig hafa ,,meintan" grun um eitthvað misjafnt. Aðferðir minntu mig á ógnvænleg herlög. Það er margt sem eiturlyfjanneytendur, sölumenn og hryðjuverkamenn hafa á samviskunni, er ég hrædd um.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 7.1.2008 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.