Pestafár o.fl.

Þetta haust hefur einkennst af þvílíku pestafári að það hálfa væri nóg. Ég held ég sé búin að sleikja þær allar. Búin að vera með einhverja iðrakveisu með tilheyrandi uppköstum og fínt, fínt, ofan í minn ofurviðkæma maga og skeifugörn. Er búin að liggja eins og klessa, heldur að rétta úr kútnum. Eins gott, stífur dagur á morgun þar sem ekkert má klikka, svo einfalt er það. Ég ætti í öllu falli að vera búin með minn pestaskammt þetta árið.  Ég ætti að fá premiu fyrir afköstin í þessum efnum.W00t

Náði að skríða út í kvöld og fór í göngutúr með aðra tíkina, útilokað að fara með báðar í einu. Gengur hægt að venja hana við taum, hún er fullsjálfstæð og liggur mikið á.  Þarf að vera miklu duglegri að fara út með tíkurnar og þar með sjálfa mig. Veðrið búið að vera með eindæmum rysjótt og leiðinlegt  sem hefur virkilega dregið úr mér. Þær dragast á langinn þessar haustlægðir, svo mikið er víst.

Hef annars verið nokkuð þungt hugsi, líður alltaf illa þegar ungunum mínum líður ekki vel. Erfitt að vera vanmáttug og getað lítið hjálpað. Ekki bætir úr skák að ég hef ekki getað sinnt mínum nánustu sem skyldi, bæði út af pestum, álagi og öðrum málum. Vona bara að krakkarnir fái þann styrk sem til þarf til að vinna sig úr málum og þeim fari að líða betur. 

Lífið verður svo grámyglulegt þegar þungar hugsanir leita á mann. Áfallahjálp hefði trúlega bætt verulega líðan þeirra, ekki síst Katrínar sem mikið mæddi á sl. vetur, bæði vegna veikinda minna sem og  fráfall Guðjóns. Henni bauðst hún ekki fremur en okkur hinum. Hún á langt í land með að vinna sig út úr þeim málum og erfiðar hugsanir leita á hana þarna úti. Stendur sig samt eins og hetja í náminu og er ein af þeim nemendum sem er að ná besta árangrinum. Ég vona innilega að hún nái að fóta sig og sigla í gegnum þessa erfiðleika með góðra manna hjálp.

Sú reynsla sem þessi sem krakkarnir hafa þurft að fara í gegnum, hefur reynst þeim erfið, í raun ofviða.  Ég hef grun um að þeim finnist dómharka annarra vera erfiðust. Við hana bætast áhyggjurnar af mér. Mikið fj.......    ætla veikindi mín að taka mikinn toll af þeim, mér finnst það óþolandi tilhugsun. Það að hafa valdið krökkunum vanlíðan og erfiðleikum er erfiðasta tilfinningin sem ég hef þurft að upplifa í gegnum þessar þrengingar. Vildi að ég gæti axlað þessa vanlíðan fyrir þau enda mun sjóaðri en þau. Ég verð hins vegar að sætta mig við það að sumt get ég ekki gert fyrir þau, þó fegin  vildi.

Við verðum þó að horfa á björtu hliðarnar á öllu þessu veikindastandi. Ég er alla vega hér ennþá og engin ástæða til að örvænta í þeim efnum.  Fyrir það ber að þakka. Það eru ekki allir svo heppnir. Við verðum að meta það sem við höfum og staðreyndin er sú að öll reynsla þroskar mann. Ekkert annað að gera en að vinna sig út úr málum og þiggja þá hjálp sem býðst í þeim efnum eða þá að leita eftir henni.  Við gefumst ekki svo auðveldlega upp þessi litla famelía þó mikið hafi gengið á enda engin ástæða til. Stundum þarf maður að harka af sér og þá gerum við það einfaldlega. Í öllu falli græðum við ekkert á því að setja tærnar upp í loft og gefast upp. Þá fyrst fer lífið að verða erfitt. Við höldum áfram að brosa framan í tilveruna.  Einhvern tíman styttir upp.  Vonbrigðum og mótlæti hlýtur að linna. Smile

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Þau eru sterk systkinin Gunna mín og stundum verður maður einfaldlega að fara í gegnum ákveðna reynslu til að þroskast.  that´s life

Katrín, 22.11.2007 kl. 21:20

2 Smámynd: Þórdís tinna

Mikið svakalega finnst mér þú dugleg og það þarf engin venuleg bein í þinni baráttu. Það hlýtur að stytta upp mjög fljótlega mín kæra - gangi þér alltaf sem best og börnunum þínum :O)

Þórdís tinna, 22.11.2007 kl. 22:18

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Já, satt er það sys, en fjandi er erfitt þegar maður er sjálfur orsök erfiðrar reynslu þeirra, þó óviljandi sé. Sú tilfinning er erfiðari en allt annað, svo mikið er víst. Sterk eru þau, á því er enginn vafi en stundum kemur að því að þau orka ekki meir. Þá er ég vanmáttug og aum, get ekki tekið vanlíðanina fyrir þau þó ég fegin vildi.

Takk fyrir hlýjar kveðjur frá Kóngsins Köben, Þórdís mín, vona að allt gangi vel hjá ykkur mæðgum eftir síðustu uppákomu.  Þú ert einstök, það fer ekki á milli mála

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.11.2007 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband