21.12.2007 | 23:02
Hrikalegt!
Búið að taka endanlega ákvörðun um að úrelda Sláturhúsið í Búðardal. VG þeir einu sem reyndu að koma málum í farsælli farveg, við dræmar undirtektir. Núverandi meirihluti sveitarstjórnar einhuga í ákvörðun sinni. Framkvæmdir og verðmæti þeirra sem fóru langt upp í 200 milljónir fyrir 3-4 árum þurrkað út, eitt pennastrik. KS tryggir sína markaðsstöðu, fær úreldingaféð. Aldrei framar slátrað í Dölum. Tímamót og straumhvörf í sögunni myndi einhver segja. Húsið nánast orðið ,,útflutningshæft" eftir gríðalega vinnu og kostnað.
Ég held satt best að segja að ráðamenn séu ekki með fullu viti. Klúður í upphafi starfa núverandi sveitarstjórnar að gefa húsið eftir, rangar ákvarðanir og því illmögulegt að snúa þeirri þróun við sem þar hófst en alls ekki útilokað, ef menn höfðu vilja til. Fyrri sveitarstjórn seildist ofan í vasa skattborgara sinna til að afla fé til framkvæmda og úrbóta án þess að bera þá ákvörðun undir sína íbúa. Hrikaleg aðgerð á þeim tíma og brot á lýðræði en enn hrikalegra það sem nú hefur gerst. Tjón fyrir Dalina sem aldrei verður bætt. Var þessi ákvörðun um að kasta fyrri fjárfestingum á glæ, borin undir íbúana?
Er menn svo blindir að átta sig ekki á því að hægt er að sækja menn til saka, gerist þeir óábyrgir eða skaða hagsmuni síns sveitarfélags? Það gilda nefnilega stjórnsýslulög yfir allar ákvarðanir sveitarstjórna og hver sveitarstjórnarmaður er lagalega ábyrgur fyrir ákvörðunum og aðgerðum sínum. Það ber að hafa í huga að allir sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð, byggðaráðsmenn og sveitarstjóri þó meiri en aðrir enda þeir sem bera ábyrgð á rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Ég dreg ekki fjöður yfir það að formaðurinn og framkvæmdarstjórinn eru þeir sem axla mestu ábyrgðina.
Þvílíkur jólaglaðningur sem núverandi meirihluti færir sínum íbúum þetta árið!. Það verður að segjast eins og er að það er huggun harmi gegn að það skuli vera hægt að sækja menn til saka og láta þá axla ábyrgð gjörða sinna. Ég hef ekki trú á öðru en að það verði gert. Hvernig má annað vera?
Einhvern veginn finnst mér ákvarðanir sem þessar smekklausar á aðventunni, tíma ljóss og friðar. Hvað eru menn eiginlega að hugsa? Ég veit að það eru skiptar skoðanir á tilvist sláturhússins en ég hef ekki trú á því að það séu margir sáttir við það hvernig farið er með fjármuni og fjárfestingar sveitarfélagsins. Hvar er hugsunin um arð og skilvirkni á þessum bæ? Fyrifinnst hún einungis innan herbúða hestamanna beggja megin við borðið?
Skyldi núverandi meirihluti komast upp með að stjórna sveitarfélaginu með sama hætti og hingað til? Þ.e. án þess að íbúar hafi hugmynd um hvað gerist á bak við luktar dyr, sveitarstjórnarmenn báðum megin við borðið að plotta og koma ,,sínum" málum áleiðis. Hvernig verður með málefni Silfurtúns? Allur rekstur þar fyrir luktum dyrum, engar rekstrarlegar upplýsingar hvað þá upplýsingar um veitta þjónustu. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu fyrirkomulagi formanns byggðaráðs og yfirlæknisins?? Það verður spennandi að fylgjast með opinberum niðurstöðum Landlæknisembættisins sem er nú í átaki við að bæta aðbúnað aldraðra. Hvar standa Dalamenn í þeim efnum?? Vonandi vel, en enginn veit því allar slíkar upplýsingar eru á huldu og örfáum ætlaðar.
Hvað skyldi taka við í júní nk.? Var ekki ráðningarsamningur við sveitarstjóra til tveggja ára?? Hvert stefnir yfirstrumpur sveitarfélagsins á nýju ári? Hver fær stóra bitann af kökunni þá? Hverjum þarf að tryggja völd og ítök??? Kannski of snemmt að spá fyrir um það en einhvern veginn er ég viss um að ég viti svarið..... Ég ætla rétt að vona að menn átti sig á því að engir eru vinir í pólitík!
Þetta voru vondar fréttir á aðventunni. Hugga mig við að menn verða að axla sína ábyrgð en það bætir ekki skaðann fyrir sveitarfélagið. Menn ættu að skammast sín. Á ég virkilega að trúa því að þessir aðilar eigi eftir 2 1/2 ár enn við stjórnvölinn?? Reikna má með því að sveitarfélagið verði líkt og sviðin jörð. Reiðskemman og önnur gæluverkefni ráðamanna munu þó trúlega standa eftir sem minnisvarði um störf þeirra.
Ég legg til við jólasveininn að meirihluti stjórnar fái grænsápu í skóinn sinn fram að jólum, pipraða naglasúpu og gaddavír eftir það í hvert mál. Það er deginum ljósara að þorrablóstnefndir hafa úr nægu efni að moða þetta árið. Það er eiginlega algjört ,,must" að mæta núna. Ekki forsvaranlegt að láta góða skemmtun fram hjá sér fara
Hef það annar gott hér í Debrecen, kalt en stillt veður. Sýnist stefna í rauð jól hér líkt og heima en EKKERT ROK! Búin að kíkja í nokkrar búðir, fann gullfallegt jólatré, líkist normannsþyn, yfirmáta þétt og bústið eins og ég vil hafa trén. Verkefni morgundagsins að finna ljósaseríur og gjafir handa börnunum. Ekki mikið úrval sýnist mér.....
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2007 kl. 22:06 | Facebook
Athugasemdir
Hæ skvís. Gott að þú ert farin að hvílast og slaka á
Bið að heilsa krökkunum með ósk og gott gengi í prófunum. Ertu farin að skipuleggja matseld á jólasteikinni eða þurftirðu að skilja hana eftir í Leifsstöð? Hvernig er það, gastu bara ekki borgað yfirvigt í stað þess að þurfa að tæma töskuna ??? Hvurs lags tékk-inn var þetta eiginlega hjá þessu fagfólki ?
Slaufa hreinlega trylltist þegar Sara kom með Díönu í heimsókn í dag og vildi reka tíkina út í hafsauga. Þvílíkt og annað eins !!!
Reyndu að njóta dvalarinnar þarna úti og vonandi finnurðu eitthvað sætt
sigrún sys (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 23:49
Steikina gaf ég ekki eftir. Hins vegar varð ég að skilja eftir það sem ekki rúmaðist fyrir í litlu handtöskunni og þyngdi stóru töskuna um of. Tugþúsunda tap þar. Drengurinn mun þurfa að hitta mig aftur, augliti til auglits þegar heim er komið.
Já, hún Slaufa. Nú var hún á sínu yfirráðasvæði og hafði yfirtökin í fyrsta skiptið. Hvernig tók Díana því, greyið. Hrikalegt ástand á milli þeirra tveggja, er orðin ráðþrota.
Ég mun væntanlega hafa samband þegar kemur að matseldinni, eins og vant er.
Lumar þú ekki á einhverri auðveldum svampbotnum (frá mömmu)? Frumburðinn verður 26 ára á morgun
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.12.2007 kl. 09:31
Af hverju í ósköpunum hringdirðu ekki í mig þarna um morguninn ? Ég hefði komið eins og skot með aðra tösku ! Svona er maður alltaf klár eftir á
Er með eina góða uppskrift, reyndar ekki frá mömmu, en hún er þægileg og virkar.
4 egg og 2 dl sykur þeytt vel saman í þétta froðu. 1 dl hveiti, 1 dl kartöflumjöl (og 1/2 tsk lyftiduft ef þú vilt auk rifnu hýði af 1/2 sítrónu) blandað saman og bætt varlega út í eggjafroðuna.
Bakað í 1 eða 2 smurðum tertumótum eða hringmóti á neðstu rim í 15-30 mín. þ.e. 15 mín ef þú ert með þetta í 2 tertumótum en 30 mín ef þetta er allt í einu hringmóti.
Eru allar græjur í eldhúsinu þarna úti ?
Gangi þér vel með afmælisundirbúninginn.. minn frumburður verður hjá mér á sínum afmælisdegi í ár .. gaman að því
sigrún sys (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 11:26
Datt nú í hug að hringja í þig, loksins þegar mér var sagt að ég gæti komið dótinu fyrir í annarri tösku, þ.e. að það væri ekki fjöldatakmarkanir á þeim. Þá var einungis um 30 mín í brottför þannig að ég sá að ég myndi aldrei ná því. Hefði hins vegar átt að biðja þig fyrir allt það sem ég þyrfti síðan að henda. Mér bauðst það reyndar ekki einu sinni.
Finn trúlega ekki kartöflumjölið hér. Var í rúma 2 tíma að leita af rjóma í einni stórversluninni, án árangurs. Vinkonur Haffa ætla redda minni, mér skilst að það þurfi að hræra eitthvert duft til að geta þeytt rjóman hér.
Það sem kallast smjör hér, myndum við kalla smjörlíki af lökustu gerð. Hér er eldað og baka við gas, takk fyrir. Það verður bara að koma í ljós hvernig gengur
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.12.2007 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.