Hugrenningar

Hugur minn hefur verið við sveitarstjórnarmál upp á síðkastið. Taldi reyndar víst að þess konar hugleiðingar heyrðu liðinni tíð en lengi lifir í gömlum glæðum. Etv. er það núverandi verkefnavinna sem kyndir undir glæðunum.

Mér hefur verið títt hugsað til starfa núverandi sveitarstjórnar í mínu fyrrum byggðalagi enda virðist mér frjálslega vera farið með völd og stjórnsýslureglur á þeim bænum, ekki síst meðal fulltrúa byggðarráðs.

Margir telja að sveitarstjóri og oddviti séu valdamestu einstaklingarnir í sveitarstórn en því fer víðs fjarri. Oddvitinn er í raun valdalítill, stýrir sveitarstjórnarfundum og ber ábyrgð á því að þeir fari löglega fram. A.ö.l. er hann höfuð meirihlutans og sú "fígúra" sem kemur opinberlega fram ásamt sveitarstjóra. Sveitarstjórinn er starfsmaður sveitarstjórnar, oftast trúnarðarstarsmaður meirihlutans og annast daglegan rekstur og er prókúruhafi fyrir hönd sveitarstjórans. Hann ber ábyrgð á að framkvæma pólitískar ákvarðanir sveitarstjórnar en tekur þær ekki einn og sér eins og margur kann að halda.

Völdin eru hins vegar í höndum byggðarráðs og valdamesti maður sveitarstjórnar er formaður byggðaráðs. Að öllu jöfnu skipa efstu menn framboðslistanna byggðarráðið.  Hlutverk þess er að fara með framkvæmdarstjórn sveitarfélagsins, sinna fjármálastjórn hafa umsjón með stjórnsýslunni og þar með starfsmannamálum. Byggðarráðið mótar og skipuleggur allar ákvarðanir sveitarstjórnar, bæði hvað varðar forgangsröðun verkefna, fjárhagsáætlun og ráðstöfun tekna sveitarfélagsins. Auk þessa tekur það ákvarðanir um laun og kjör starsmanna sveitarfélagsins þannig að völd og ábyrgð byggðarráðs eru mikil og vandmeðfarin.  Það er akkúrat þetta sem ég hef staldrað við.

Það sem ég hef horft upp á trekk í trekk í byggðarráði míns fyrrum sveitarfélags er að formaður byggðarráðs sem og aðrir byggðarráðsmenn sitja báðum megin við borðið, þ.e eru bæði kjörnir fulltrúar og þar með umboðsmenn kjósenda og um leið eru þeir starfsmenn í stofnunum sveitarfélagsins. Sem byggðarráðsmenn hafa þeir tekið ákvarðanir um þau laun og önnur kjör sem þeir þiggja sem starfsmenn, þ.e í hinu hlutverki sínu. Auk þessa eru þeir nánast alsráðandi þegar kemur að mótun stefnu og markmiða í starfsemi þeirra stofnana sem þeir starfa við.  Þeir koma að þeirri vinnu bæði sem starfsmenn og sem byggðarráðs- og sveitarstjórnarmenn. Hvernig í ósköpunum getur slíkt átt sér stað á 21. öldinni þar sem flestir einstaklingar eiga að vera það upplýstir að svona lagað gerir maður ekki! Sveitarstjórn ber að vinna eftir sveitarstjórnar- og stjórnsýsluögum og þar er m.a. kveðið á um vanhæfi manna.

Engar faglegar eða aðrar kröfur eru gerðar til sveitarstjórnarmanna að undanskildu því að þeir skulu vera ráðandi eigin fjárs og undir hælinn lagt  hvort einhverjar faglegar kröfur eru gerðar til sveitarstjóra. Ég er ekki að halda því fram að einungis menntaðir einstaklingar í stjórnsýslufræðum eigi að veljast til setu í sveitarstjórn, þvert á móti. Hins vegar er sú krafa gerð til sveitarstjórnarmanna og hlýtur sú krafa að búa innra með hverjum þeim sem tekur að sér störf fyrir íbúa, að afla sér viðeigandi þekkingar, ekki síst á sviði stjórnsýslunnar sem öll ákvarðanataka byggir á. 

Ég tel mikinn misbrest á þessum þáttum víða, a.m.k. í minni fyrri heimabyggð enda endurspeglast sá misbrestur í stjórnsýslunni. Engin virðing virðist vera borin fyrir stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlögum ef marka má fundagerðir byggðarráðs og sveitarstjórnar sem og framkvæmdir. Svo virðist sem við stjórnvölinn ríki fámennur klíkuhópur sem vinnur að sínum eigin hagsmunamálum en lítt aðhafst í því að vinna að málefnum íbúa og sveitarfélagsins. Þeir sem ekki tilheyra klíkunni geta lítt aðhafst enda klíkan með meirihluta.  Þetta er grafalvarlegt mál og ég get auðveldlega misst mig í skrifum um þau. 

Auðvitað þurfa menn tíma til að afla sér reynslu og þekkingar en því miður virðist lítill metnaður vera til staðar, a.m.k. hjá mörgum þeirra. Etv. hafa aðrir hreinlega gefist upp.  Það hentar þeim sem stjórna ágætlega, enginn fettir fingur í störf þeirra á meðan. En ég hlýt að spyrja, hvar er eftirlitið með störfum sveitarstjórna?

Misbeiting valds er  ekki ný á nálinni en er þolinmæði kjósenda slík að þeir umberi ítrekað vanhæfi og brot á stjórnsýslureglum? Hvað er það sem veldur deyfð manna? Mér er þetta svo óskiljanlegt að það hálfa væri nóg. Ég trúi því ekki að óreyndu að menn ætli að láta allt kjörtímabilið líða án þess að freista þess að þrýsta á að stjórnsýslan fari fram með réttum hætti. Völdin eru á fárra manna höndum og það sem gerir stöðuna alvarlegri eru þau völd sem þeir hinir sömu hafa í krafti annarra starfa sinna en í sveitarstjórn. Ég trúi ekki öðru en að menn fari að vakna til lífsins. Vissulega er gott þegar öll dýrin í skóginum eru vinir en standa verður vörð um vandaða stjórnsýslu og rétt skal vera rétt.  Sumum virðst seint ætla að lærast það. W00t

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sammála þér. kv.

Georg Eiður Arnarson, 19.11.2007 kl. 22:30

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þú ættir að þekkja þetta í þínum heimabæ, hef ekki trú á því að stjórnsýslan þar hafi farið upp um margar hæðir. Hanna menn ekki stjórnsýsluna eftir sínum uppskriftum og þörfum þar ennþá?

Bið að heilsa

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.11.2007 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband