14.12.2007 | 00:37
Lífsmark
Er bókstaflega að drukkna, mikil vinnutörn. Eiginlega meiri en ég gerði mér grein fyrir. En þó lífsmark með mér. Allt tekur þetta á enda og ég sé fram á að ljúka mínum skilum fyrir lok frests. Allt annað situr á hakanum og þannig verður það einfaldlega að vera. Aðalatriðið að klára sína pligt.
Sé ekki fram á klippingu og dekur fyrir brottför, verð með allt niður um mig í þeim efnum sem og mörgum öðrum. Í raun skiptir það engu máli hvort einhver grá hár séu farin að gægjast. Hárið er á sínum stað og ekki áberandi ,,kaflaskipt". Sé ekki annað en að ég megi þakka fyrir að komast um borð í vélina á miðvikudagsmorgun. Jólagjafkaup og annað veraldlegt stúss verður að bíða betri tíma.
Náði að drösla garðhúsgögnunum inn fyrir, voru fokin hingað og þangað í morgun enda skal engan undra. Heppin að þau skuli ekki vera í frumeindum. Verð að viðurkenna eins og er að þessi stormar og fárviðri fara í taugarnar á mér. Sef illa í þessum hamagang, bíð eftir að rúðurnar gangi inn í öllum hamaganginum. Var hins vegar býsna stolt að ná að koma dótinu inn í hús, hjálparlaust!
Ekki spennandi spáin fyrir morgundaginn og ég með próf í fyrramálið. Það má eiginlega ekki klikka að ég komist í tæka tíð. Ekki enn komin á nagla en drifið virkar ágætlega og ekkert annað að gera en að fara rólega, verði fært yfir höfuð. Hvenær linnir þessum umhleypingum? Vonandi áður en febrúar rennur upp en einhver spáði því að svona yrði þetta í 3 mán frá nóv að telja. Jakk
Hlakka mikið til helgarinnar, skal takast það að setjast niður með kertaljós, geisladisk og jólakort! Nú dugar enginn Þyrnirósasvefn. Þarf að nýta hverja einustu mínútu. Er orðin lúin og tætt, verð að hlaða batteríin næstu daga. Ætla mér ekki að gera það með tómum svefni og leiðinlegum draumförum.
Úff hvað mér kvíðir fyrir veðrinu í fyrramálið, allar björgunarsveitir í viðbragðsstöðu var ég að lesa á skessuhorn.is. Ekki lítur þetta björgulega út. Best að koma sér í koju til að hafa þrek í verkefni morgundagsins. Þetta er allt að hafast. Hvað skyldi ég fá í skóinn?
Athugasemdir
Sæl og blessuð ofurkona. Veistu að einu sinni klikkaði ég aldrei á neinu. Svo hrundi tilveran. Margvíslegir erfiðleikar. Og ég varð að láta af kröfunum. Það kom að því að ég varð stolt af sjálfri mér að sjá skítugt gólf. Ég sagði þá; mér er að fara fram, eldhúsgólfið mitt er skítugt og eg er samt róleg. En veðurhamurinn er ekkert grín. þú hefðir átt að gista á Skaganum. Það verður kolvitlaust í fyrramálið. Sl. nótt flögraði ég um garðinn hérna á efti garðhúsgögnum og fl. Bróðurdóttir mín greind með DM bæði 1 og 2 hefur verið veik undanfarna daga og tvívegis útskrifað sig af Lsp sl.viku til að fara í próf en getur ekki talað ógrátandi. Dóttir mín slaufaði öllum prófum vegna kvíða og mígrenis. Dóttir nr.2 mætir afar illa vegna leti og viðsnúnings á sólarhringnum. Þá er nú gott að hlusta á Mahalia Jackson og slaka á. Skilaðu góðri kveðju til Kötu.
Hólmdís Hjartardóttir, 14.12.2007 kl. 01:10
Það vill nú svo til Hólmdís að Kötu varð oft á orði hve líkar við værum, bæði í starfi og leik
Ég er löngu búin að sætta mig við skítug gólf en stressast aðeins ef gestir gera athugsemdir sem þeir meina nú vel. Draslið er fórnarkostnaðurinn í mínu tilfelli, ég hugga mig við að það hleypur ekkert. Þegar ég tek mig til hef ég stundum verið gagnrýnd fyrir að hafa of mikla sápu!
Veðrið náttúrlega út úr Q, prófstjóri stoppaði mig af, þannig að nú er það símavaktin. Fer upp eftir um leið og hægist til að sækja prófin til yfirferðar.
Leitt að heyra með dóttur og bróðurdóttur þína. Það er greinlega erfitt víða,heyri ég. Ég skammast mín fyrir röflið í mér.
Alltaf hressandi að heyra frá þér samt, þú ert svona eins og ferskur vindur sem færir mann upp á annað plan og minnir mann á hvað það er raunverlega sem skiptir máli
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 14.12.2007 kl. 08:21
Halló halló... Það virðist vera að ganga að snúa við sólahringum... síðustu 2 vikur hef ég verið vakandi til 4-6 og gengur hálf illa að snúa við aftur.. óþolandi að vera andvaka.. horfa upp í loftið og hugsa um allt..
Vonandi fer nú að ganga betur hjá dætrum þínum Hólmdís! =) Ef þær eru eitthvað líkar móður sinni þá ætti það ekki að vera mikið vandamál
Jæja.. best að urra sig áfram!!
Kata (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 13:45
þIÐ ERUÐ FRÁÆRAR.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.12.2007 kl. 01:57
Átti að vera frábærar. Nú er unglingurinn kominn í hús svo nú er hægt að leggja sig
Hólmdís Hjartardóttir, 15.12.2007 kl. 02:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.