Andvaka

Gjörsamlega búin að snúa við sólarhringnum og næ ekki að sofna. Eins gott að það sé ekki ræs kl. 06.30 eins og oftast. Dagurinn byrjar aðeins seinna. Ætti að ná að snúadæminu við, framundan nokkuð strembin vika.

Hef setið við og verið í yfirferð á verkefnum síðan um miðjan dag, var rétt að klára dagskammtinn. Enn nokkur bunki eftir en smátt og smátt að saxast á hann. Er óttalega lengi að þessu öllu. Hef lítið gert þessa helgina annað en að þrífa og vinna, rétt kíkti út með tíkurnar sem voru auðvitað hæstánægðar og hlupu í loftköstulum, aðallega sú yngri. Sú gamla er  farin að lýjast sýnist mér og ég er ekki frá því að hún sé orðin kulsækin, blessunin. Þarf að komast með hana í tékk, annað gengur ekki. Hef verið svolítið kærulaus þessa helgina.

Tíminn flýgur áfram, kominn 10 des og ég er ekkert farin að hugsa um jólin. Ekki einu sinni búin að kaupa jólakort, hvað þá meira. Trúlega einhver raunveruleikaflótti þar á ferð, alla vega svona í bland.  Ekki nema 9 dagar í brottför hjá mér, ef allt gengur upp. Er þó farin að sanka að mér kjöti af ýmsu tagi.

Prófatörn framundan hjá krökkunum, nú verður setið við og djöflast í gegnum námsefnið. Eru að klára síðustu hlutaprófin fram undir jól og síðan hefst alvaran. Það verður svolítið skrítið að vera þarna úti, engin hátíðarmessa kl. 18 á aðfangadagskvöld í útvarpinu né fréttaannáll á gamlársdag. Engar rakettur eða blys. Krakkarnir í próflestri þannig að fátt annað kemst að.

Ég hlakka þó til að snudda í kringum þau og þykjast ómissandi. Fæ næði til að vinna í bókinni, veit ekki alveg hvort það verði ,,Oddvitinn" eða ,, Dalalíf 2" ,,Sturlungaöld hin síðari", ,,Hjúkkan" eða eitthvað annað.  Allt kemur það í ljós, liggur ekkert endilega á, er ekki á förum strax. Þigg allar góðar tillögur.

Satt best að segja held ég að það sé langbesta lausnin að vera fjarri amstri og minningum þó þær vissulega sæki á mann, hvar sem maður er staddur. Í öllu falli ekki skynsamlegt að vera ein á þessum tíma. Hugsanirnar sækja á og sorgin nístir enn. Ég á langt í land ennþá, það finn ég. Það er hins vegar eðlilegt, ekki liðnir nema 10 mánuðir. 

Verið með skásta móti af þessum blessuðu magaóþægindum sem eru greinilega álagstengd.  Fer að verða fær í flestan sjó svo fremi sem ég gæti þess hvað fer ofan í mig. Þoli ekki allan mat en ég græt það ekkert. Matarlystin er hvort eð er ekkert til að hrópa húrra fyrir. 

Nú er ekkert sem heitir! Næsta skref að slökkva á tölvunni og fara að telja rollur. Þær verðu örugglega margar þessa nóttinaBlush

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Loka augunum, tæma hugan og. kv.

Georg Eiður Arnarson, 10.12.2007 kl. 15:11

2 identicon

"Ég vil sjá og sigra" Gunna mín !! 

Sigrún Bryndís Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband