4.11.2007 | 22:43
Duglegri en ekki nóg
Búin að koma ýmsu í verk þessa helgina sem hefur beðið á verkefnalistanum. Það er að saxast á hann smátt og smátt. Kannski ég nái að núlla hann, hver veit
Systursonur minn, sem ég vil nú kalla svona hálfgerðan fósturson minn" og frú hans buðu mér í lambalæri a la Seljaland í gærkvöldi með öllu tilheyrandi. Þvlíkir listakokkar þar á ferð, ég tók svo vel matar míns að ég náði ekki að smakka á ostum í desert. Þá er bleik brugðið því ég stenst aldrei osta. Bý reyndar við þá fötlun að geta ekki drukkið rauðvín með þeim, verð fárveik af því "on the spot"! 'Eg gæfi mikið fyrir lausn á þeirri fötlun! Var eiginlega óvíg eftir öll herlegheitin í gærkvöldi en mjatlaði aðeins í tölvu- og verkefnavinnunni. Hitti Sigrúnu sys og hennar vin, frábær kvöldstund með þeim öllum og litlu skæruliðunum hjá frænda.
Að sjálfsögðu svaf ég fram eftir degi í gær en hálfhneykslaði sjálfan mig með því að vakna snemma í morgun. Vissi ekki hvað á mig stóð veðrið eiginlega. Ekki fannst mér ástæða til að leggja mig aftur og þá er mikið sagt. Ekki fór mikið fyrir svefninum síðustu nótt. Nágrannarnir voru með músíkina stillta á hæsta til kl.06 í morgun og skipti engu máli í hvaða horn ég skreið, alltaf heyrðist jafn mikið í tónlistinni. Þessi hjón stunda þetta x2-3 á ári og stundum á virkum degi. Ég prísaði mig sæla að nú skyldi vera helgi og ekki ræs í býtið. Bjöggi Halldórs og Vilhjálmur Vilhjálms skiptust á að reyna að syngja mig í svefn, með litlum árangri. Þetta var farið að minna mig á breimandi kattarvæl undir morgun. Þetta sleppur maður við í sveitinni!
Ég dreif mig því í tiltektir og að taka til gögn sem hafa beðið ALLT OF LENGI" eftir endurskoðanda. Hef reyndar ekkert náð í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þannig að ég tók sjénsinn og skutlaði gögnunum í pósthólfið hans. Vona að hann taki málið að sér, ef ekki þá heyrist mér vinur Siggu sys vera með einhvern endurskoðanda á takteininum. Þetta er eitthvað sem er búið að bíða allt, allt of lengi og allt komið í tómt tjón enda ekki hlaupið að því að finna öll nauðsynleg gögn. Sum þeirra eru hreinlega ekki til. Það var því ekki seinna vænna en að hrökkva eða stökkva. Vona að ég sé ekki sokkin upp að hálsi í því kviksyndi. Einhvern tíman hlýtur kerfið að geta skilið erfiðar aðstæður fólks og veikindi, eða hvað? Í öllu falli var léttirinn það mikill að ég rauk til og splæsti á mig stórum hamborgara í verðlaun!
Ætlaði heldur betur að heimsækja bróður sem ég frétti að væri kominn inn á LSH aftur vegna fylgikvilla, búin að skvera mig upp og sparstla í hrukkurnar og setja á mig andlit. Hringdi nú á undan mér í þetta skiptið en minn maður farinn heim, var mér tjáð sem er auðvitað frábært ef hann er orðinn nógu hress. Þeir eru ekki að halda í sína skjólstæðinga á þessari stofnun, fremur hitt að þeim sé hent út löngu áður en það er tímabært. A.m.k. er það mín reynsla, því miður. En ég verð bara að kíkja á vininn heima þegar hann treystir sér til, sá hörkunagli. Við mættum fleiri vera líkari honum.
Ég lét því lítið fyrir mér fara þennan daginn, afkastaði þó nokkur engu að síður. Aðvitað var ég búin á því seinni partinn og steinsofnað, í fína dressinu. Krumpur má þó laga, meira að segja á kinninni. Er tiltölulega nýkomin á stjá og eiginlega tilbúin að skríða upp í aftur. Finn fyrir bjév... beinverkjum, sleni og kvefi, enn aðra ferðina. Nú ætla ég ekki að láta í minni pokann fyrir einhverri pest, búin að fá nóg af þeim í haust. Þvílíkur bómullarhnoðri sem maður er orðinn, fuss og svei! Ég leyfi mér að mótmæla........ og bóka það hér með. Hef ekki fundið "rétta momentið" fyrir flensusprautuna en hún skal í mig fyrir næstu helgi. Verð að vera í fríi eftir hana, fæ alltaf aukaverkanir og slappleika.
Þungu fargi er af mér létt eftir stóra skrefið í dag, er auk þess búin að taka ákveðna ákvörðun er lýtur að öðrum málum. Hef látið fara illa með mig, ef svo má að orði komast. 'Eg sem hef alla tíð verið með samninga og stéttarvitundina á hreinu, létt gabba mig. Það er greinilega ekki fýsilegur kostur að vera fyrrum sjúklingur á vinnumarkaðinum. Á ég þá ekki við um mína kennslu. Hefði ekki trúað þeirri staðreynd að óreyndu, hef verið ríkisstarfsmaður meira og minna síðan 1974! Það var kannski fínt að fá eitthvað til að rífa mig upp úr þeim doða sem hefur einkennt mig að undanförnu. Í öllu falli er ég vel komin upp á afturfæturnar og ákveðin í að láta ekki bjóða mér allt.
Annars finn ég það vel að um leið og krökkunum líður vel, lyftist sálartetrið mitt upp. Þau eru á fullu í próflestri og eru að standa sig glymrandi vel. Katan bauð "dauðanum" birginn með því að bregða sér í gervi hans á hrekkjavökunni í Debrecen. Hún er eiginlega hálfóhugguleg, verð ég að viðurkenna. Henni tókst alla vega ná sínu markmiði í þeim efnum. Ég vona að hún fari að skipta út myndunum á heimasíðunni, mér bregður alltaf jafn mikið, svo gott er gervið. (hroll, hroll...)
Nú er það heitt hunang og trefill um hálsinn, ég ætla ekki að gefa eftir í þetta sinnið. Kannksi ég fari að gleypa C-vítamín, nógu dugleg er ég að ráðleggja öðrum það
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.11.2007 kl. 18:21 | Facebook
Athugasemdir
Gott mál !! Áfram með smjörið Næst er það nýr lögfræðingur
Sleep tight
Sigrún sys (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 23:08
Þórdís tinna, 5.11.2007 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.