Andlaus og þreklaus

Enn og aftur komin helgi og enn og aftur sama sagan. Ég eins og sprungin blaðra, svaf til kl.14.00 og reif mig fram úr með herkjum enda ekkert um annað að ræða. Perlan búin að vera á orginu til að komast út og ég orðin ansi verkjuð eftir nóttina. Er orðin pínu leið á þessu mynstri, helgi eftir helgi fer í að safna orku og hlaða batteríin. Afkasta aldrei því sem ég ætla mér og fer ekki í þær heimsóknir sem brenna á mér.

Tók því fremur þunglega að komast ekki vestur til að fylgja vini mínum; Einari á Lambeyrum, síðasta spölinn. Hann átti það svo sannarlega inni hjá mér, studdi mig með ráð og dáð í gegnum erfiðleika og störf mín í sveitarstjórn og reyndist mér traustur vinur. . Ég hefði ugglaust aldrei þraukað án þess stuðnings og þegar ég lít til baka sé ég hversu mikið víti sá tími var. Oftar en ekki var það Einar sem  hjálpaði mér  í gegnum þetta tímabil og voru símtöl og samtöl okkar mörg og löng. Ég á eftir að sakna hans mikið, þar var mikill höfðingi á ferð sem hafði áhrif á samtíma sinn.  Ég get rétt ímyndað mér hvernig hans aðstandendum líður nú.

Í fyrsta skiptið finn ég fyrir uppgjafatilfinningu varðandi þetta blessaða nám mitt í opinberri stjórnsýslu. Hef ekki náð að sinna því sem skyldi, er á eftir með verkefnavinnu og finnst ég hreinlega ekki orka meir. Úff, ég hef mig ekki í að byrja á verkefni sem ég fékk stuttan frest á, með því að skila læknisvottorði! Það er svo sem auðsótt mál en vá!  Læknisvottorð vegna nokkura daga frests á verkefni. W00t Það væri sök sér ef um próf væri að ræða en ég breyti því ekki, svona er þetta einfaldlega.

Brennandi áhugi á pólitík rak mig áfram í þetta nám, nú finnst mér einhvern veginn neistinn hafi dofnað. Verð að reyna að bíta á jaxlinn og líta á muninn á opinberri stefnu og stefnuframkvæmd en hann getur verið æði mikill. Hef ekki úr miklu efni að moða, þrautleiðinlega bók um kenningar á þessum sviðum og dotta í hvert sinn sem ég hef lesturinn. Vona að ég fá spark í afturendann að ofan...... Er svo ferlega þreklaus að það hálfa væri nóg! Þjáist ekki af einhverjum skammdegisdrunga, uppáhaldstími minn er einmitt síðla hausts þannig að ekki er drungi skýringin.  Þreyta og aftur endalaus þreyta sem ég er orðin svo ferlega þreytt áSick

Urr, ég verð að koma mér að verki og sjá hvað setur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís tinna

Sæl vertu mín kæra .  Ég var að spá í með þessa þreytu hjá þér hvort að þú værir búin að fara í blóðprufu, t.d. járnskortur getur líst sér í svona mikilliþreytu.  Hitt er annað mál að ekki er ólíklegt að þetta sé eftirstöðvar krabba rabba, það er ekkert venjulegt sem að þú hefur þurft að takast á við og er ábyggilega meira en að segja það að ná upp sýnu fyrra þreki.  Skora samt á þig að fara í blóðprufu því að það hrjáir mig endalaus stjórnsemi.  Hafðu það gott yfir helgina og alla tíma .

Þórdís tinna, 1.12.2007 kl. 20:14

2 Smámynd: Katrín

Elsku hjartans Gunna mín..þú ert með alltof mörg járn í eldinum.  Námið í stjórnsýslunni getur beðið..þú þarft að gefa þér sjálfri tíma til ná upp fyrri orku.  Það kallast ekki að gefast upp þó maður sýni skynsemi og forgangsraði.  Þú átt að setja þig sjálfa í fyrsta sæti og svo kemur allt hitt.  Krakkarnir hafa ekkert að gera með að fá örþreytta mömmu í heimsókn  Hvers vegna heldur þú að þú sért alltaf þreytt?  Þú hefur alltof mikið á þinni könnu svo einfalt er það mál

Katrín, 1.12.2007 kl. 22:36

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Mikið rétt hjá ykkur báðum, hef tekið of mikið af mér og trúlega er eitthvað til í því sem þú segir Þórdís Tinna. Eftirstöðvar eftir skrattakoll og meðferðina. Virðist taka óratíma að ná sínu fyrra þreki. Hugsanlega óraunhæft að ætla að maður nái því markmiði.

Í öllu falli er mín að hugsa málið varðandi stjórnsýsluna og  finnst rétt að drífa mig í blóðprufu.

Takk fyrir góð ráð og hvatningu, báðar tvær

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 2.12.2007 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband