4.12.2007 | 23:56
Kolfallin
Ekkert varð úr draumórum mínum um þennan daginn. Lét mig dreyma um að fara hér um eins og hvítur stormsveipur um íbúðina og ég í jólaskapi. Ekki það að það hefur ekkert verið að skapinu mínu, ég komst bara ekki í jólaskap. Hvernig má það vera þegar maður drattast varla fram úr og nýtir hverja smugu til að ,,aðeins að leggja sig"?
Sem sagt, vaknaði reyndar og ,,stand by" fyrir útkall en fékk frið. Ekki lengi að henda frá mér blöðunum og skríða upp í. Það var ekkert lítið notalegt með rokið standandi upp á gluggann svo hvein í. Mín hafði sig með herkjum fram úr um hádegi (eða rúmlega það) og nú var tekið á því. Blöðin lesin og krossgáturnar ráðnar. Sá tími passar akkúrat á meðan ég er að komast í gang, losna við verkina og fá almennilega hreyfigetu, fyrst í fæturna og síðan fingurnar. Allt hafðist þetta.
Næsta skref var að setja á sig andlit og drífa sig út í búð, þurfti að leysa út lyf þannig að Mjöddin varð fyrir valinu. Krögt af fólki, aðallega eldri borgurum á bílum og hvergi hægt að fá stæði. Slabb og skemmtilegt úti og ég þurfti að ganga spölkorn til að komast inn í þetta fróma ,,moll". Á leiðinni keyrðu margir bílar fram hjá mér á nokkurri ferð þannig að þegar inn var komið voru fínu skórnir mínir gegnsósa og gallabuxurnar líka, upp að hnjám. Fíni, svarti rúskinsjakkinn minn ekki svipur hjá sjón.
Við tók örtröð í apótekinu, ákvað að prófa Bónus apótekið eða hvað það nú heitir. Ein afgreiðslustúlka og einn lyfjafræðingur að störfum. Sú fyrrnefnda eyddi rúmum 20 mín í að fræða eldri borgara um vítamín og steinefni. Litla rými apóteksins stútfylltist auðvitað á þessum tíma og nú dugði frumskógalögmálið þegar kom að biðröðinni. Gaf mig ekki, rétti skvísunni lyfseðillinn og sagðist koma aftur eftir smá. Nennti ekki mitt litla líf að hanga þarna inni enda búin að þræða allar hillurnar.
Ekki tók betra við inni í Nettó, var fljót að hætta við fyrirhuguð innkaup, henti einhverju smotteríi í körfuna og nánast hljóp í röðina. Vá, þvílík röð. Sýndist afgreiðslufólkið ýmist á fermingaaldri eða á svipuðu reki og flestir kúnnarnir, sem sé á sjötugs aldri og þar yfir. Viðbrögðin auðvitað eftir því.
Í apótekinu tók sama biðin við og þegar ég slapp út sá ég að ég hafði verið um 1 klst. og 40 mín. í þessari búðarferð! Kom heim með lyfjapoka, og nokkra hluti í poka úr Nettó. Ég hreinlega skil ekki í mér að fara aftur og aftur í Mjóddina. Veit að Katan glottir núna. Ég hreinlega þoli ekki þetta moll, hvað þá Nettó! Hvað var ég að hugsa????Ég hefði verið fljótari ofan í miðbæ eða Smáralindinna. Aldrei aftur og nú stend ég við það. Minnir mig rækilega á það að þó vöruverð sé hærra úti á landi þá hentar landsbyggðin mér mun betur. Reykjavík er einfaldlega ekki fyrir mig.
Dröslaðist með moppuna á brýnustu svæðin og settist svo við að halda áfram að leysa gátuna um stefnu stjórnvalda og stefnuframkvæmdir. Loks varð ljós! Vá, þvílíkur léttir en bíddu nú við hugsaði ég með mér. Hvert eru íslensk stjórnvöld að stefna núna, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni?? Mér er svo brugðið eftir að hafa lesið tilteknar greinar að ég næ varla andanum. Í öllu falli má ljóst vera að þróunin er og hefur verið sú að markvisst er verið að færa valdið frá stjórnmálamönnum yfir til hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Ætla að skoða þessi mál gaumgæfilega og mun pottþétt úttala mig meira um þessi mál. Ef fram fer sem horfir, þurfum við hvorki sveitarstjórnarmenn né þingmenn! Meira um það síðar.
Er svipuð af álagstollunum, lítil breyting ennþá. Tekur auðvitað tíma að snúa ofan af sér þegar vinnan er minnkuð. Ekki hægt að ætlast til þess að áhrifanna gæti strax. Fékk nýtt galdralyf frá Sigga Bö sem ég bind miklar vonir við. Fékk reyndar að velja á milli erlendrar framleiðslu og íslenskrar, tók það síðarnefnda og vona að það virki ekki síður eins og margir halda fram. Ætti að vera byrjuð að skauta upp um alla veggi á næstu dögum ef lyfið virkar sem skyldi. Hlít að vera orðin eins og jarðýta þegar kemur að brottförinni til Debrecen. Þangað til verður H.Í að sýna mínum aðstæðum skiling. Er ekki tilbúin að gefa mig varðandi námið en hef ákveðið að sleppa einu námskeiði. Nú er að sjá hvað forsvarsmenn háskólans segja.
Hvað varðar markmið dagsins verður að segjast eins og er, ég kolféll í markmiðssetingunni. Ekkert annað að gera í stöðunni en að setja ný og raunhæfari á morgun. Upp snemma, umsjón með yfirsetu þannig að nú má mín ekki klikka né sofa yfir sig! Ég er náttúrlega hvergi nógu syfjuð núna
Athugasemdir
hahahahahahaha
Þú ætlar ekki að gefa þig með Nettó!! haha...
Annars er ég bara andvaka enn eina ferðina þannig ég ákvað að kíkja á þig!
góða nótt! :)
kata dóttirin (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 01:22
Æi, dúllan mín. Nú verður mútta að senda þér hunang og alles, þetta gengur ekki svona mín kæra.
Bannað að leggja sig á daginn! Erfitt það veit ég þegar svefninn er í skralli en ef þú harkar af þér einn dag, þá verður næsta nótt betri
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.12.2007 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.