Mætt á svæðið

Jæja, mín komin til Debrecen, þvílíkur léttir! Auðvitað gekk það ekki hnökralaust fyrir sig frekar en fyrri daginn hjá mér. Bras fylgir mér, í bókstaflegri merkingu þess orðs enda hef ég gjarnan kallað mig Brazelíu.

Ferðin tók 22 klst frá því ég lagði af stað að heiman kl.04. eftir 40 mín. lúr.  Að sjálfsögðu var kílómeters löng biðröð í tékkið, einungis 3 fulltrúar að tékka farþega inn framan af en síðan fjölgaði þeim um aðara 3 og hjólin farin að snúast. Loks kom að mér, en úps! Taskan of þung  tjáði mér ungur og hrokafullur maður á hraðri uppleið, að honum finnst greinilega. Í stuttu máli varð framvindan sú að hann sá sér ekki fært um að leiðbeina mér en töskuna skyldi ég létta um 13 kg. með einhverjum hætti  og ég aðeins með agnarsmáa töksu fyrir handfarangur. Eftir 3 tilraunir varð hann sáttur og tók töskuna á bandið en með semingi þó, það munaði 900 gr. á þeirri þyngd sem hann setti upp. Í 80 mín mátti ég sitja á fjörum fótum, umpakka, umraða og grisja út þá hluti sem máttu missa sín og síðan einfaldlega henda þeim. Um 60-70 manns stóðu fyrir aftan mig og fylgdust grannt með. Á meðan þessum hörmungum stóð sá ég hverja töskuna á fætur annarra fara á bandið sem voru 5 kg. léttari en mín í upphafi en 5 - 6 kg. þyngri en endanleg þyngd varð á minni. Hrokinn í drengnum eftirminnilegur, kannski er það ,,uniformið" sem stígur honum upp til höfuðs. Í öllu falli hefði hann mátt vera ögn meira upplýsandi, sýna faglegri framkomu og vera hjálplegri. Ég mun láta í mér heyra á réttum stöðum. Þegar upp var staðið mátti ég henda eigum fyrir tugi þúsunda til að komast með, þrátt fyrir þá staðreynd að þyngd farangursins var undir hámarksþyngd skv. upplýsingum á bandinu. Ég greiddi að sjálfsögðu fyrir mína yfirvigt þannig að flugfélagið tapaði ekki á minni yfirvigt. En með Iceland Express mun ég aldrei ferðast með, a.m.k. ekki nema í agjörri neyð.

Næsta ævintýrir var öryggshliðið. Fimm sinnum vældi og pípti, átti ekki langt í það að standa á nærfötum einum saman þegar loks fannst tyggjópakki sem virtist sökudólgurinn. Ég rétt náði að komast í vélina áður en henni var lokað, töskuvesenið tók vel á annan tíma þannig að enginn tími var til að skoða sig um í fríhöfninni, né til að borða. Svaf alla leiðina út til Köben. 

Þegar þangað var komið tók við 9 kls. biðtími. Of syfjuð til að fara niður í bæ þannig að ég taldi það skásta kostinn að vera kyrr á vellinum og freista þess að getað lagt mig einhvers staðar. Nei, ekki hægt að tékka sig inn þar, engir stólar til að sitja á né bekkir. Mín varð að þramma um, stoppa á hinum ýmsu teríum og þamba kaffi til að halda sér vakandi. Fékk lokst að tékka mig inn um kl.16 og var allt annað líf að bíða þar fram að brottför kl.20.20. Ekki mikið hægt að versla í þessari riasafríhöfn, verðlagið svakalega hátt.

Klukkutímaseinkun á vélinni frá Köben til Búdapest, einthvert öryggistékk á henni á brautinni. Lent um kl.23. í Búdapest, eilífðarbið eftir farangri. Var orðin svo örmagna að ég vissi ekki hvernig ég ætti að taka töskurnar af bandinu en allt hafðist þetta. Ein ekki lítið glöð að fara í gegnum dyrnar þegar töskurnar voru komnar. Hver beið svo þegar út var komið? Enginn önnur en Katrín Björg! Búin að leggja á sig 3 klst. akstur í leigubíl, bíða í rúman klukkutíma á vellinum og síðan tók við tæpl. 3 tíma akstur heim. Ótrúleg stelpan og það í próflestrinum. Haffinn varð að vera heima enda próf í dag.

Það voru þreyttar mæðgur sem fóru að sofa kl. 04 í nótt og sofið frameftir í dag. Við létum okkur hafa það að drífa okkur í 2 ,,moll" þar sem hún sýndi mér hvert helst væri hægt að fara til að versla. Gerðum skurk í jólainnkaupum og fórum heim með þrælflott jólatré, akkúrat í mínum stíl; þétt og bústið og ekki of stórt.  Næstu dagar fara eingöngu í lestur hjá krökkunum þannig að nú verð ég að bjarga mér sjálf og ganga hægt um hér til að trufla þau ekki. 

Ótrúlega gott að vera komin til þeirra. Örmagna en ofboðslega ánægð. Ég náði engan veginn að útrétta það sem ég þurfti áður en ég fór að heiman, það verður bara að hafa það, ég verð bara að gera betur næst og reyna að bæta skaðann með einhverjum hætti. 

Hef miklar áhyggjur af bloggvinkonu minni henni Þórdísi Tinnu, hvet alla til að kveikja á kerti fyrir hana og dóttur hennar. Hún er algjör hetja sem hefur, líkt og Gillý, haft mikil áhrif á mig og samferðafólk sitt. Baráttujaxl fram í fingurgóma og hef ég alla trú á því að hún komist yfir núverandi erfiðleika. Góðar fyrirbænir og hlýjar hugsanir geta aldrei annað gert en gott.   

Í kvöld verður farið snemma að sofa, ótrúlega syfjuð og mikil lufsa. Verð hressari á morgun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Guðrún Jóna

Ég mátti til með að kíkja á bloggið þitt og á ábyggilega eftir að koma hér við reglulega hér eftir.

Takk fyrir hlýleg orð til okkar Karenar á Þórdísar síðu. Mér finnst alltaf það sem þú skrifar til hennar svo fallegt og merkilegt. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir Þórdísi með hvatningarorðum og góðum ráðum.

Uppörvun =  Að bjóða uppörvandi orð - er mikilvægt.
Nichiren Daishonin segir, " Að gefa einlæga uppörvun hefur kraft til að gefa fólki von og kjark til að halda
áfram að lifa."

Takk fyrir að vera til og gangi þér vel í þinni baráttu

P.s. Við Karen setjum inn fréttir af Þórdísi á morgun.

Kveðja Jóhanna J(vinkona Þórdísar Tinnu)

Jóhanna J (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 00:50

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Kveðjur til DEBRECEN.Sit nú á næturvakt á Dropanum. Þú átt að hafa hátt um þessa meðfer á flugvellinum.

Hólmdís Hjartardóttir, 21.12.2007 kl. 01:10

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Já Hólmdís, ég mun hafa hátt. Sérðu mig í anda, fimmtuga, á fjórum fótum að velja og hafna hverju ég ætti að henda og hverju að halda? Urumull af Pólverjum og samlöndum að fylgjast með hverri hreyfingu enda afar vel staðsett m.t.t. þess. Við köllum þetta  ,,humiliation"á mínu heimili

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 21.12.2007 kl. 21:11

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir heimsóknina Jóhanna, mikið er Þórdís lánsöm að eiga ykkur að. Ég vona að hún nái að komast stuttu skrefin núna, langtímamarkmiðin bíða um stund. Þú mátt gjarnan knúsa hana frá mér, ef ég get eitthvað gert fyrir hana og ykkur, hikaðu ekki við að láta mig vita.

Bkv. Guðrún Jóna 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 21.12.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband