Horft um öxl

Það er öllum hollt að líta stöku sinnum yfir farinn veg, ekki síst á tímamótum. Ég gerði það í gærkvöldi eftir ansi skrautlegan dag. Það er svolítið sérstakt að standa á þeim tímamótum að vera orðin hálfrar aldar gömul og  líta til baka. 50 ár eru langur tími, mér finnst ég ekki vera það gömul og stutt síðan ég varð fertug. 

Gærkvöldið fór í að rifja ein upp minningar yfir kertaljósi. Þannig vildi ég hafa það. Þurfti tíma með sjálfri mér til að líta yfir farinn veg og gera upp ákveðin mál í huga mér. Mér finnst í raun kraftaverk að ég skuli vera hér ennþá miðað við stöðuna fyrir ári síðan. Hún var það slæm og útlitið dökkt að mér datt aldrei í hug að ég myndi lifa það að verða fimmtug. Æðsta takmark mitt þá var að þrauka til vorsins og vera við útskrift Katrínar úr MR. Setti mér það markmið strax og ætlaði að hanga á því hvað sem tautaði og raulaði. Afsanna allar læknisfræðilegar kenningar.

En mér var greinilega ekki ætlað að fara strax og fyrir það er ég þakklát. Ég fæ lengri tíma með krökkunum og tækifæri til að lagfæra ýmislegt sem betur hefur mátt fara. Reynsla síðustu 6 ára hafa markað mig verulega, því er ekki að neita og engin ástæða til að fara í grafgötur með það. Sú atlaga sem gerð var að mér í pólitíkinni hefur verið mér æði kostnaðarsöm, bæði fjárhagslega, líkamlega og andlega. Öllu var tjaldað til og einskins svifist til að koma mér í burt og þegar ég hugsa til baka, finnst mér þessar aðfarir vera eins og í skáldsögu. Og það spennandi skáldsögu. Mannorð mitt var gjörsamlega traðkað niður í svaðið, ég sökuð um ótrúlegustu hluti og ávirðingarnar ævintýralegar. Þó ég hafi staðið uppi sem siguvegari  þegar upp var staðið, þá var búið að svipta mig ærunni og búsetuskilyrðum. Slíkt er aldrei aftur tekið og mannorðið kemur ekki "sí sona" til baka.

Sá mykja sem ég var böðuð upp úr mun loða við mig það sem eftir er enda til þess ætlast. Gerendur í þeim efnum eru enn við völd, sterkari en fyrr og einungis spurning hver verður næsta fórnarlamb þeirra. Slíkir einstaklingar hætta ekki þegar þeir hafa fellt eina bráðina, heldur sækjast eftir meiri og meiri völdum yfir öðrum, með eigin þarfir og hagsmuni í huga. Ekkert stoppar þá.

Ég er ekki öðruvísi en "meðal Gunnan" og á því erfitt með að fyrigefa böðlum mínum sem ekki einungis ollu mér ómældu tjóni heldur og einnig eiginmanni og börnum. Ég er ekkert búin að gera upp þessi mál með sjálfri mér, er enn að vinna úr þessari nöpru reynslu og afleiðingum hennar. Makamissir og erfið veikindi hafa bæst við með tilheyrandi fjárhagsáhyggjum, vanskilum og öðrum skemmitlegheitum sem hafa svo verið á allra vörum.  Ekki það að ég mun ekki gefast upp en mér gengur það seint að finna þessari reynslu jákvæðan farveg í framtíðinni. Ég trúi því að í öllu mótlæti felist tækifæri en það tekur tíma að koma auga á þau.

Þó mér gangi illa að fóta mig í þessu "nýja lífi" mínu og finna mér þann farveg sem ég vil þrífast í, er ég þó með eitt á hreinu; ég ætla mér að nýta þann tíma sem mér er ætlaður hér fyrir mig og mína.  Ég legg á það áherslu að starfa í vinsamlegu umhverfi þar sem hæfileikar mínir, þekking og kunnátta er metin og hreinlega tími ekki að eyða neinni orku í að vera í neikvæðu umhverfi. Ég hef. líkt og allir aðrir, þörf fyrir að vinna að ögrandi verkefnum og hundleiðist að hjakka í sama farinu.

Reynsla mín úr pólitíkinni hefur kennt mér að treysta varlega nánunganum enda á ég fáa en góða vini en fullt af kunningjum. Ég er mjög sátt við það og mun áfram verða varkár þegar kemur að trúnaði. Eftir að hafa rifið upp fortíðina og draugana er ég nokkuð sátt við þau 50 ár sem liðin eru. Hef gert ótal mistök og sumt hefði ég getað gert betur. Annað hef ég gert vel, lagt allt mitt í og verið stolt eins og gengur hjá okkur öllum. Ég get ekki breytt fortíðinni, einungis lært af henni og nýtt þá reynslu í framtíðinni. Allt of margir nudda öðrum upp úr fortíðinni og líkja má sumum við rispaða grammófónsplötu í þeim efnum. Ekki smuga að slökkva á þeim einu sinni.Reyndar segir það allt um þá sem segja þarf. 

Ég er ekkert öðruvísi en aðrir og þarf að gera upp mál fortíðarinnar með sjálfri mér áður en ég get haldið áfram og markað framtíðarstefnuna. Það þarf að fara fram ákveðið uppgjör, það er óumflýjanlegt og verður erfitt.

Stefnan er sett á Budapest upp úr miðjum mánuðinum. Það verður frábært að hitta krakkana í Debrecen, hlakka til eins og smákrakka. Stutt ferð en ómetanleg fyrir okkur öll. Enn er hitastigið þarna úti um og yfir 20 stig þannig að þetta verður fínt. Verð vonandi komin með allar niðurstöður í tékkinu þá.  Næsta skref er að athuga hvernig best er að haga jólunum, þ.e hvort krakkarnir hafi svigrúm til að koma heim í nokkra daga en skólinn er til 23.des og prófin byrja strax eftir annan í jólum.

Framundan töff vika, enn og aftur en sé fram á meiri stöðugleika að henni lokinni. Helgarnar endast mér ekki til að vinna upp það sem út af stendur borðum eftir vikuna en ég sé fram á bjartari tíð í þeim efnum. Smátt og smátt mjakast þetta í rétta átt, á hraða snigilsins finnst mér á stundum en mjakast þó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið, þú berð aldurinn vel. Það er ótrúlegt hvað þú ert dugleg þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika sem hafa mætt þér síðustu ár. Þú lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 50 ár og það er kraftaverk miðað við allt sem þú hefur mátt þola.

Gangi þér vel að fóta þig í framtíðinni og góða ferð og skemmtum í Ungverjalandi, njóttu þín þar með krökkunum og reyndu að hugsa ekki um neitt annað en líðandi stund og daginn í dag.

Kveðja ókunnug sem rakst hingað inn fyrir margt löngu síðan og hef stundum kíkt hingað eftir það.

Ein ókunnug (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 11:58

2 identicon

Kæra Guðrún Jóna mikið fannast mér gott en sárt að lesa hugrenningar þínar og þekkki svolítið af þessu sjálf en ég segi það sem ekki fellir mann herðir mann ekki satt "gamli" kennari minn. Las það sem Kata sendi þér á afmælisdaginn og ég klökknaði bara mikið erum við ríkar konur að eiga svona frábær börn Guðrún mín þetta eru einu og mestu auðæfi í veröldinni.  Eigðu gott frí með krökkunum þínum og hafðu það alltaf sem allra allra best

kv

Sigþóra

Sigþóra Gunnnarsdótttir (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 14:30

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Kæra "ókunnug"

Takk fyrir að kíkja á síðuna mína og fyrir hlýjar kveðjur. Ekki leiddist mér að lesa "commentið", erum við ekki öll einmitt svolítið hégómagjörn þegar kemur að útlitinu??

Mér þykir vænt um innlitið, kærar þakkir

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 19:30

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Gaman að heyra frá þér Sigþóra, "gamli nemandi minn". Ætli þú hafi nú ekki fengið þinn skerf af erfiðleikum þannig að ég veit að þú skilur meira en margur.

Þetta er svo sannarlega rétt hjá þér varðandi börning; við erum ríkar,engin spurning. Slík auðævi verður aldrei hægt að verðleggja og engin getur tekið þau frá manni nema "sá eini" sem ræður, ekki satt?

'Eg mun pottþétt gleyma öllum heimsins áhyggjum og vafstri þegar út er komið og njóta mig "í ræmur", eins og unglingarnir segja

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 19:34

5 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Enn og aftur til hamingju með afmæli og já ég er mjög sammála því sem hér er sagt að þú lítur ótrúlega vel út, þú ert mjög glæsileg kona Guðrún Jóna og ég er viss um að þú kemur endurnærð frá Ungverjalandi.....mundu eftir að fara í Spa...í mesta Spa landi heims.

Gíslína Erlendsdóttir, 8.10.2007 kl. 22:57

6 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir complimentið, ég roðna bókstaflega og það gerist sjaldan.

Verst að geta ekki haft þig sem leiðsögumann þarna úti Gíslína, mér hefði ekki leiðst það. Og veistu; ég hef aldrei á ævi minni farið í Spa, nudd eða nokkurn skapaðan hlut. Kannski ég prófi það núna

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband