13.9.2007 | 14:13
Slæmt en ekki alslæmt
Hef verið þungt hugsi eftir athugasemdir þjónustufulltrúa Kbbanka í gær þar sem hann beinlínis gefur upp að honum sé kunnugt um fjármál þeirra umsækjenda sem sóttust eftir tíðræddri stöðu framkvæmdarstjóra.
Málið er sérstaklega alvarlegt í mínu huga sökum starfa umrædds þjónustufulltrúa, sem verður það heitt í hamsi að afhjúpa í raun trúnaðarbrest. Hvaðan skyldi færslan hafa verið framkvæmd? IP talan á færslunni segir auðvitað allt um það.
Ekki það að trúnaðarbrestur er ekkert nýtt fyrirbrigði í minni byggð, það hefur löngum tíðkast að viðkvæmar upplýsingar hafi lekið út í samfélagið og virðist þá litlu máli skipta hvaða stofnun/fyrirtæki á í hlut. Ef einhver tekur lán eða þinglýsir í heimbyggð er að komið um alla sveit áður en málin eru frágengin. Jafnvel ábyrgðarmennirnir á hreinu. Það sama gildir um bætur frá TR ;viðkæm bréf jafnvel send galopin með póstinum þannig að sjúkrasagan er fyrir opnum tjöldum. Ef kona reynist ófrísk, þykir henni nauðsynlegt að leita jafnvel annað fyrstu vikur meðgöngunnar hí stað þess að fá þjónustu í heimabyggð, svo fáein dæmi séu nefnd. Allt til að þungunin fréttist ekki.
Í kosningaslag hefur ekki þótt tiltökumál að draga upp fjárhagslega stöðu frambjóðenda hvort heldur sem hún er jákvæð eða neikvæð, öllu tjaldað til í því skyni að koma höggi á andstæðingana. Menn hafa ekki verið feimnir við að sviðsetja og búa til hneykslanlegar sögur um andstæðinginn og kennir þar ýmissa grasa í skáldsögunum,atvinnurógnum og svívirðingunum. Hika menn ekki við að taka einkalíf annarra fyrir og fer mikið fyrir hugmyndafluginu í þeim efnum. Þar fara gjarnan fremstir í flokki sem í raun eru ekki til fyrirmyndar er kemur að einkalífinu, hvort heldur sem þeir stundi framhjáhald, lyfjaát eða berji konur sínar. Með því að hafa nógu hátt um andstæðinginn og takast á loft í hugmyndafluginu er hægt að þyrla upp moldviðri og breiða yfir eigin slóð, í bili.
Við þekkjum þetta öll, við vitum af þessu en flestir hafa kosið að láta slíkt viðgangast í því skyni að verja sitt og sína. Enginn vill verða næstur, fjölskyldan, atvinnan og búsetuskilyrði í húfi og það skil ég vel. Ærumeiðing verður aldrei aftur tekin, hversu óréttmættar og rangar fullyrðingar liggja þar að baki og það vita menn, að fenginni reynslu. Menn hafa beinlínis verið gerðir út til að grafa og þefa upp einhver leyndarmál eða hvað sem er til að koma höggi á andstæðingana og er ekkert heilagt í þeim efnum. Finnist ekkert, þá er það einfaldlega búið til og þá nógu krassandi.
Menn reiðast gjarnan sannleikanum og sumir þola ekki gagnrýni á stjórnsýsluna. Í stað þess að svara gagnrýninni á málefnalegan hátt, er rokið upp og reynt að koma höggi á þann sem gagnrýnini veitir. Ég leyfi mér hiklaust að benda á staðreyndir og það sem ég tel betur megi fara, skárra væri það nú. En það er ekki sjálfgefið að aðrir séu á sama máli og eðlilegt að þeir láti skoðun sína í ljós.
Menn þurfa ekki að stunda skáldsögugerð um nánungann, sannleikurinn er alveg nógu krassandi þó hann snúist etv. um þá sem ekki má ræða. Það er hins vegar spurning, hvað almenningur á að vita um nánungan. Sumir auglýsa sjálfir sitt einkalíf, hvort heldur sem á vinnustað eða í gangnakofum en það er þá alfarið á þeirra ábyrgð. Öðru máli gegnir um mál er heyra undir trúnað.
Athugasemdir þjónustufulltrúans við bloggi mínu geta seint talist til málefnalegrar umræðu eða gagnrýni. Það sem meira er; þær endurspegla einmitt það sem ég hef bent á og gagnrýnt í samfélaginu. Einskins látið ófreistað til að koma höggi á þann sem opnar munninn, jafnvel þó það kosti trúnaðarbrest og virðist mönnum ekkert heilagt í þeim efnum. Einmitt þessi viðbrögð voru fyrirsjáanleg, það var einungis spurning hver myndi ríða á vaðið. Afhjúpunin alger og því ekki alslæm þó gróf sé. Ég hlýt að spyrja um trúverðugleika þjónustufulltrúans sem fagmanns í eina banka samfélagsins og tel hann koma höggi á annars frábært starfsfólk bankans. Það er miður og áhyggjuefni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.