16.12.2007 | 02:08
Laugardagskvöld á aðventu
Enn annað laugardagskvöldið! Allir dagar ættu að vera eins þegar maður er kominn á þennan aldur en nei! Laugardagskvöldin eru öðruvísi, væntingarnar einhvern veginn aðrar. Hvenær skyldi ég læra af reynslunni? Í raun eru þetta verstu kvöld vikunnar, fátt eitt að finna í sjónvarpinu svona að öllu jöfnu, hef reyndar ekki kíkt kvöld. Síminn yfirleitt ekki valkostur. Löngu hætt því enda til hvers að svekkja sig? Forðast brennt barn ekki eldinn?
Einhvern veginn er það nú svo að maður vill vaka lengur á laugardagskvöldum. Leifar frá fornri tíð þegar ,,djammið" var við völd? Löngu liðin tíð en samt föst í þessu fari, vaka lengur og láta sér leiðast.
Var að uppgötva það að 16. des er að renna upp og það eru að koma jól! Ég ætlaði svo sannarlega að njóta aðventunnar, ekkert stress, rólegheit, njóta þess að vera til, njóta lífsgjafarinnar. Kertaljós, tónlist og jólakort. Stemning eins og var í ,,den". Í stuttu máli hefur tíminn flogið frá mér og ég hef ekki gert neitt af því sem ég ætlaði, nákvæmlega ekkert. Hver stund hefur farið í að vinna og aftur vinna. Bandaríkjamenn kalla þetta ,,workaholic" og ég held að ég þjáist af því heilkenni, eiginlega engin spurning. Tel mig náttúrlega ekki viljandi hafa skapað þessar aðstæður en hve lengi getur maður stungið hausnum í sandinn?
Eyðilagði auðvitað lungann af deginum í svefn, var svoooooooo þreytt að það hálfa væri nóg, aðeins að leggja sig smá aftur. Urr......, er maður góður við sjálfan sig!! Blekki engan nema sjálfa mig.
Náði mér á strik um miðjan dag, upp á Skaga að sækja gögn og síðan hófst vinnan við eldhúsborðið. Afkastaði nokkru en ekki nóg, var búin að setja mér það markmið að klára allt sem út af borði stæði í kvöld. Varð að bakka með það, klára á morgun. Langaði ósegjanlega að skreppa aðeins í ,,shopping" á morgun, svo ekki sé minnst á eina stutta heimsókn, eini tíminn fyrirsjáanlegur til þeirra verka. Mánudagur pakkaður, þriðjudagurinn einnig og svo út í býtið á miðvikudagsmorgunn. Trilljón hlutir að framkvæma þangað til. Ég veit svo sem af langri reynslu að allt hefst þetta, ég hefði hins vegar viljað fá tækifæri til að pústa, anda aðeins og vera ekki í stressi eins og alltaf. En, engum að kenna nema sjálfri mér.
Hvað er ég að kvarta! Daglegt amstur og stress sem ég bý til sjálf. Líðanin síðustu vikurnar hefur reyndar sett strik í reikninginn, álagstengd en engu að síður hábölvuð. En hvað er það á miðað við það sem margur er að ganga í gegnum! Ég fékk lífgjöf og hef sloppið við sjúkdóminn ennþá, það er meira en margur getur sagt. Sumir fá högg ofan á högg en rísa upp aftur og aftur enda veit ég það að hugurinn ber mann hálfa leið, ef ekki lengra. Ég hef unnið við ummönnun og hjúkrun frá 15 ára aldri og veit að þeir sem hafa baráttuþrek, sigrast á ótrúlegustu veikindum, þvert á kenningar og rannsóknir. Það er einfaldlega staðreynd.
Það er einu sinni svo að eftir að maður fær greininguna ,,krabbamein" er maður á varðbergi alla tíð. Þó ég sé t.d. talin læknuð veit ég að sjúkdómurinn getur tekið sig upp hvenær sem og enda lúmskur fjandi. Það eitt að fá pestar og annað kallar ævinlega á rannsóknir og frekari skoðun. Það þýðir óvissa, hræðsla og ótti við að nú sé allt komið af stað að nýju. Biðin eftir rannsóknum og niðurstöðum endalaus og öll tilfinningaflóran á fullu. Heilbrigðiskerfið slappt og allt tekur tíma. Endalausan tíma. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að lífið heldur áfram og ekki ætla ég að sitja aðgerðarlaus í einhverju volæði og bíða eftir því að veikjast aftur. Hvorki setja mitt líf né barnanna á ,,hold" á meðan ég bíð eftir næsta skelli sem gæti verið eftir 10 ár þess vegna. ,,Life goes on" og eins gott að njóta þess á meðan er.
Auðvitað lærir maður að búast við hinu versta en vona hið besta, þannig er það einfaldlega. Eftir fyrsta höggið og greininguna fer varnarkerfið í gang. Það er farsælla, að mínu mati, að reikna með hinu versta sé tilefni til þess á annað borð. Ekki til þess að breiða upp fyrir haus heldur til að búa sig undir átök. Flestir þurfa nefnilega tíma til að vígbúast. Ég er alla vega ein af þeim.
Ég er ein þeirra heppnu, ennþá. Verð að fara að endurmeta mitt líf og forgangsröðun. Það kemur að því að það stytti upp, einhvern tíman nær maður endum saman og getur farið að brosa framan í tilveruna. Hætta að skríða með veggjum og forðast gluggapóstinn. Þegar sú stund rennur upp, verður breyting á hjá mér. Ég ætla mér nefnilega að þakka það fyrir það tækifæri sem ég hef fengið. Hætta að hugsa um það hvernig ég ,,vildi" hafa hlutina, gera það besta úr stöðunni eins og hún er. Grasið er ekki endilega grænna hinum megin. Við mótum nefnilega eigið líf að stórum hluta.
Vissi svo sem að þessi tími yrði erfiður, hélt ég slyppi með miklu vinnuálagi og undirbúning fyrir jól í Debrecen. Minna tóm til að hugsa og syrgja. Sorgin læðist hins vegar aftan að manni; lag í útvarpinu, ljósasería í glugga, mynd af sauðfé, rauð Toyota í umferðinni, handbragð heima fyrir, minningar hellast yfir mann. Það virðist ekkert þurfa til. Áleitnar spurningar; af hverju, hvað ef... Um leið biturleiki og reiði; kerfið brást, ekki var hlustað, aðstæður erfiðar af annarra manna völdum; í raun skelfinegar. Bæði hrakin og smáð. Enn á þeirri vegferð að reyna að sætta mig við hlutina, finna sjálfa mig. Er eins og korktappi úti á rúmsjó. Reyni að fylgja kompásnum.
Ég veit að fleiri eiga sárt um að binda. Aðventan er sá tími sem syrgjendur finna hvað mest til. Þannig er það einfaldlega og ég get ekkert annað gert en að una því og reyna að halda áfram að vinna mig í gegnum sorgina. Margur hefur það verra en ég, ég á þó börnin mín og góða að. Þess vegna verð ég að finna lífinu nýjan tilgang og annan farveg. Það breytir því þó ekki að ég finn til í hjarta mínu eins og börnin segja. Hugmyndin um kerti, jólakort og Frostrósir var ekki góð, hefði átt að bíða þangað til næstu jól. Samt ákveðin léttir að leyfa sér að finna til.
Dimm er nótt og daufleg jól
dapurt lítið hjarta,
svartálfur í svörtum hól
syrgir álfinn bjarta.
Burtu er hans blíðast ljós
byrgir myrkrið stóra
hrími flosuð hélurós
hylur þröngan ljóra.
(Ásta Sigurðardóttir)
Á morgun kemur nýr dagur, laugardagskvöldið liðið, sem betur fer. Alltaf bjartara á sunndögum
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:08 | Facebook
Athugasemdir
Baráttukveðjur frá eyjum.
Georg Eiður Arnarson, 16.12.2007 kl. 11:39
Kærar þakkir Gerorg. Sömuleiðis til ykkar í Eyjum, ekki veitir ykkur af.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.12.2007 kl. 15:51
Þegar maður er komin á okkar aldur systir góð, breytast viðmið og lífsviðhorf. Eitt sinn voru laugardagskvldin tími gleðskapar og dans en síðan eru liðin mörg ár:) Þú verður að læra að njóta þess sem þú hefur og hugsa hlutina upp á nýtt. Enginn annar en þú getur gert þér lifið betra, væntingar tefja en vilji kemur manni áfram. Hvers vegna er síminn ekki lengur valkostur og á hverju eru hætt að svekkja þig? Margir hafa hringt til þín mín kæra en ekkert svar....er síminn bilaður???
Þú hefur svo margt að gleðjast yfir systir góð, mannvænlegum börnum, góðum gáfum og heilbrigða skynsemi. Öll finnum við fyrir sorginni, hún er eilífur fylgifiskur gleðinnar. Við þurfum að læta að lifa með hinu góða OG hinu slæma, allt fylgist þetta að.....þannig aukum við þroska okkar og lífsreynslu og verðum betri menn.
Vona að jólakortið berist þér áður en þú heldur til Ungverjalands og kannski tékkar þú á símanum og kannar hvort hann línan vestur sé ekki í lagi.....
Katrín, 16.12.2007 kl. 15:58
Síminn í lagi á mínu heimili en númerabirtirinn ekki þannig að ég sé ekki hverjir hringja í það númer þegar ég er ekki við. Mér skilst að viðgerðarmenn frá símanum verði að koma í hús til að leita að bilun, eilíf bið eftir því. GSM virkar hins vegar fínt!
Mín reynsla er nú þannig að menn eru ekki í spjallstuði á laugardagskvöldum þegar ég hef slegið á þráðinn, af ýmsum ástæðum sem ég skil ósköp vel. Þó áherslurnar hafi breyst þá vilja menn trúlega vera í friði á þeim kvöldum
Mikill vinnu fylgir fórnarkostnaður, það þekkja þeir sem þurfa að vinna 2-3störf. Hábölvað.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.12.2007 kl. 01:29
Úpps ..tek þessa gagnrýni til mín...var að horfa á góða mynd þegar þú hringdir.
En þú mátt ekki taka þessu illa Gunna mín, þetta er ekki þannig meint. Það er svo margir sem hugsa vel til þín og sakna þess að heyra ekkert frá þér. Það er hætta á einangrun þegar manni líður illa og erfitt að rífa sig upp og koma sér í samband við fólk aftur, það þekki ég sjálf. En því máttu trúa að það er tekið vel á móti manni þegar maður lokst hífir upp um sig brækurnar og hefur samband.
Ég veit um a.m.k. tvær konur sem ekki eru nettengdar en vilja svo gjarnan heyra í þér. Önnur er kölluð Stella og hin Magga
Það styttist í ferðina og óska ég þér góðrar ferðar og ykkur öllum gleðilegra jóla ( ef ske kynni að kortið verði ekki komið). Vona að krökkunum gangi vel í prófunum. Ég þykist vita að gangurinn verði betri þegar mamma er komin En hvar verða hundarnir????
Katrín, 17.12.2007 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.