3.12.2007 | 23:42
Þetta er ekki hægt
Ótrúlegur sólahringur loks að líða. Gat ekki með nokkur móti sofnað í nótt, reyndi og reyndi með öllum ráðum og ekkert gekk. Man eftir mér síðast um kl.04.30 og var þá í ímynduðum jógahugsunum. Reyndi hvað ég mátti til að setja mér inn í innhverfa íhugun til að sofna. Það hafðist en þá búin að gefast upp við að telja rollur, hoppandi yfir grindverk. En hvernig má nú annað vera þegar ég sef helgina eins og hún leggur sig?
Nú mín þurfti að rífa sig upp kl.07.00, var með próf í morgun og yfirseta eftir hádegi. Maður minn, hvað þessi dagur var langur. Ég er þess fullviss að Skagamenn hafi álitið það ansi bilaða manneskju sem lagði bílnum við vitann kl. 11.30, breiddi úlpu yfir sig, stillti vekjarann á símanum og lagði sig! Rumskaði af og til við það að bílar keyrðu fram hjá. Var fljót að læsa bílnum innan frá, svefn minn skyldi nú enginn trufla! Þessi lúr dugði mér til að sitja yfir prófi eftir hádegi og koma mér heim. Þetta er nú hálfsjúkt svona þegar ég hugsa út í þetta, hefði seint trúað því að ég ætti eftir að stunda þá iðju að leggja mig í bílnum eins og flutningabílstjóri en hvað gerir maður ekki þegar langt er að fara heim í hléum og syfjan ætlar að gera út af við mann?
Það var ansi föl og sjúskuð manneskja sem mætti tíkunum, hleypti þeim út og síðan var stefnan tekin beint í minn heittelskaða sófa. Ummm............. það var bókstaflega dásamlegt að leggja sig.
Það var hins vegar ekki eins dásamlegt að vakna aftur í kvöld! Krumpuð og enn sjúskaðri. Aldurinn er augljóslega farinn að segja til sín, þoli greinilega ekki andvökunótt þrátt fyrir mikinn svefn undanfarið. Maður leggur víst ekki lengur inn og geymir innistæðuna til mögru áranna, það er á tæru.
Er ekki frá því að einhver pest sé að banka upp á, verið óglatt og kalt. Reyndi að kenna því um að ég fékk mér laufabrauð og reykta nautatungu sem er náttúrlega baneitruð blanda í gall- og magavesen. En svo gæti þetta verið afsökun fyrir því að skríða í sófann aftur og horfa á sjónvarpið. Nokkuð sem ég hef ekki gert síðan í suma. Hafði reyndar lúmsk gaman af. Eða skyldi þetta vera raunveruleikaflótti frá stefnunum, stefnuframkvæmdinni og hvað þetta heitir nú allt saman? Gerði nú heiðarlega tilraun að rýna í Hogwood og Gunn eða hvað þeir heita nú þessir garpar en ógleðin sigraði, raunveruleikaflóttinn eða eitthvað annað.
Ert á bakvakt í fyrramálið í yfirsetu, þ.e. verð að drífa mig í spjarirnar ef einhver forfallast og koma mér upp á Skaga í einum grænum. Þar sem ég er ekki fyrsti varamaður þótti prófstjóra óþarfi að ég færi að mæta nema ef fyrstu varamenn forfallist. Líkurnar ekki miklar en að fenginni reynslu með mína heppni þá ætla ég nú að vera viðbúin. Allt getur gerst, það líka að aðalmaður og næstu 2 varamenn forfallist á sömu stundu, a.m.k. þegar ég á í hlut. Það er því eins gott að vera ,,stand by"
Sé ekki fram á mikinn afrakstur í kvöld, allt of seint að hringja í fólk og sé ekkert annað í stöðunni en að fara snemma í háttinn í kvöld. Ætti að vakna ,,hyper hress" á morgun, vonandi svo hress að ég fari eins og stormsveipur um íbúðina og þrífi en þann lúxus hef ég ekki látið eftir mér undanfarið enda heimilisstörf mikill tímaþjófur. HÞau hafa því setið á hakanum um hríð. Ég ætla mér að vera svo bjartsýn að ætla mér að fara yfir ritgerðir og hrista fram úr erminni stóran hluta af þessu blessaða stefnuverkefni. Ekki seinna vænna, ég er að renna út á tíma, þrátt fyrir frestinn góða í skjóli læknisvottorðs. Nú, ekki myndi nú spilla góðum degi ef ég hringdi eitt til tvö símtöl til þeirra sem ég er búin að ætla að heyra í vikum saman. Það eru nefnilega fleiri til í heiminum en ég. Orðin svo skömmustuleg að það er orðið meiriháttar mál að taka upp tólið.
Farin að hnerra í tíma og ótíma út af uppsöfnuðu ryki og hef sett upp sólgleraugu til að lifa það af að láta draslið sitja á hakanum. Kannski ekki skrítið þó maður sé ekki ,,uber" bjartsýnn þessa dagana stöðugt með svört sólgleraugu til að sjá ekki staðreyndir í kringum sig. Ekki er nú dagsbirtunni fyrir að fara þannig að það ætti að vera auðvelt að gera sér í hugalund hvernig ástandið er hér innandyra.
Hef þó passað upp á að vökva blómin, þ.e. þau sem ekki hafa drepist vegna spunamaurs sem ég fékk í kaupbæti frá Garðheimum og opna glugga. Hef keypt samtals 7 blóm þar á síðustu vikum, öll dauð nema eitt. Hawai rósir, gardeniur, iðnu lísur og ég veit ekki hvað og hvað. Skildi ekkert í því að vefur þakkti blöðin, aldrei nokkurn tíma séð slíkt áður nema eftir köngulær. Færði þetta í tal um daginn við starfsmann Garðheima sem var fljótur að gefa mér brúsa af einhverju plöntueitri en taldi björgunaraðgerði vonlausar. En brúasann fékk ég í skaðabætur, kostaði tæpar þúsund krónur. Fátt drepur spunamaurinn varð honum að orði. Þvílíkur ófögnuður að fá þetta kvikindi hér inn, svo ekki sé minnst á tjónið sem maurinn veldur. Ég get ekki komið nálægt blómunum nema í tvennum hönskum, takk fyrir. Oj!
Haffinn var boðberi góðra frétta í dag, náði feiki góðum árangri í ónæmisfræði, næst hæstur bekknum og ef fram fer sem horfir eru góðar líkur á því að hann sleppi þessum hluta úr lokaprófinu. Hann er á blússandi siglingu drengurinn og öll han vinna og samviskusemi farin að skila sér. Var með ansi lélegan grunn í raunvísundum úr sinni náttúrufræðibraut og þurfti mikið að leggja á sig í byrjun. Katan skoppar yfir þessar hindranir eins og ekkert sé enda með sterkan grunn úr sinni náttúrufræðibraut.
Tel niður dagana þangað til ég fer út og farin að hamstra ýmislegt góðgæti til að taka með mér út. Það er þegar ég gef mér náðarsamlegast tíma til að fara út í búð! Það hefur ekki gerst oft upp á síðkastið, eyði minna á meðan. Hef þá úr meiru að moða í annað.
Athugasemdir
Til hamingju með piltinn Gunna mín og skilaðu kveðju til hans frá okkur við endastöð norðursins. Nú er þessi önn senn á enda og þú sérð vonandi fram á góða daga í útlandinu.
kveðja
litla sys
Katrín, 4.12.2007 kl. 08:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.