10.9.2007 | 23:22
Umræður jákvæðar
Mér finnst alltaf gott ef umræður skapast um mál og menn. Þær skapa grundvöll fyrir skoðanaskipti og mismunandi sjónarmið. Ekki er verra ef leiðréttingar koma fram þegar farið er með rangt mál. Mér finnst bloggið vera góður kostur fyrir okkur sem einstaklinga með skoðanir og annað sem okkur liggur á hjarta. Sá sem bloggar ber einn ábyrgð á sínum skrifum og þannig á það að vera.
En það er ekki þar með sagt að hægt sé að setja allt sem manni dettur í hug á bloggið og gæta verður velsæmis. Hvernig menn skilgreina velsæmi er svo auðvitað allt annar handleggur og skiptar skoðanir á því hugtaki.
Mér sýnist ég hafa nartað í einhverja viðvæma strengi með síðustu færslu minni. Ég lít svo á að ég geti tjáð mig um málefni líðandi stundar, komið með gagnrýni þegar hún á við o.s.frv. Mér þykir hins vegar leitt að hafa farið með rangt mál varðandi menntun veghefilsstjórans, þessa ágæta manns og hef beðið velvirðingar á því í atugasemdadálknum. Ekki var meiningin að gera lítið úr menntun hans eða annarra, ég vissi einfaldega ekki betur og nú er þeirri leiðréttingu komið á framfæri.
Það breytir hins vegar ekki skoðun minni á pólitískum og/eða vina-/ættingjaráðningum almennt séð. Þær eiga sér stað alls staðar í þjóðfélaginu en í mismiklu mæli og eru misgrófar. Mýmörg dæmi sanna það og eru þau dæmi sem ég tiltek í síðustu færslu, einungis örfá dæmi um slíkar ráðningar. Mér hefur ekki borist gagnrýni vegna þeirra. Ég get sagt það með góðri samvisku að töluvert skortir á siðferði og fagmennsku í flestum þeirra.
Ég hef kosið að ræða hispurslaust um þau mál sem brenna á mér hverju sinni á þessum vettvangi enda oft komið fram hjá mér að lífsýn mín hefur breyst töluvert eftir erfiða og sársaukafulla reynslu síðustu ára. Reynslu sem ég gat ekki séð fyrir en aðrir gerðu án þess að gera mér viðvart. Veikindin og makamissir síðustu mánuði hafa skerpt enn á þeirri lífsýn minni.
Ég ber hag míns sveitarfélags mikið fyrir brjósti og verð seint þreytt á því að fylgjast með gangi mála á þeim vettvangi enda er mér það frjálst. Virðing fyrir hagsmunum sveitarfélagsins, íbúum þess og framþróun er því miður af skornum skammti af hálfu núverandi sveitarstjórn og fer sú hagsmunapólitík sem þar er rekin, ákaflega fyrir brjóstið á mér, líkt og fleirum. Hún hefur nefnilega eflst og versnað síðustu 18 mánuðina og þótti slæm fyrir. Þeir sem gagnrýndu stjórnsýslu og stjórnarhætti hæst fyrir þann tíma, taka fullan þátt í hagsmunapólitíkinni dag. Mér finnst það miður og gerir þá lítt trúverðuga. Einræði er alltaf slæmt.
Ég sé sem sé, enga ástæðu til að læðast með veggjum með skoðanir mínar. Lífið er stutt, á það hef ég verið rækilega minnt. Við búum við skoðana- og tjáskiptafrelsi og eigum að nýta okkur það. Það vill svo til að pólitíkin er eitt af mínum áhugamálum og bíð ég spennt eftir komandi þingi. Fraundan er gúrkutíð í þeim efnum.
Er öll að koma til eftir iðrakveisuna sem var hundleiðinleg og hvimleið en ekkert alvarlegt á ferðinni. Ég þarf greinilega einhvern aðlögunartíma gagnvart starfinu, verið hálf utan við mig, farið vikuvillt og hvað eina en nú er það tíma- og verkefnastjórnunin sem tekur völdin. Verð skipulögð fram í fingurgóma. Fer vonandi að sjá fyrir endann á öllu vafstri og aukaálagi og léttir að vera búin að taka einhverjar ákvarðanir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.