27.12.2007 | 23:08
Margt skrítið í Ungverjalandi
Er orðin býsna frökk og fer ein í búðirnar, reyndar í taxa sem kostar á bilinu 350 - 750 kr. eftir vegalengdum. Of langt að ganga fyrir prinsessuna og kann ekki á ,,tramman" hér. Gerði heiðarlega tilraun til að elda nautakjöt í kvöld, þurfti reyndar að baula úti í búð til að tjá mig um það sem mig vantaði. Fékk ansi vænt og flott stykki og hóf eldamennskuna spennt. Nú átti að brillera. Ungverskur rjómi í sósuna gerði hana að algjöru sælgæti, allt meðlæti klárt. Steikti af einstakri fimi hverja steikina af fætur annarri. Í stuttu máli hefði þurft mulningsvél til að mylja kjötbitana, svo seigt var það að venjulegar tennur höfðu vart undan. Kjötið smakkaðist ágætlega en það tók tíma að koma því niður.
Verðlagið hér er svolítið sérstakt og ég ekki búin að átta mig á því hvað liggur að baki. Sá flotta, nítísku eldavél með blástursofni fyrir um 33.000 kr. Cappucino kaffivél kostar um það bil það sama. Kílóverð af humri var um 4,500 kr, 3.000 kr. fyrir torkennilegan fiskrétt en nautakjöt og lambakjöt á um 300-450 kr./kg. Svínakjöt ódýrara svo ekki sé minnst á fiðurféð. Fékk flottan ,,ballkjól" á Kötu fyrir 1200 kr. (reyndar á útsölu). Ein húfa kostar það sama og peysa og það sama gildir um trefla og vettlinga, eru á peysuverði. GSM símarnir eru nokkuð dýrari en heima. Barnafatnaður er fokdýr og það sama gidir um skartgripi sem eru trúlega aðeins dýrari en heima, ekki síst gullið. Er ekki búin að finna stragetiuna á bak við verðlagið hér ennþá.
Katan fer í sitt próf kl.08 í fyrramálið. Stefnan tekin á kaffihús einhvern tíman dags ef vel gengur. Ég hlakka ekki lítið til að fá félagsskap með mér, hef farið á 2 kaffihús hér í mínu búðarápi og setið þar ein. Ekki mjög fjörugt í kringum mig. Kaffið reyndar rótsterkt, þarf að prófa mig betur áfram og finna rétta ,,touchið" fyrir mig. Hér kostar kaffi með alls konar krúsindúllum á bilinu 60 - 100 kr. ísl, lítil kók í kringum 100 kr. sem og lítill bjór. Hef reyndar ekki smakkað bjórinn hér en krakkarnir segja hann góðan. Í öllu falli tekur Kata sér smá hlé frá lestri eftir prófið á morgun svo fremi sem hún nær því í fyrsu lotu. Það er ekki sjálfgefið, margir þurfa að endurtaka leikinn x 2-3 áður en þeir ná.
Hér er áfram kalt og sama veðrinu spáð næstu dagana. Frostið fer í -6°C sem er svo sem ekki neitt neitt en einhvern veginn finnst okkur öllum við finna meira fyrir frostinu hér en heima. Það ,,bítur" meira, hver svo sem skýringin er.
Er annars búin að vera hálfdottandi síðan í morgun, reynt að þræla mig í gegnum fræðin en hefði þurft vökustaura ef vel hefði átt að vera. Skil ekkert í þessu, það er ekki svo að álagið sé að fara með mig þessa dagana. Er eins og prinsessan á bauninni hér. Ekkert annað að gera en að koma sér í koju og freista þess að vakna hress í fyrramálið. Verð að fara að sjá einhver afköst,takk fyrir. Núverandi árangur er skelfilegur, vægt til orða tekið Ég hlýt að verða hrukkulaus með þessu áframhaldi.
Athugasemdir
Baulaðu nú búkolla mín. Ég hélt að gull væri dýrast hér.Hér er skítakuldi, -8 í dag og gola. Hér var eldaður fashani í kvöld að ósk eldri dóttur minnar, hin átti ekki orð yfir hvað þetta var ómerkilegt taldi víst að hún fengi fuglaflensu af þessu. Vonandi gengur Kötu vel á morgun og þið eigið notalega stund á kaffihúsi. Voðalega er þetta leiðinlegur próftími.
Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.