Angurvær tími

Svolítið angurvær þessa dagana. Afmælisdagur foreldra minna beggja í dag. Virðist seint ætla að komast yfir það að missa þau bæði þó liðin séu meira en 7 ár. Bæði létust árið 2000, úr lungnakrabbameini, móðir mín í janúar og pabbi í ágúst. Náðu einungis 69 og 70 ára aldri sem mér finnst enginn aldur í dag. Eins og búast má við, streyma minningarnar alltaf á tilteknum tímamótum og söknuðurinn blossar upp. Ýfir einnig upp önnur sár og áföll.

Foreldrar mínir voru sterkir persónuleikar þó ólík væru og ávallt til staðar fyrir okkur. Skipti aldur okkar þar engu máli. Ég er nokkuð viss um að ég hefði komist betur út úr minni reynslu síðustu árin, hefði þeirra notið við. Bæði lífsreynd, með fæturnar niðri á jörðinni og sterkar skoðanir á málum. Ég veit að ég ýki ekki þegar ég segi það blákalt; ég var háð þeim.

Auðvitað heldur lífið áfram og hugsanir manns eru ekki daglega litaðar af sorg og söknuði en þessar tilfinningar blossa alltaf upp, af og til. Til eru þeir sem kalla slíka angurværð sjálfsmeðaumkvun og eigingirni og vísbending um að maður vilji halda í sársaukan en ég er á þeirri skoðun að slíkar tilfinningar séu eðlilegar og dúki einmitt upp við ákveðin tilefni og tímamót. Ég gef hins vegar lítið fyrir þær yfirlýsingar þess efnis að öll sár grói með tímanum. Þau gera það nefnilega alls ekki, maður lærir hins vegar að lifa með þeim. Stundum finnur maður meira til en venjulega. Er þetta ekki það sem lífið snýst um, að heilsast og kveðjast, gleðjast og finna til?

Ég leyfi mér hiklaust að skríða inn í mína skel á kvöldi sem þessu, kveikja á ótal kertum og leyfa minningunum að streyma og veit að ég er ekki ein um það.

 Móðir mín elskaði gular rósir, ekki viðrar vel í garðinum í dag þannig að hún fær eina senda í "huganum"

yellow rose
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Tími kertaljósanna er kominn hjá mér, verð með logandi kerti öll kvöld fram á vorið. Þannig líður mér best. Ekkert lítið notalegt þar til kemur að því að þrífa sótið þegar daginn fer að lengja. Mér finnst það alveg þess virði.

Bið alla um að koma við á kertasíðu Gillíar, hún og fjölskylda hennar eiga erfitt þessa dagana.  Slóðin er :

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Gill%C3%AD

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Gunna mín. Kveikti á kerti í minningu þeirra og hefði farið í kirkjugarðinn hefði veðrið verið skárra. Brúðkaupsafmælið er reyndar 30. nóv, elskan mín. Tek undir margt sem þú segir hérna. Þau voru sterkir persónuleikar, bæði tvö, og minningin lifir. Kær kveðja

Sigrún sys (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 23:47

2 Smámynd: Þórdís tinna

Þórdís tinna, 2.11.2007 kl. 00:01

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Týpískt ég, auðvitað rétt hjá þér Sigrún! Ekki veit ég hvað ég var að hugsa, búin að laga þetta.

Hugsa sterkt til þín þessa dagana, veit að það er erfiður tími hjá þér og börnunum.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 2.11.2007 kl. 00:13

4 identicon

Takk Gunna mín.  Þetta hefur verið angurvær tími en við áttum góða stund við leiðið, ég og börnin mín, lögðum blóm og kerti hjá honum Hjölla okkar.  Borðuðum svo kjötsúpu á eftir, uppáhaldsmat hans og pabba og mömmu   Mun hugsa til Gillíar og fjölskyldu. Knús

Sigrún sys (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband