2.1.2008 | 23:44
Ferðahugur
Kominn ferðahugur í okkur mæðgur, styttist í heimferð. Katan fer í seinna prófið sitt í fyrramálið, efnafræði. Vona að allt gangi upp. Planið að taka heimferðina í tveim áföngum, þ.e fara til Búdapest á föstudag og gista þar enda ræs kl.04 um nóttina og flug þaðan til Köben um kl.07. Ef við færum héðan væri brottför um kl.01 og síðan stanslaus keyrsla á okkur þar til lent er heima á Fróni.
Búið að vera yndislegur tími hér. Afrakstur minn hins vegar skammarlega rýr, hef ekki lokið þeim verkefnum sem stóðu út af borðum. Lesið mikið en verið gjörsamlega týnd og engan veginn í formi til að koma mér að þeim atriðum sem skipta máli. Það jákvæða við þennan tíma er tvímælalaust samveran með krökkunum, þvílík heppni að getað komið því við að eyða jólunum saman. Hef tekið því yfirmáta rólega og ætti að vera búin að snúa ofan af mér og hlaða batteríin.
Alvara lífisins framundan, vinnan og skólinn. Af nógu er að taka eins og fyrr daginn. Verð áfram að vinna töluvert, alla vega næstu mánuði, þannig er það einfaldlega og ekkert annað en að sætta sig við það. Er heppnari en margur annar, get þó unnið.
Það verður erfitt fyrir Hafstein að verða einn eftir hér í Debrecen, flestir félagarnir farnir eða á förum. Við Kata líka. Bekkjarfélagar hans fóru margir heim fyrir jól og koma seinni partinn í janúar til að taka prófin sín. Hann ákvað að ljúka þeim fyrst úr því Katan hefði aldrei komist heim í jólafrí. Við bíðum spennt eftir því að settir verði inn auka prófdagar þannig að hann geti tekið stóra prófið í kringum 8. jan. Á þá eftir eitt annað próf sem er öllu minna í umsvifum. Veit að hann klárar sig drengurinn, það er aðallega ég sem væli, tel mig svo ómissandi.
Hlakka til að hefja nýtt ár, takst á við þau mál sem bíða. Móta framtíðina og taka næstu skref. Hef kunnað að meta letilífið hér, gæti alveg hugsað mér að vera hér áfram, fengi ég vinnu og sæmileg laun en slíkt er ekki í boði. Verð því að láta heimsóknir duga. Er farin að sakna hundanna, þvílíkt hvað ég er háð þeim. Veit þó að það fer vel um tíkurnar og köttinn.
Allir komnir í ró, ræs kl.07, Kári og Katan sem sé að fara í próf. Stefnan sett á smá ,,shopping" eftir próf. Löngu orðið tímabært að við mæðgur skryppum og gerðum okkur einhvern dagamun. Kaffihús með meiru. Stefnum einnig á að fara út að borða annað kvöld, í fyrsta skiptið síðan ég kom. Ekki seinna vænna. Muna bara að það kemur alltaf að því að borga af kortinu
Ætla í fyrra fallinu í háttinn, löngu orðið tímabært að snúa sólahringnum við aftur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Facebook
Athugasemdir
Ég óska þér gleðilegs árs og góðrar heilsu, Guðrún Jóna.
Anna Einarsdóttir, 2.1.2008 kl. 23:46
Kæra Guðrún Jóna!
Gleðilegt nýtt ár...vona að þú takir með þér heim til Íslands góðar minningar og kraft sem fleyta þér eitthvað áfram. Er svo innilega sammála þér með áramótin, er fegin að árið 2007 er að baki...ég á afmæli á nýársdag og hef oft átt erfitt með að sættast við þennan dag, hann fellur alltaf í skuggann af gamlárskvöldi...en eftir að ég fékk krabbameinið um árið er ég bara þakklát fyrir að eiga afmælisdag. Það er jú líka gott að fá glænýtt ár í afmælisgjöf í tvennum skilningi!
Þú hefur hnotið um marga steina...þeir eru efni í vörður sem varða leiðina fram á við. Takk fyrir skrifin þín...og megi nýja árið færa þér gleði, góða heilsu og hagsæld.
Bestu kveðjur, Guðbjörg:)
Guðbjörg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 00:38
Hjartans þakkir, báðar tvær
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.1.2008 kl. 23:05
Góða ferð heim, skvísur. Sjáumst á laugardaginn. Díana fékk góða skoðun í dag, ekkert alvarlegt að hrjá gömlu dömuna. Fer vonandi í snyrtingu á morgun. Ritgerðin mín mjakast hægt en skrifa áfram á meðan ég held græna ljósinu
Sjáumst
sigrún sys (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.