23.12.2007 | 00:18
Lítil jólastemning
Skrapp í miðbæinn með krökkunum í dag, þau tóku sér 2 klst hlé frá lestrinum. Ósköp fannst mér jólaskreytingar rýrar og stemning lítil. Reyndar skítakuldi úti þannig að ég var ekki lengi úti við en ég er hrædd um að mörgum þætti jólastemningin fátækleg.
Tók mig til og keypti inn í dag, fór í Interspar sem er eins konar Bónus eða Nettó hér. Leitaði af rjóma í 2 klst. áður en ég gafst upp en fór létt með að fylla körfuna. Þegar kom að því að fara á kassan beið mín margra metra langur flöskuháls og þannig var ástatt með afgreiðslu við alla kassana. Mun verra en í Nettó, svei mér þá. Hins vegar var ekki að merkja neitt stress á einum né neinum, Ungverjar gera greinilega ráð fyrir biðröðum og rólegheitum. Kúnnaranir spjalla gjarnan við afreiðslufólkið að loknum innkaupum, afslappaðir og rólegir. Mér sýnist mikið um að fólk greiði með einhverskona miðum, hvort heldur sem það eru afsláttarmiðar eða styrkur í einhverri mynd. Peningar eru sjaldnar sá gjaldmiðill sem fólkið notar.
Þegar kom loks að mér, kallaði afgreiðslustúlkan eitthvað út í loftið og áður en ég vissi af, var kominn örygisvörður sem stóð yfir mér allan tíman sem ég týndi ofan í körfuna. Reyndi að flýta mér sem mest ég mátti til að tefja ekki næstu kúnna um of, dauðlangaði að rétta öryggisverðinum poka og biðja hann um að skutla matvörunni ofan í hann. Þorði því ekki, veit ekki hvaða afleiðingar slík framhleypni hefði haft í för með sér. Ég slapp án athugasemda frá verðinum og létti mikið þegar út var komið. Ákvað að tína í flesta pokana þegar þangað var komið, lét duga að koma vörunum fyrir í körfunni til að komast sem fyrst út. Mjög óþægileg tilfinning, sá reyndar ekki nein skotvopn á manninum.
Krakkarnir komnir í háttinn, strembinn próflestur hjá þeim. Þau taka sér ekki mörg hléin þessa dagana. Frumburðurinn er 26 ára í dag, Þorláksmessubarn.
Trúi því varla að það séu liðin heil 26 ár síðan ég átti hann á Landsanum og eyddi þar fremur fábrotnum jólum. Tíminn flýgur ekki áfram, hann æðir áfram
Haffi er búinn að lofa mér að taka sér pásu frá lestri um kaffiðleitið í u.þ.b. klst. og fá sér afmæliskaffið. Síðan harkan sex og haldið áfram að lesa. Er að fara í stórt próf í meinafræði þann 3. janúar, heldur fyrr en hann áætlaði og tíminn til lestrar mjög knappur miðað við það efni sem hann þarf að komast yfir. Ekkert annað á boðstólnum nema 10. jan sem er orðið eiginlega of seint enda fleiri próf að taka.
Katan á fullu að lesa undir sitt próf sem hún tekur þann 28. des. Mjög stuttur tími til stefnu. Í raun mega þau ekkert vera að því að halda einhver jól. Þau verða því í skeytastíl hjá okkur. Ég verð að sætta mig við það. Styð þau best með því að virða planið þeirra og láta lítið fyrir mér fara. Sjá til þess að þau nærist og hvílist hæfilega. Þar er mín í essinu sínu. Þetta er svakalega erfiður tími hjá krökkunum. Aldrei verið mín sterka hlið að tipla á tánum, reyni það eftir bestu getu en auvitað rek ég mig utan í borð og stóla. Því meir sem ég reyni að vanda mig og fara hljótt, þeim mun meiri brussa verð ég. Ekki nýtt á nálinni
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Facebook
Athugasemdir
GLEÐILEG JÓL LITLA FJÖLSKYLDA HUGSUM TIL YKKAR OG GANGI KRÍLUNUM VEL Í PRÓFALESTRI
sigrún sys (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.