6.12.2007 | 00:29
Hneiksluð og miður mín
Ekki er nú svo gott að ég sé hætt að fylgjast með málum í minni, fyrri heimabyggð. Var að renna yfir fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar og er satt best að segja kjaftstopp og eiginlega miður mín.
Fundarefnið var annars vegar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og hins vegar málefni sláturhússins. Í stuttu máli verður að segjast eins og er að þeir sem bera ábyrgð á fjármálum og fjármálastefnu sveitarfélagsins virðast ekki hafa sótt sér þá þekkingu sem til þarf.
Ég veit ekki hversu oft í saup hveljur á meðan lestri fundragerðarinnar stóð. Halldór þetta, Halldór hitt en sá frómi maður er endurskoðandi sveitarfélagsins. Af fundargerðinni má ráða að bókhaldið sé í molum og ekki síst það að forsvarsmenn sveitarfélagsins virðast ekki hafa hundsvit á gerð fjárhagsáætlunar. Endurskoðandinn ætlar að aðstoða menn við að gera drög að 3 ára áætlun sem greinilega er ekki til. Hún á alltaf að liggja fyrir. Ekki er farið að móta stefnu fyrir sveitarfélagið sem fékk þó 47 mill. kr. styrk til að móta stefnu nýs sameinaðs sveitarfélags fyrir rúmum tveim árum. Hvers konar doði er að hrjá menn?
Málefni Silfurtúns rædd fyrir luktum dyrum eins og endranær með formann byggðaráðs í stöðu yfirlæknis heimilisins. Og til að kóróna allt er stefnt að úreldingu sláturhússins sem kostaði vel á annað hundrað milljónir að gera upp. KS fær úreldingaféð sem mig minnir að sé í kringum 30 millj. og Dalabyggð fær 4.4. millj. greiðslu vegna fasteignagjalda. Núverandi skuldir hússins nema um 65 milljónir. Hvernig í ósköpunum tókst mönnum að klúðra málum svona gjörsamlega!
Í mínum huga er augljóst að þeir sem fara með fjármálastjórn sveitarfélagsins eru ekki starfi sínu vaxnir og hafa stefnt rekstri sveitarfélagsins í hættu. Eins og það sé ekki nóg að þeir hinir sömu geta ekki með nokkru móti virt stjórnsýslureglur sem eru svívirtar hvað eftir annað og menn beggja megin við borðið í mörgum mikilvægum málum. Á sama tíma og forsvarsmenn leggja til sölu á félagslegu húsnæði sveitarfélagsins eru þeir hinir sömu að bregðast þeim skyldum sem öll sveitarfélög hafa gagnvart íbúunum sem felst í að tryggja þeim húsnæði. Til að bæta gráu ofan á svart reka sumir þeirra húsnæðismiðlun í eigin fyrirtækjum á meðan eignir sveitarfélagsins eru seldar. Hver hagnast þar?
Það vissi hver maður að kjörnir fulltrúar í núverandi sveitarstjórn voru flestir reynslulausir þegar þeir tóku sæti í sveitarstjórn og að það tæki menn einhvern tíma til að ná upp færni og nauðsynlegri reynslu. Nokkrir þeirra voru þó með einhverja reynslu, t.d. varamaður í síðustu sveitarstjórn og aðstoðamaður sveitarstjóra. Maður skyldi ætla að sú reynsla nýttist eitthvað. En svo virðist ekki vera. Staðreyndirnar eru vægast sagt grátlegar.
Menn hoppa ekki fyrirvaralaust inn í störf eins og störf innan sveitarstjórnar þar sem meginviðfangsefnið eru íbúarnir, réttur þeirra og lýðræði, án þess að kynna sér málin, afla sér þekkingar og leita eftir sérfræðiaðstoðar þegar þess er þörf. Átta menn sig ekki á því að skv. stjórnsýslulögum eru menn dregnir til ábyrðgðar þegar þeir sinna starfi sínu ekki sem skyldi og stofna rekstri og afkomu síns sveitarfélags í hættu? Ábyrgð byggðaráðs og framkvæmdarstjóra sveitarfélagsins er sýnu mest.
Hvað hafa menn verið að gera frá síðustu kosningum? Í öllu falli ekki að fara með ábyrga fjármálastjórn í samræmi við stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlög, eða hvað? Sveitarstjórn er þegar búin að fá athugasemdir vegna tapreksturs á síðasta ári frá Eftirlitsnefnd sveitarfélagana. Engin stefnumótun hefur farið fram. Hafa menn verið að gera eitthvað annað en að skara eld að eigin köku, t.a.m. í málefnum örfárra hestamanna?
Það er hreinlega spurning hvort sá greiði sem endurskoðandinn býður nú fram, sé ekki bjarnagreiði og er ég þá með haugsmuni íbúana í huga. Endurskoðandinn er með ráðleggingar um gerð fjárhagsáætlunar sem er hið besta mál, en hafi menn ekki unnið eftir þeim ráðum sem koma fram í fundargerðinni hingað til, eftir hverju hafa menn þá unnið? Hvar er stefnan?? Það má kannski virða þessa viðleitni manna til að leita eftir sérfræðiþekkingu þó hún verði kostnaðarsöm. Einhverjar milljónir fjúka þar aukalega, trúi ég.
Það tekur tíma að læra á jafnflókin störf og taka vandmeðfarnar ákvarðanir sem felast í stjórnsýslunni á réttan hátt. Menn eiga að hafa þann dug, metnað og úthald að afla sér þekkingar og reynslu enda ábyrgð hvers og eins mikil. Fatta menn ekki að allar ákvarðanir sem þeir taka í sveitarstjórn eru stjórnvaldsákvarðanir og þeir bundnir lögum og reglugerðum við töku þeirra? Eða hafa menn einfaldlega búið til og sett upp sínar eigin leikreglur?
Hversu lengi á þessi fjármálaóstjórn að vara áður en gripið verður í taumana? Hversu lengi getur vanhæfnin gengið án þess að íbúar segi blátt áfram stopp? Hversu mörg stjórnsýslulög þarf að brjóta til viðbótar áður en menn segja stopp?
Hversu lengi verður rekstur hjúkrunarheimilisins fyrir luktum dyrum, einkamál formanns byggðaráðs sem jafnframt gegnir trúnaðarstarfi fyrir heimilið? Landlæknisembættið er reyndar að kanna raunverulegan aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimilum um allt land. Hvernig skyldi heimilið koma út úr þeirri könnun? Hver er raunverulegur aðbúnaður hjúkrunarsjúklinga í sveitarfélaginu? Það verður fróðlegt að sjá þær niðurstöður en ég ætla rétt að vona að lög og reglugerðir móti a.m.k. gæði þjónustunnar þar. Enginn veit náttúrlega neitt um það, allar slíkar upplýsingar eru gefnar örfáum aðilum fyrir luktum dyrum. Hver skyldi skýringin vera á því?
Auðvitað á maður ekki að ergja sig á málum sem þessum á aðventunni en hjálpi mér hamingjan! Ástandið þarna er svakalegt. Ég skil ekki hvernig fólk heldur ró sinni. Kannski má skýra þá ró með þeirri einföldu staðreynd að menn viti etv. ekki betur en að allt sé í góðum gír. Ekki rignir upplýsingum yfir íbúana svona daglega. Það verður seint sagt að stjórnsýslan sé gegnsæ.
Klíkumyndanir sterkari og greinielgri en nokkurn tíman fyrr og þóttu slæmar fyrir nokkrum árum. Þeir sem gagnrýndu klíkurnar og áhrif þeirra á samfélagið þá, eru komnir á bólakaf í nýjar klíkurmyndanir sem eru sterkari en nokkurn tíman fyrr.
Ég mun seint hætta að fylgjast með málefnum í minni fyrrum heimabyggð þó ég sé í útlegð, í bili. Ég er þess fullviss að ég muni gera það áfram að handan þegar að því kemur. Menn geta rægt mann, kippt undan manni fótunum, sett mann í útlegð og gert manni lífið erfitt fyrir en þeir geta ekki tekið sjálfstæða hugsun í burt né rænt manni réttlætiskenndinni. En vissulega væri lífið mitt auðveldara ef ég gæti slitið þessi tengsl endanlega. Menn þurfa að bíða eitthvað eftir því enn.
En þangað til held ég trúlega áfram að súpa hveljur yfir röngum vinnubrögðum og gríðalegri fjármálaóstjórn. Hvenær ætla menn að vakna upp af doðanum og láta málin til sín taka?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.