18.12.2007 | 00:09
Bara alls ekki hægt!
Þetta er nú meiri rússibaninn síðustu vikurnar. Ég sofnaði ekki fyrr en undir morgun síðustu nótt, reif mig upp eftir 2ja tíma svefn í morgun og upp á Skaga. Sjúkrapróf biðu þar og tafarlaus yfirferð enda átti allt að verða klárt fyrir hádegi. Mikil stemning og fjör. Ótrúlega gaman þegar allt fer vel.
Af augljósum ástæðum eyðilagði ég seinni part dagsins. Var með ótal plön á prjónunum enda af nógu að taka. Náði nokkrum útréttingum eftir hádegi, skrapp síðan heim um kl. 17.00 svona rétt til að viðra tíkurnar og leggja mig smá. Sá ,,stutti" lúr varði til kl. 22.30 í kvöld! Geri nú aðrir betur. Ég á mér fáa líka. Kvöldið farið, öll áform út um þúfur. Of seint að hringja í nokkurn mann og var listinn nokkur. Og það sem meira er, hef ekki krafta til að gera neitt af viti. Hef lufsast þetta í hálfgerðri angist, svo rosalega margt eftir að gera og tíminn naumur. Vá, hvað ég er svekkt út í sjálfa mig.
Morgundagurinn pakkaður, Skaginn fram að hádegi, á eftir að koma tíkunum og kettinum fyrir á hinum og þessum stöðunum, þ.á.m. í Keflavík, skreppa í heimsókn til Tóta, fara í búðir og útrétta, gera klárt, fá Securitas heim; listinn endalaus. Á eftir að koma sendingu af mér vestur og ég veit ekki hvað og hvað. Þarf að vera komin upp kl. 03 í síðasta lagi, sennilega verður svefni sleppt þá nóttina. Fæ svo sem tækifæri til að leggja mig í Köben, stopp þar í 6-8 klst. Skilst að það sé hægt að leigja sér svefnaðstöðu á vellinum og það tækifæri örugglega nýtt. Eins gott að muna eftir spartsli og sólarpúðri! Verð komin til Debrecen upp úr kl.01 á miðvikudagskvöld. Tek trúlega bíl frá Búdapest sem tekur tæpa 3 klst. en besti kosturinn á þessum tíma sólahrings og ekki sá dýrasti, um 5000 kr. íslenskar. Það verður trúlega tuskuleg móðir sem mætir á svæðið sem lúrir fram eftir degi á fimmtudag. Það kemur sér vel að framundan eru rólegheit og EKKERT jólastress. Ætla nú samt að gera smá jólalegt þarna úti
Á eftir að kaupa allar jólagjafir. Eins gott að vöruúrvalið sé gott í Debrecen, næ kannski 1-2 fyrir brottför.... Hálf geggjað að fara í verslunarmiðstöðvarnar hér heima og tekur tíma. Sá traffíkina í dag; hvernig er hún þá á kvöldin og um helgar......??
Kosturinn við að hafa sofið af sér kvöldið er náttúrlega fyrst og fremst að þurfa ekki að hlusta á þetta bév... veður, enn og aftur lægð og aftur lægð. Þetta veðurfar fer óstjórnlega í taugarnar á mér! Einfaldlega þoli ekki þetta endalausa rok og rigningu. Ætti einnig að hafa náð að hlaða batteríin fyrir morgundaginn og vera arfahress í samræmi við það. Sé það hins vegar núna að trúlega hefði verið skynsamlegra að fara einum degi síðar út en það var svo sem ekki hægt að sjá þetta allt fyrir.
Ekki það að svona stress er ekki ný bóla hjá mér, man eiginlega ekki eftir neinum áformum og plönum öðru vísi en að vera á elleftu stundu. Engum að kenna nema sjálfri mér. Vanmet aðstæður allt of oft. Tel mig afkastameiri en ég er eða sólahringinn lengri, nema hvorutveggja sé.
Þýðir svo sem ekkert að svekkja sig á kvöldinu, það er liðið og ég get ekki breytt því. Reyni að bretta upp ermar á morgun, skipuleggja mig vel og reyna að gleyma engu.
Ætla að nota tíman vel úti í verkefnavinnu og ritstörf. Krakkarnir verða á kafi í próflestri þannig að ég þarf að tipla á tánum en ætla nú samt að dekra við þau. Gæti alveg hugsað mér að vera í Debrecen að vori, hugsa um ungana og skrifa. Fjarlægur draumur en allt í lagi að láta sig dreyma. Mér liggur á að koma bókinni frá mér, búin að læra það loksins að tíminn er ekki endalaus og góð heilsa ekki sjálfsögð. Þarf að nýta tíman vel. Ég hlakka ekki lítið til næstu daga
Athugasemdir
Sæl Guðrún!
Gangi þér vel að klára allt fram að brottför, mikið kannast ég við þetta. Það hefur verið svolítið minn stíll líka að vera á seinasta snúning með hlutina, en þannig er bara minn taktur! Þegar þú verður komin um borð í vélina þá geturðu bara teygt úr ...tánum! Njóttu nú jólafrísins út í ystu æsar, dáist að þér, þú ert kjarnakona
Bestu kveðjur, Guðbjörg
Guðbjörg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.