Lumbra og þyngsli

Ekki laust við þreytu og einhverja "lumbru" síðustu 2 dagana. Vantar greinilega upp á úthaldið þó það sé vissulega margfalt á við úthaldið í síðasta mánuði.  Ekkert alvarlegt þó.Wink

Sjálfsagt spilar inn í allar þær breytingar sem hafa dunið á og munu gera á næstu vikum. Það er nefnilega ótrúlega erfitt að taka ákvarðanir sem umturna lífi manns, fyrri stefnu og áherslum.  Staðreyndin er hins vegar sú að þegar maður verður fyrir því höggi að greinast með krabbamein og ganga í gegnum alla þá erfiðleika sem því fylgir, breytast áherslurnar í lífinu.  Eftir að hafa staðið frammi fyrir því að lifa jafnvel ekki sjúkdóminn af, breytist lífssýnin svo um munar. Hversdaglegt amstur og lífsgæðakapphlaup skiptir ekki lengur máli. Æi, ég veit ekki; forgangsröðunin gjörbreytist  og jafnvel dægurþrasið í stjórnmálum verður litlaust og leiðinlegt enda alltaf sama tuggan. Þá er reyndar fokið í flest skjól hjá minni þegar mér er farið að leiðast stjórnmálaþrasið.W00t

Ég hef þráfaldlega spurt mig síðustu vikur, eftir að ég fékk þær fréttir að ég ætti góðar líkur á fullum bata, hvað það er sem ég vil í því lífi sem mér er ætlað í þessari jarðvist. Búin að gera mér grein fyrir því að áframhaldandi jarðvist er nefnilega ekkert sjálfsagt mál. Hvernig vil ég lifa mínu lífi?  Mér hefur ekki verið það sársaukalaust að kryfja þá spurningu til mergjar. Líf mitt hefur tekið gríðalegum breytingum; ég búin að greinast, Guðjón látinn og krakkarnir flognir úr hreiðrinu.  Fjárhagsleg áhrif veikindanna og fráfalls Guðjóns eru gríðaleg og augljóst að eitthvað hefur látið undan. Ég hef svo sem ekki dregið dul á það að hvorki kerfið, viðskiptabankinn eða aðrir hafa ekki sýnt þessum erfiðleikum skilning, þolinmæði eða sveigjanleika. Sú erfiða reynsla hefur bæst ofan á veikindin, sorgina, söknuðinn og einmannaleikann. Hneisan, skömmin, höfnunin og vanmátturinn hafa bæst ofan á allt annað, þrátt fyrir að reyna mitt besta.

Gott og vel, ég er ekki sú eina sem upplifi slíkar hörmungar og ekki sú síðasta þannig að mér dettur ekki í hug að vorkenna mér.  En ég vil koma mér út úr þessum erfiðu aðstæðum og það get ég þó það sé ekki auðvelt né sársaukalaust. Spurningin hefur hins vegar verið sú; hvert vil ég stefna, hvaða valkosti á ég að velja?  Svarið hefur vafist fyrir mér og legið hefur við hálgerðri tilvistarkreppu, svei mér þá.

Valkostirnir eru hins vegar skýrir; vil ég halda áfram að heyja vonlitla baráttu um tilvistarrétt, mannréttindi, lýðræði, búsetu- og atvinnuskilyrði og val í þeim efnum eða vil ég snúa við blaðinu og beina kröftum mínum þangað sem þeir eru metnir og sóst eftir þeim?  Vil ég vera neikvæðu umhverfi sem einkennist af valdabaráttu, klíkumyndunum og ofsóknum gegn þeim sem ekki falla í kramið og þar sem menn eru klofnir í herðar niður fyrir það eitt að hafa skoðanir? Verða einhvern tíman einhverjar breytingar á núverandi samfélagi?  Eða sækist ég eftir öðrum lífsskilyrðum?Hver er fórnarkostnaðurinn við óbreytt ástand og hver er hann við breytingar?

Þessum spurningum hefur ekki verið auðvelt að svara, margar hliðar á þeim öllum svo ekki sé minnst á lýðræðislegt val. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að fórnarkostnaður síðustu 6 ára hefur verið mikill og óbætanlegur fyrir mig og mína og hef ég upplifað hina ótrúlegustu reynslu sem fæstir vildu upplifa, hef ég trú á. Mér er oft hugsað til þeirra sem hafa mótað og stýrt því ferli öllu saman. Hvernig skyldi þeim líða innra með sér svona almennt? Ekki það að siðblinda er vandamál margra og það mál fljótafgreitt; þeir sjá ekkert athugavert við sjálfa sig en það er ekki vandamál allra hlutaðeigandi.Hvernig skyldu hinum þöglu þátttakendum líða?  Ég fæ sjálfsagt seint svar við þessum spurningum mínum og vangaveltum.

Sem betur fer hef ég val, það er ekki hægt að segja um alla. Fyrir það er ég auðvitað þakklát. Það sem háir mér þessar vikurnar er einfaldega "Vogin" í mér, ég þarf alltaf að velta öllum möguleikum fyrir mér frá öllum hliðum áður en ég tek ákvörðun.  Oftast er ég reyndar fljót að því en í þetta skiptið sit ég enn föst á krossgötunum þó ljósið sé löngu orðið grænt. Tilfinningar, vinátta og væntumþykja gagnvart fólki spilar sterkt inni í og óútskýrð þörf fyrir það að leggja mitt að mörkum til að bæta samfélagið og ástandið. Skynsemin ræður ekki alltaf för í þegar kemur að slíkum tilfinningum og ótrúlegt hvað maður er tilbúinn að láta yfir sig ganga til að tryggja réttlæti og sýna tryggð.  En slíkt verður auðvitað að virka í báðar áttir.Whistling

Í öllu falli stend ég frammi fyrir því að miklar breytingar hafa átt sér stað í mínu lífi. Flestar breytingar leiða eitthvað jákvætt í för með sér og tek ég þeim fagnandi, aðrar ekki og sumar eru einfaldlega óhjákvæmilegar. Ég verð að taka ákvarðanir í samræmi við þessar breytingar og breyttar áherslur verða hafðar að leiðarljósi.  Velferð mín og barnanna er það sem skiptir mestu máli og það að vera sátt við eigin ákvarðanir. Mér mun seint hugnast að láta aðra stjórna þar för og þeir sem mig þekkja, vita að ég læt seint deigan síga. Valið verður mitt, hver svo sem stefnan verður í náinni framtíð.  Uppgjör tekur hins vegar alltaf á.Pinch


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Sæl Guðrún.

Slæmt og leitt að heyra hvernig heilsa þín er.  Veit að þú ert sterk og lætur sjúkdóminn hafa verulega fyrir því að bíta á þig. 

Varðandi forgangsröðun, ekki spurning í mínum huga.  Settu sjálfa þig í forgang, gerðu það sem þig langar til, eins og þig langar til.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 5.9.2007 kl. 22:21

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir þessi hvatningarorð Bragi, það er gott að vera minntur á það að setja sjálfan sig í forgang á stundum. Okkur Íslendingum hættir til að gleyma því ansi oft.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.9.2007 kl. 22:46

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Og ef ég má gefa þér eitt ráð sem kannski auðveldar þér valið....... vertu í kringum fólk sem þér líður vel með.  Það er ótrúlega mikilvægt. 

Anna Einarsdóttir, 5.9.2007 kl. 23:22

4 identicon

Elsku Gunna mín.  Ég ítreka bara það sem ég hef lagt til ... að lifa lífinu lifandi og njóta þess að vera til með fjölskyldu sinni og sönnum vinum.  Eftir að ég fékk mitt annað tækifæri fyrir nærri 6 árum síðan hef ég reynt að lifa eftir þessu móttói.  Nú er ég í óða önn að losa mig við neikvæð mál, ganga frá þeim og pakka þeim niður ... og halda út í núið og framtíðina með bros á vör og von í hjarta.  Þú veist hvar þú hefur mig, hugsaðu fyrst og fremst um sjálfa þig og hlustaðu á hjartað þitt

Sigrún sys (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 11:28

5 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Ég sagði við son minn í gær sem á mjög erfitt með að sætta sig við veikindin mín og vill oft finna sökudólg og beina svo reiðinni þangað. Ég sagði honum að reiði væri tilgangslaus tilfinning, hún gerði ekki neitt. Tilgangslausar tilfinningar eru þær tilfinningar sem eru vondar, sem skemma fyrir okkur og öðrum en laga aldrei neitt. Þú getur verið reið við eitthvað fólk árum saman en hvað gerist...ekki neitt....nema að þú eyðir tíma og heilsu í að viðhalda ástandinu, brýtur niður ónæmiskerfið og lamar sjálfa þig.  Þess vegna er mjög mikilvægt að hætta að beina tilfinningum sínum í þessa átt, lausnin liggur í því að hafa um nóg annað  að hugsa, umgangast skemmtilegt fólk, finna sér skemmtilega vinnu og eiga fullt af áhugamálum. Láta allt gamalt og erfitt bara líða hjá og passa að það festist ekki í kollinum.  Ég hef mikið notað eftirfarandi orð til að koma mér í gegnum andleg átök og erfiðleika en þau eru.......ég er frábærust og æðislegust... og ganga svo út bein í baki og með bros á vör og lífið verður bjartara.

Gíslína Erlendsdóttir, 6.9.2007 kl. 13:05

6 Smámynd: Katrín

Að taka til í sálarkytrunni er svipað og taka til í fataskápnum.  Lengi vel tímdi ég aldrei að henda neinum fötum og skápurinn stútfylltist af fatagörmum sem fylgdu mér svo landshluta á milli.  Nú spyr ég sjálfa mig einnar spurningar: Hef ég notað flíkina síðasta árið?   Ef ég svara spurningunni neitandi er poki dreginn fram (lítill), flíkin sett í hann, lokað fyrir og farið með beint út í ruslatunnu. 

Og það sem þú ert nú svo náskyld mér leyfi ég mér að benda þér á að skipta um umhverfi hefur ekkert með uppgjöf að gera.  Ekki hugsa: ég ætla ekki að láta neinn hrekja mig í burtu, þess vegna ætla ég að vera áfram. 

Tækifæri á nýjum ævintýrum gefast ekki á hverjum degi- grípu það núna - það gæti verið horfið á morgun


litla sys 

Katrín, 6.9.2007 kl. 15:27

7 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Gaman að sjá þessa færslu frá þér Katrín, það er alveg rétt hjá þér, flutningar þýða ekki uppgjöf heldur einmitt að vera of góð til að hýrast innan um það sem veldur mestu angri. Með því sýnir þú að þú ert skilin við fortíðna og farin á vit nýrra ævintýra. Ég er einmitt að taka til í fataskápnum, engin miskun þar.

Gíslína Erlendsdóttir, 6.9.2007 kl. 16:11

8 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þetta gengur ekki Gíslína, ég verð að drífa í ættfræðinni. Ég er handviss um að við séum skyldar. Framsk blóð rann í æðum móður minnar sem ættuð var frá Breiðabólstað á SKógarströndinni.

Auðvitað hafið þið rétt fyrir ykkur og löngu tímabært að taka til í fataskápnum

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 6.9.2007 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband