Áfram lumbra

Svo fór sem mig grunaði, pest enn og aftur. Engin ósköp en nóg til að kyrrsetja mig heima í dag með fötuna um hálsinn. Merkilegt hvað mikið er af vírus- og umgangspestum í gangi og ekki nema september.  Það verða blómafræflarnir og vítamínin til að byggja upp mótstöðuna áður en hin eiginlega gúrkutíð í flensum hefst. 

Ég hef fengið mikið af góðum ráðum undanfarið, ekki síst út af vangaveltum mínum um krossgöturnar og hvert skuli stefna.  Allt orð að sönnu. Auðvitað á maður að taka ákvarðanir sem snúast um eigin vellíðan og hagsmuni, ekki annarra.  Þrjóska á heldur ekki að ráða för. Engu að síður er málið þannig vaxið að uppgjör við fortíðina er óumflýjanlegt, á því uppgjöri byggist framtíðin.  Það er ekki hægt að halda áfram né strika neitt út fyrr en málin hafa verið gerð upp, a.m.k. innra með manni.  Þá fyrst verður maður sáttur.

Ég hef lengi látið reyna á mannkosti og heiðarleika manna. Hef verið óþreytandi að gefa "mönnum sjens" til að bæta sig. Það verður að vísu alltaf erfiðara eftir því sem tækifærin verða fleiri og enginn árangur. Enn erfiðara er það þegar menn ganga út fyrir öll velsæmismörk í því eina skyni að bregða fyrir mann fæti og fella mann eða í stuttu máli að gera manni lífið óbærilegt.  Þrátt fyrir allan mannkærleika hlýtur að koma að því að maður fær nóg og leyfir mönnum að bragða á eigin ólyfjan.  Hvernig má annað vera?

Mér hefur verið tíðrætt um vald og misbeitingu valds. Eitthvað sem samfélagið ætti aldrei að láta yfir sig ganga. En það er svo einkennilegt með okkur mannfólkið, við kokgleypum loforðum um bót og betrun þrátt fyrir síendurtekin brot á þeim loforðum.  Þegar misbeiting valds hefur það vítæk áhrif á líf einstaklings að viðkomandi er króaður út í horn af "hýenum" og á sér ekki viðreisnarvon er ástandið orðið alvarlegt.  Þegar menn eru sviptir öllu, ærunni og lífsskilyrðum er ekkert eftir, nema kannski baráttuviljinn

Kjörnir fulltrúar hafa skyldur gagnvart kjósendum sínum og samfélagi. Þeim ber að hafa velferð íbúanna og samfélagsins fyrir brjósti, forgangurinn á að vera algjör og eigin hagsmunir alltaf að víkja. En þegar kjörnir fulltrúar eru farnir að misbeita valdi sínu með þeim hætti að eigin hagsmunir og vina og vandamanna ráða för er illt í efni.  Í mínu byggðalagi hefur slík misbeiting valds viðgengist í áraraðir. Menn bundu vonir um breytta stjórnarhætti með nýjum mönnum og ferskum vindum en láðist að gefa því gaum að úlfur í sauðagæru var meðal þessa "nýja " hóps. Sá hinn sami hafði svo sem sýnt sitt rétta andlit áður, bæði í opinberum hlutverkum sínum sem og í einkalífi. Engu að síður er hann valdamesti maðurinn á svæðinu og hefur alla þræði í hendi sér. Hans æðsta hlutverk virðist vera fólgið í því að viðhalda fyrri stjórnarháttum og stunda EINRÆÐI. Vandaðir stjórnsýsluhættir finnast ekki uppi á því borði og sem betur fer hafa menn í auknum mæli gert athugasemdir þ.a.l. en hann kemst engu að síður upp með sína iðjan. Fagurgalinn blekkir, a.m.k. um tíma en ekki endalaust, mig grunar að fallið gæti orðið hátt og harkalegt.

Það má með sönnu segja að þegar kemur að ákvörðun um eigið líf og velferð, sé réttast að leita þangað sem fer best um mann. Breytingar krefjast hins vegar alltaf uppgjörs og maður er alltaf að læra af reynslunni í gegnum allt lífið. Valdbeiting og vanvirðing á lýðræði fer hins vegar alltaf illa fyrir brjóstið á mér og sumir segja að "þangað leiti klárinn þar sem hann er kvaldastur".   Það má satt vera í mínu tilfelli.  Ég breyti hins vegar ekki heiminum ein en ég get hins vegar sagt sannleikan eins og hann er, reiðilaust. Það er löngu tímabært að hann komi fram.W00t

Þá fyrst get ég haldið áfram, sátt við sjálfa mig og æðri máttarvöld.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband