29.12.2007 | 00:33
Leti
Verið með eindæmum löt í dag, fátt eitt gert annað en að glugga í fræðin áfram og dúllað mér. Komin með enn aðra pestaskömmina, flensulík einkenni og skítkalt. Eitthvað hefur þó þokast í lestrinum þó afraksturinn sé rýr ennþá.
Dagurinn þó gleðilegur; Kata fékk fullt stig húsa í sínu prófi í morgun, fékk 5 af 5 mögulegum. Haffi þrælast í gegnum sitt námsefni frá morgni til kvölds, ekkert gefið eftir, enginn tími fer til spillis. Hann hefur ekki farið út fyrir dyr síðan 22. des nema til að bera inn poka fyrir mig þegar ég kem úr matarinnkaupum. Orðinn ansi ,,prófleslegur" en engan bilbug á honum að finna, seiglan ótrúleg. Er ekki lítið stolt af ungunum.
Er eiginlega búin að vera í hálfgerðu sjokki, eftir því sem ég þrælast meira í gegnum fræðin sé ég hvert stefnir í ríkismálum, sérstaklega heilbrigðisþjónustunni. Þar á bæ er greinilega stefnt að einkavæðingu eins og ég hef áður sagt með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Einkennilegt hvað við Íslendingar erum duglegir að taka upp stefnur sem aðrar þjóðir hafa hent þar sem þær hafa ekki virkað. Jafnvel gert illt verra. Mér sýnist einu kostirnir í stöðunni fyrir heilbrigðisstarfsmenn vera þá að annað hvort að taka þátt í þeim breytingum sem framundan eru eða snúa sér að öðrum málum.
Sjálfstæðismenn náðu ekki að hrófla við starfsmannalögunum á síðasta kjörtímabili, nú á að fara aðra leið; fækka opinberum starfsmönnum og kaupa þjónustuna af einkaaðilum. Kannski má greina vísi að þeirri leið í nýútgefinni stefnu LSH þar sem fram kemur að ekki verði ráðið í stöður sem losna. Nú þegar er talið að vanti fleiri hundruð hjúkrunarfræðinga við spítalann. Hvernig er hægt að fækka þeim frekar? Þjónustan þegar skert?? Úff, pólitík og embættismannakerfið! Kannski menn eigi einungis við skrifræðið innan spítalans og fækkun starfsmanna á þeim vettvangi?? Einhvern veginn efast ég um það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni.
Vonandi verður heilsan skárri á morgun, ætla mér að skreppa aðeins í ,,sightseeing". Krakkarnir á fullu í lestrinum áfram og ég á góðri leið með að mygla hér innan dyra. Hef gott af því að hreyfa mig aðeins svo ekki sé minnst á að skreppa á kaffihús. Við Kata létum ekki verða af því í dag enda var skynsamlegt að halda sér innandyra. Ofboðslega kalt úti. Fróðlegt að sjá hvaða dýri ég líki eftir við kjötborðið á morgun, fiskurinn ekki kaupandi hér
Er hæstánægð með bloggið hans SIgurjóns Þórðarsonar, fyrrum alþingismanns, um málefni Sláturhúss Dalabyggðar. Það eru fleiri en ég sem skilja ekki hvað menn eru að hugsa. Hvernig ætla menn að réttlæta slíka ákvörðun og hvernig mun þeim ganga að sæta ábyrgð??? Ég held að þetta mál sé langt frá því að vera búið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.