Skrafað á kaffistofunni

Margt er skrafað á kaffistofu minni líkt og annars staðar. Stundum eru það stjórnmál og málefni líðandi stundar til umræður og þá oft kátt á hjalla. En oftar er það lífsgæðakapphlaupið sem er umræðuefnið. Þá á ég við lífsgæðin en ekki lífsbaráttuna.  Umræðan snýst nefnilega gjarnan um nýju húsin , nýu jeppana, eldhúsinnréttingarnar, sófasettin, heitu pottana og allar breytingarnar innan dyra svo ekki sé minnst á 3-4 utanlandsferðir á ári.  Mottóið virðist vera það að henda því gamla  út og það setja það nýja inn. Samkeppnin er gríðaleg.

Ég upplifi mig eins og algjört furðurverk innan um slíkar umræður. Er nákvæmlega ekkert í takt við aðra í þessum efnum. Mín lífsbarátta snýst um að halda velli og tóra, borga niður skuldir og ná endum saman. Þó komin á þennan aldur! Vinn út í það endalausa og rétt hangi í horreiminni með allan halan. Ég er löngu hætt að vekja athygli á því að það eru ekki allir "komnir svo langt" að geta velt fyrir sér nýju parketti á stofugólfið, heitum potti og palli, fellihýsi og Guð má vita hvað. Skýringuna má kannski finna í þeirri staðreynd að ég er og hef verið í meira en 30 ár, opinber starfsmaður og launin eftir því. 

Ég hlýt að velta fyrir mér hvað hafi farið úrskeiðis og hverjar áherslurnar eru.  Ég er aftarlega á merinni í þessum efnum, í raun alveg út úr Q. En þegar ég hugsa málið þá er ég ekki viss um að ný eldhúsinnrétting, flottari bíll og pels sé það sem ég sækist eftir í lífinu. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og vera sátt við mitt umhverfi en töluvert vantar á það ennþá. En ég sækist ekki endilega eftir veraldlegum og dauðum hlutum. Þegar maður er minntur rækilega á að maður sé ekki ódauðlegur og skammtaður tími hér á jörð, þá verður forgangsröðunin önnur. Það skiptir mig minna máli í dag en áður þó eldavélin mín sé ekki fullkomin eða ný.

Ég held að allir hefðu gott af því að hugleiða hvað það er sem í raun skiptir mestu máli í lífinu. Er það lúxusinn og íburðurinn eða einfaldlega að hafa nóg og vera heilbrigður? Allt snýst þetta um forgangsröðun hjá manni. Dauða hluti má bæta en ekki alltaf heilsuna. Ekki tekur maður djásnið með sér í gröfina.Whistling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, alveg sama hvað ég reyni oft að stofna eigin blogg þá klikkar alltaf eitthvað sem ég auðvitað ekki skil með mína ofurhæfileika. Ég ákvað að skella þessu á kollega. Ég fylli út í allar línur samkv.protokolli.Heldurðu að mbl.sjái strax hvað ég er vinstri sinnuð? Annars kíki ég alltaf á bloggið þitt og svo yfir til Kötu sem ég hef engar áhyggjur af, hún ber þér fagurt vitni. Gaman þótti mér samt að sjá nöfn nemenda þinna, Binnu og Hafdísar Austjörð. Ég er nefnilega Húsvíkingur og þekki þessar frábæru stelpur. Nú verður Hafdís ;stelpa ánægð.En helv íti er hún búin að standa sig vel. Dóttir mín gaf mér bókina Secret í afmælisgjöf svo nú commentera ég ekki á veikindiþín samkvæmt bókinni munu þau hverfa við ofurjákvæðar hugsanir. Fór í kaffi á Droplaugastaði um helgina síðustu. 6 Íslendingar höfðu sagt upp, 1 hjfr, einhverjir sj.liðar + ófaglært. En það er verið að laga kvöldmatinn. Fleiri ótalandi verða ekki ráðnir inn. Svo mótmæli mín höfðu áhrif!!!! Mbk, Hólmdís.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 04:46

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Við eigum bara eina heilsu og getum ekki keypt aðra hvort sem við eigum aur eða ekki . kv.

Georg Eiður Arnarson, 17.11.2007 kl. 07:14

3 Smámynd: Katrín

Sælar systir

góður pistill.  Því eins og skepnan deyr svo deyr maðurinn segir í Prédikaranum.  Málið er hvað við gerum á milli fæðingar og dauða.  Gott hjartalag er gulli betri

kveðjur

litla sys 

Katrín, 17.11.2007 kl. 09:13

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Frábært að heyra Hólmdís!  Það er gott að þú náðir að hafa einhver áhirf. Kvöldmatinn mátti sannarlega laga, lapþunn súpa og hundvont brauð af skornum skammti. Eitthvað var tekið á þeim  málum eftir umræðuna um matinn á Kumbaravogi en allt fór í sama farveginn. SKil ekki hvernig fólk getur lagt faglegan metnað sinn í að taka þátt í slíkri ummönnun. Mörgum finnst hins vegar erfitt að yfirgefa sökkvandi skútu og skilja eftir gamla fólkið við óbreyttar aðstæður. Þarna þarf að skipta út stjórnendum, svo einfalt er það.

Hafdís og Binna eru frábærar eins og þú veist, voru hörku nemendur og minn draumur rættist; þær fóru lengra eins og ég hvatti þær til. Hvar er Hafdís að vinna núna?

Þú bara verður að koma þér upp bloggi Hólmdís, það gengur ekkert annað, þó þú sért vinstri sinnuð!! Hm.... kíki kannski á þessa bók; Secret.  En það er nú einu sinni þannig að stundum er erfitt að finna eitthvað jákvætt við þessi blessuð veikindi, sértaklega þegar maður upplifir vanmátt sinn. Er hins vegar á því að maður verður að reyna að vera Pollýana, svona oftast nær alla vega, þó ekki nema fyrir aðra

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.11.2007 kl. 16:02

5 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Mér finnst við Íslendingar allt of uppteknir í lífsgæðakapphlaupinu, nóg virðist vera af peningum í landinu, ýmist í beinhörðum eða í lánum. Hvernig ætlar maður að njóta allra veraldlegu gæðanna þegar heilsan klikkar? Er ekki þar með að segja að maður eigi að lifa einhverju meinlæta lífi en vá, þarf endilega að skipta nokkra ára innréttingum og húsgögnum út, af því bara?

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.11.2007 kl. 16:05

6 identicon

Sæl. Ég veit ekki betur en Hafdís sé á Húsavík, mér fannst frábært þegar hún dreif sig í nám.Vann oft með þessum stelpum á sumrin. Já Íslendingar eru geggjaðir. Ég vil láta skrásetja heimsbyggðina þ.e.a.s hér á Íslandi. Ég er sannfærð um að það er vitlaust talið. Hvernig geta alltaf stærri og stærri verslunarmiðstöðvar þrifist? Eftir opinberum tölum erum við bara 300þús. Mér finnst það bara ekki standast. Nýtt manntal takk. Oft dettur mér mér í hug peningaþvætti þegar ég sé allt brjálæðið í kringum okkur. Nú getur þú farið út í búð og keypt þér kremdollu á 40-50þús og nærbuxur á 40 þús!!!

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband