18.11.2007 | 00:35
Týpísk helgi
Enn önnur helgin að líða og ég alltaf undrandi á því hvað lítið fer fyrir athöfnum og framkvæmdum. Enn og aftur fer helgin í að hlaða batteríin og ekkert verður úr áætlunum. Þó ég vakni í býtið er "nauðsynlegt" að leggja sig aftur. Einkennilegt hvað ég virðist halda dampi þegar ég þarf að mæta til vinnu eða vinna að verkefnum, þá einhvern veginn eru einkennin minni. Kannski ég nái að "hefja mig upp" yfir verkina þegar þess þarf, ég veit ekki. Í öllu falli vakna ég alla morgna verkjuð, mismikið reyndar en mér sýnist ég verst þegar ég sef lengur. Tekur jafnframt lengri tíma að verkjastilla mig hef ég tekið eftir eða kannski er það málið að ég hef meira svigrúm til að "finna" fyrir verkjunum, ég veit ekki???
Nú liggur fyrir skýring á maga/vélinda óþægindunum, þau koma frá skeifugörninni. Kemur mér ekkert á óvart miðað við einkennin en alltaf betra að hafa "greiningu", þá verður allt raunverulegra. Ekki það að ég hafi upplifað "stress, stress" en vissi af álaginu og það hlaut að koma að því að eitthvað gæfi sig. Sem betur fer ekkert alvarlegt en vont. Ég vil reyndar meina að skýringuna á þessu magavesini megi finna í þeirri staðreynd að Vífilfell er hætt að framleiða TAB! Hef alla tíð verið mikill gikkur hvað snertir drykkjarvörur, verið háð TABI frá því ég var unglingur, finnst vatn, safar, te, sítrus drykkir o.m.fl. einfaldlega vondir. Kaffi drekk ég orðið aðeins endrum og eins og fæ auðvitað brjóstsviða af því. Hef því neyðst til að snúa mér að COCE light,sem veldur magaóþægindum hjá mér. Erfitt að gera gikknum til hæfist eins og sést hér.
Hef því ekkert framkvæmt af því sem ég ætlaði þessa helgina, ekki frekar en hinar fyrri. Ce la vie! Er ákveðin í að morgundagurinn verði betri en þessi laugardagur. Það er orðin viðtekin venja að laugardagarnir eru "pain" í orðsins fyllstu merkingu. Mér finnst þeir óþolandi og ekki eru laugardagskvöldin skárri nema síður sé. Þau eru einfaldlega hundleiðinleg. Náði að sofa hluta af þessu af mér og það var eiginlega bara fínt. Er farin að átta mig á því og sætta mig við það að svona eru hlutirnir. Orðið tímarbært í stað þess að ergja sig á þessu, nóg er af öðru að taka.
Hef verið að vinna að verkefni er snýr að sveitarstjórnarmálum og stjórnsýslu að undanförnu og margt rifjast upp frá liðinni tíð. Sé alltaf betur og betur hversu víða pottur er brotinn í þeim efnum, fyrst og fremst vegna skorts á þekkingu sveitarstjórnarmanna og fagmennsku. Menn virðast ekki hafa þann metnað að afla sér þekkingar og haga því hlutunum eins og þeim finnst "rétt" hverju sinni eða hentar þeirra hagsmunum. Stjórnsýslulögin virt að vettugi.
Eftirlitið með störfum þeirra ekkert og engar forsendur til að aðhafast nokkuð nema að íbúar leggi fram stjórnsýslukærur. Fæstir tilbúnir til þess enda mikið í húfi, menn vilja jú halda sínu. Einkennilegt hvað menn eru kaldir að axla ábyrgð án þess að hafa forsendur til þess. Margt er mannanna bölið, get ekki annað sagt. Skyldu slíkir menn átta sig á áburgðinni og þeirri staðreynd að það er hægt að sækja þá til saka fyrir brot á eða slaka stjórnsýslu??? Staðreyndin er sú að allt of margir vanhæfir einstaklinga eru kjörnir sveitarstjórnamenn enda engar hæfniskröfur gerðar til þeirra. Þetta þýðir einfaldlega það að í 4 ár geta vanhæfir, kjörnir fulltrúar vaðið uppi og tekið afdrifamiklar ákvarðanir, í krafti "lýðræðis". Úff! Í öllu falli er áhugavert að "stúdera" þessi mál út frá fræðunum og ekki verra að geta lagt fram rökstudda gagnrýni með skírskotun til þeirra.
Bíð spennt eftir morgundeginum. Ef að líkum lætur ætti mín að vera orðin arfahress þegar líður að hádeginu. Nú er að láta á það reyna. Hætt að leggja upp með plön, læt verkin tala, það tel ég orðið farsælast Er ákveðin í að vera afkastarmeiri á morgun en í dag, sjáum hvað setur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.