,, Bimmi limm

Þar kom að því að ég yrði ,,bimma limm". Er greinilega komin út á ystu nöf þessa dagana. Skildi ekkert í því af hverju ég var að láta vekjaraklukkuna fara í gang fyrir allar aldir í morgun og það kl. 06.30! Ég þurfti ekki að vakna alveg svo snemma þennan morgunin.  Það var nóg að vakna 7.30 í dag. Margreyndi að sussa niður í henni og taldi mig hafa slökkt á henni a.m.k. þrisvar en nei, nei hún hélt áfram. Auðvitað gafst ég upp um síðir og skreið fram, sótti blöðin og hóf lesturinn. Nánast malaði af ánægju yfir því að nú væri ekkert stress,  ég gæti lesið blöðin spjaldanna á milli en ekki einungis flett þeim á hundavaði. Ég er nefnilega klukkutíma að komast í gang á morgnana og að verkjastilla mig eftir nóttina. En nú lá ekkert á, mæting kl. 9.45, nóg að leggja af stað um k. 8.30 og ég hélt áfram að mala bókstsflegri merkingu. Réði meira að segja krossgáturnar í blöðunum. 

Þvílík stund, notalegheit og alles. Batt tíkurnar út og hugsaði með mér að það margborgaði sig að vera aðeins fyrr að ferðinni á morgnana, þá gæti ég virkilega notið mín í botn áður en ég keyrði af stað. Nema hvað að þessi stund leið eins og hver önnur og kominn tími til að ferðbúast. Sá að ég þurfti að skafa rúður og hálka úti þannig að ég vildi vera snemma á ferðinni enda ekki komin á nagladekkin. Var að bardúsa með hausinn á mér rétt fyrir hálf níu  þegar staðreyndum laust niður í huga mér; ég er orðin bimma limm, átti að vera mætt í kennslu nákvæmlega klukkan 8.30! Ég held ég hafi sjaldan ,,panicað" eins mikið eins og á þessari stundu, stökk í síman móð og másandi og stundi upp vandræðum mínum við skrifstofuna. Hvað átti ég að gera? Láta nemendur bíða? Senda þá heim? Næst síðasti kennslutíminn á önninni, úff hvað átti ég að gera???W00t

Svarið var auðvitað einfalt! Lágmark 40 mín að keyra og nú hálka. Ég myndi aldrei ná upp á Skaga fyrr en í lok tímans. Ég varð að játa mig sigraða yfir eigin aumingjaskap og gat ekkert gert. Það lá við að ég færi að háorga á staðnum, þvílíkt klúður, þvílíkur bömmer! Ekki veit ég hvað hún hugsaði á skrifstofunni en ég var augljóslega að tapa mér þarna í símanum.

Hugsanirnar hafa þotið í gegnum kollinn á mér í allan dag. Nú er nóg komið, einhvers staðar verð ég að stoppa! Ef þetta eru ekki skýr skilaboð, þá veit ég ekki hvað! Dagurinn náttúrlega ónýtur þannig lagað séð, ég í engu fantaformi til að takast á við verkefni dagsins.  Nærtækast var einfaldlega að skríða upp í sófa og sleikja sárin og það gerði ég. Fór létt með það enda ekki alveg komin á fullan gír aftur Sick

Náði mér eiginlega ekki á strik það sem eftir lifði dags, lufsaðist í gegnum verkefni dagsins, helmingi lengur en vant er. Það hafðist að klára það helsta, ekki það en vá hvað þetta gekk hægt. Ákvað að hætta í fyrra fallinu þó ýmislegt stæði út af borðum, búin að stilla allar klukkur í húsinu fyrir morgundaginn. Verst að geta ekki sett prógramm í Lafði Diönu og látið hana gelta á ,,réttum" tíma í stað þess að boffsa allar nætur og í raun allan sólahringinn. Hin þegir að mestu þannig að ekkert er á hana stólandi.

Svona uppákomur flokkast auðvitað undir mannleg mistök en það er erfitt að leiðrétta þau þegar vinnustaðurinn er eins langt í burtu og raun ber vitni. Ég stekk ekki í úlpu og skó og hleyp yfir götuna. Ferðalagið er drjúgt, þannig lagað séð. 

Í öllu falli eru skilaboð dagsins þau að nú verð ég að taka mig á og taka til í eigin ranni. Fækka verkefnum með einhverju móti, fórna sumum, fresta öðrum, framlengja enn öðrum. Annað er ekki hægt í stöðunni. Mig skal svo sem ekki undra þó maginn sé í tómu tjóni með tilheyrandi óþægindum. Ég bý hluta vandans til sjálf þó við sumt sé ekki ráðið. Að öllu óbreyttu er hætt við að ég mæti í vinnu á sunnudagsmorgun o.s.frv. en ég er sem betur fer blessunarlega laus við helgarvinnu núna.

Það verður sneypuleg kona sem mætir í fyrrmálið og skríður með veggjum með svartan hausapoka. Þvílíkur dagur. Ég er ekki lítið fegin að vita til þess að hann kemur aldrei aftur. Boskapur hans situr hins vegar eftir. Er þá tilganginum þá ekki náð?


 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Bimmilimm var það heillin

Katrín, 28.11.2007 kl. 21:31

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Gat nú verið að mér tækist að snúa þessu við, er þekkt fyrir það eins og þú veist

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 28.11.2007 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband