Orðin tölvunörd

Svei mér ef ég er ekki orðin eins og hver annar tölvunörd. Sit við blessaða tölvuna að meðaltali 8-10 tíma á dag. Stundum samfellt.  Reyndar ekki í tölvuleikjumWink

Þessi dagur byrjaði eins og sá síðasti, ég rumskaði með vekjaraklukkuna einhvers staðar í sænginni, hún löngu búin að hringja og ég svaf hringinguna af mér. Ekki vantar samt lætin í henni þegar hún fer af stað. Ég hef örugglega vaknað og slökkt á henni, ég man bara ekki eftir því.  Er svo með gemsan stilltan til vara, hann var einnig einhvers staðar grafinn í sænginni, ég heyrði aldrei í honum heldur. Geltið í tíkunum vakti mig.

Auðvitað vaknaði ég of seint og uppi var fótur og fit að finna síman og klukkuna til að athuga hvort ég næði á Skagann fyrir kl.08.30 og ég sem átti eftir að taka olíu. Úff, það gekk mikið á, fór í hendingskasti af stað, greiddi mér á leiðinni, með erfileikum. Enn með harðsperrur í öllum vöðvum síðan um helgina. Lenti á eftir trukkum og iðnaðarmönnum sem eru greinilega á launum við aksturinn í vinnuna, svo rólega fara þeir, með gemsan á eyranu, helst báðum.  Rétt marði inn í skóla 2 mín. fyrir hringingu og áttaði mig á því að ég hafði einungis sett mascaran öðru megin og það út a kinn og flíspeysan var á röngunni. Náði að snúa henni við á leiðinni í stofuna. Kennslan gekk stórslysalaust fyrir sig en mín ansi móð í byrjun, rétt eins og fýsibelgur. Eins gott að sólarpúðrið var báðum megin.

Mér er það ljóst að ég er óttarlegur aumingi þegar kemur að úthaldinu og hef greinilega farið framúr mér síðustu dagana. Til að bæta gráu ofan á svart er álagið extra mikið þessa vikuna, tók að mér smá aukavinnu frá 12.00-16.00  í nokkra daga út af neyð þannig að sólahringurinn er ekki nægilega langur. Átt reyndar lausa stund á milli kl. 11.00 - 12.00 og gerði ég eins og vörubílstjórarnir í Ameríkunni, ég lagði bílnum afsíðis og lagði mig. Það bjargaði deginumFootinMouth

Þetta má alls ekki hafa áhrif á starf mitt og því sit ég lengur en ella við tölvuna á kvöldin. Fór svo sjálf í aukatíma í kvöld enda orðið tímabært að sinna náminu.  Fæstir átta sig þó á því að þessi tölvuvinna mín heima er stór hluti af mínu starfi og hún verður að ganga fyrir. Í öllu falli verður þessi vika nákvæmlega svona; "hectic" og vinnudagurinn 14-16 tímar.

Álag sem þetta er ekkert nýtt fyrir mér, ég hef ævinlega þurft að vinna 2-3 störf í senn. Hjúkrunarfræðingar og framhaldsskólakennarar hafa ekki það há laun að þau dugi til að framfleyta meðalfjölskyldunni, allra síst þegar maður er eina fyrirvinnan. Vissulega hægðist aðeins á veturinn 2006 en þá var ég einungis í einni vinnu enda að ljúka tveim prófgráðum. Þvílíkur lúxux sem mér fannst sá tími.  Nú þarf ég að vinna upp tekjuskerðingu síðustu 10 mánuðina, fyrst vegna veikindanna og síðan vegna fráfalls Guðjóns.  Okkar skulbindingar miðuðust við tvær fyrirvinnur.

Ég er óendanlega lánsöm að komast til þeirrar heilsu að getað stundað vinnu sem er ekkert sjálfgefið.  Ég er því heppnari en margur annar og kvarta því ekki þó vinnan verði margföld á meðan ég næ upp dampinum og sætti mig vel við fórnarkostnaðinn sem felst aðallega í auknum verkjum og óendanlegri þreytu.  En eftir þessa viku gefst aukið svigrúm til að hreyfa sig og reyna að koma sér í betra form, ekki veitir af. Ég kæmist ekki upp Skólavörðustiginn, hvað þá að fjallsrótum Esjunnar eins og staðan er í dag. Hef reyndar alltaf verið óhemjulöt að ganga í gegnum tíðina en er bókstaflega orðin háð því núna. Það er m.ö.o. hægt að kenna gömlum hundi að sitjaShocking

Krakkarnir standa sig vel úti, Katan í smá tilvistarkrísu eins og eðlilegt er enda ekki bara flogin úr hreiðrinu heldur komin í annað land. Stundataflan hennar vægast sagt svínsleg, er flesta dagana í skólanum frá kl.08.00 - 20.00, líka á föstudögum.  SickHádegishlé og frímínútur þekkjast ekki og fleiri kílómetrar á milli bygginga við háskólann þannig að það er sprett úr spori. Hún ætlar að kaupa sér hjól við fyrsta tækifæri.  Auk þessa býr hún með bróður sínum og kunningja hans, sem sé tveim karlmönnum.  Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.Cool  Tímarnir heldur færri hjá Haffa og meira svigrúm til lesturs og tómstunda enda kominn á kaf í körfuna aftur, hef ég heyrt.

Vinnan næstum búin í kvöld, var heila 3 tíma að semja eitt próf! Á eftir að svara nokkrum tölvupóstum og síðan er það rúmið sem heillar óendanlega þessa dagana. Allt á fullu fyrir vestan, mínir menn og vinir klikka ekki frekar en fyrri daginn. Svakalega sakna ég þeirra og til að bæta gráu ofan á svart hef ég ekki tíma í uppáhaldsiðjunna; að tala í símann.  Það verður að bíða betri tíma eins og margt annað skemmtilegt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband