8.12.2007 | 18:00
Virðing
Get ekki stillt mig um að láta í ljós virðingu mína. Ferða-, menningar- og markaðsfulltrúinn í minni fyrrum heimabyggð hefur ákveðið að taka sé hlé í störfum sínum í byggðaráði. Er mjög ánægð með þetta framtak hennar. Þarna er á ferð hæfileikaríkur einstaklingur sem ég vænti mikils af í framtíðinni en hún var einfaldlega vanhæf inni í byggðaráði vegna annarra starfa sinna.
Ekki get ég sagt að virðingin fylgi þeim sem tók hennar sæti. Sveitarstjórinn sjálfur sem er framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins auk þess að vera sveitarstjórnarmaður. Sem sveitarstjóri hefur hann nokkur völd innan byggðaráðs, margfeldisáhrif hans eru því mikil. Það að hann skyldi taka sæti byggðaráðsmanns sýnir í raun þá miðstýringu valds sem þarna á sér stað. Nær hefði verið að hleypa öðrum að og dreifa valdinu.
Úff! þetta er eins og sagan endalausa þarna. Ég er á þeirri skoðun að stjórnsýslan verði óbreytt þarna þar til sveitarfélagið sameinast suður fyrir brekku. Þá loksins fá íbúar að kynnast skilvirkri, gegnsærri og sanngjarnri stjórnsýslu. Það þyrfti að stífa vængina hjá nokkrum páfuglum í sveitarstjórn. Menn fljúga eins og þeir eru fiðaðir til, skrautfjaðrirnar duga skammt. Það kemur nefnilega alltaf að skuldadögum.
Andinn kom yfir mína í dag. Fór eins og stormsveipur um húsið og þreif, setti upp einhver ljós og kveikti á kertum um allt. Spilaði disk með Il DIVO á meðan og það á hæsta. Rosalega flottur diskur. Fyrsti dagurinn í margar vikur sem ég er ekki að drepast í verkjum og ég hreinlega sló öllu upp í kæruleysi. Búin að leita af ABBA disknum og öðrum með Jóhanni sem ég fékk í jólagjöf í fyrra en finn hann hvergi í öllu draslinu. Rosalega á maður mikið af hlutum annars sem aldrei er notaðir!
Ákvað að eyða þessum degi innan dyra í stað þess að fara í jólastressið út um allt. Nóg komið af kæruleysi, mál til komið að snúa sér að alvöru lífsins; verkefnavinnu og yfirferð. Ætli gosleysið reki mig ekki út fyrir dyr á morgun
Ekki laust við að minningar streymi þessa dagana. Sagt er að jólamánuðurinn sé alltaf verstur fyrir eftirlifendur. Því er það kostur að vera að drukkna í vinnu, minna tóm til hugsana.
Get ekki stillt mig um að ,,bísa" nokkrum línum af bloggi systur minnar (ekki í fyrsta sinn) en um er að ræða texta eftir frænda okkar; Hörð Torfa. Hann hefur reynt margt á sinni ævi og tekst á snilldarlegan hátt að tjá sig um sína reynslu. Við erum systkinabörn og hef ég ætið verið stolt af frænda mínum sem ruddi brautina fyrir marga og hefur alltaf farið ótroðnar slóðir. Textinn segir allt sem segja þarf. Mikið fjandi getur brekkan verið brött þó hugurinn sé á sínum stað!
oft er brekkan brött
og býsna þung mín byrði
mér finnst oft ég standi í stað
og stefnan einskis virði
en að hika er út í hött
ég held ég viti það
ég vil sjá og sigra.
ég sættist ekki á minna
hugurinn ber mig hálfa leið
hitt er bara vinna
úr ljóðinu brekkan e. hörð torfa
Vona að systir kær fyrirgefi mér ,,stuldinn"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.