5.11.2007 | 23:12
Heimþrá
Orðin algjör morgunhæna, risin úr rekkju kl.05.30! Fannst það heldur snemmt og skreið aftur upp í, þurfti ekki framúr fyrr en 07.30. Gerði heiðarlegar tilraunir til að stilla klukkuna sem hringdi látlaust, sama hvað ég reyndi að koma henni á rétt ról. 'Eg slökkti því einfaldlega á henni en ákvað að halda á henni svona rétt á meðan ég leggði mig aftur. Allt gert til að blekkja sjálfan sig og friða samviskuna.
Það þarf ekki að spyrja um framhaldið, rétt náði í vinnu áður en bjallan hringdi og það var stigið á pinnan á leiðinni. Fannst reyndar stórmerkilegt að ég vaknaði skellihlæjandi. Hef ekki hugmynd hvað mig dreymdi, það hlýtur alla vega að haf verið fyndið. Ég hef ekki hlegið lengi jafn dátt. Er enn steinhissa á þessu atviki.
Haffi náði að brillera í sínu prófi í dag, var efstur ásamt félaga sínum í bekknum. EKkert smá ánægður með árangurinn. Öll vinnan farin að skila sér. Kötunni gengur líka vel en ég hef miklar áhyggjur af henni. Hún er þreytt, eiginlega örmagna og komin með upp í kok á námi. Tíminn verður að leiða í ljós hvað hún gerir. Sjálf þekki ég þessa tilfinningu og ég tók hlé á sínum tíma. Það var þrautin þyngri að byrja aftur og tók á en það hefst allt, ef maður ætlar sér. Þessi líðan Kötunnar er ósköp eðlileg, nýtt umhverfi, menningasjokk, gríðaleg samkeppni og ekki laust við illkvittni hjá nokkrum samferðarmönnum hennar. Það tekur tíma að aðlagast nýju umhverfi og breyttum aðstæðum.
Síðustu 12 mánuðir ár hafa verið krökkunum gríðalega erfiðir, veikindin mín, andlát Guðjóns, lyfjameðferðin og síðan að "skilja mig eftir" hér á Fróni. Mikið mæddi á Kötunni sem var hér heima og þurfti að sinna mér en ekki síður á Haffa sem þurfti að sætta sig við að vera víðs fjarri. Þettar hefur ekkert verið neitt eðlilegt ástand. Haffinn orðinn "sjóaðri" og kominn yfir tilvistarkrísuna úti en alltaf vofir yfir óttinn um að krabbameinið taki sig upp aftur og erfitt að vera ekki á staðnum til að "fylgjast með" sjálfur hvort mamman sé að veikjast á ný.
Heimþrá og söknuður eftir dýrunum eru einnig að hrjá Kötuna, hún er blátt áfram háð því að umgangast dýr enda komin með flækingshund upp á sína arma í Debrecen. Farin að fóðra hann á íslensku lambalærisbeini, samlokum og ég veit ekki hvað og hvað.
Lífið er töff og kröfurnar miklar. Stundum það miklar að manni finnst maður vera að sligast undan álaginu. Það eina sem heldur manni gangandi er framtíðarsýnin og markmiðin, á meðan maður missir ekki sjónar á þeim, er hægt að sigrast á ýmsum erfiðleikum. Erfiðleikarnir eru til að sigrast á og læra af þeim. Uppgjöf er ekki endilega rétta lausnin, það verður maður að hafa í huga. Hvar væri ég ef ég hefði gefist upp fyrir 4 árum og aftur og aftur síðan? Einhvern veginn fær maður styrk til að halda áfram, stundum getur maður ekki útskýrt hvernig.
Ég verð að passa mig að stjórna þessum ungum mínum ekki um of, þau eru orðin fullorðin og mitt hlutverk að vera leiðbeinandi og styðjandi þegar þau leita til mín. Ég er einungis með börnin mín að láni en fyrir þau lifi ég í dag. Því fer ég í kremju þegar þeim líður illa. Það vill svo til að krakkarnir eru báðir einstaklega sterkir einstaklingar og munu ná að klífa sín fjöll.
Baráttu- og saknaðarkveðjur út til Debrecen, það styttist í jólafrí hjá mér og ég stefni út til að elda jólasteikina.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.