Þar kom að því

Þó ég hafi misst af fréttum kvöldsins hef ég haft fregnir af því að þarft verk var unnið. Þórdís Tinna ku hafa verið í viðtali og ætla ég rétt að vona að umfjöllunin hafi verið skammarleg meðferð og útkoma þeirra sem berjast við langvarandi og/eða illkynja sjúkdóma. Í öllu falli hef ég fregnað að hún hafi staðið sig vel og það er frábært.

Staðreyndin er nefnilega sú að öll veikindi setja strik í reikninginn hjá okkur. Misalvarleg. Þegar þau eru farin að hafa áhrif á fólk fjárhagslega er fátt um fína drætti. Það sem meira er, það má ekki tala upphátt um þau áhrif.  Fólk skríður með veggjum, einfaldlega af því að áhrifin eru neikvæð og það sem meira er; fæstir vilja vita af þeim.  Það er líka svo ofboðslega erfitt að skulda og standa ekki við sínar skuldbindingar.

Íslendingar eru þekktir fyrir neyslusamfélag og stór hluti þjóðarinnar fjárfestir í samræmi við áætlaðar tekjur. Bankarnir gera einfaldlega ráð fyrir því miðað við gylliboðin.  Öll reiknum við fastlega með að halda okkar tekjum og ef við missum vinnuna; þá fáum við aðra. Fæstir huga reyndar að þeim möguleika að missa vinnuna yfir höfuð. En hvað gerist ef við veikjumst? Afleiðingarnar eru misjafnar í fyrstu, fer eftir því í hvaða stéttarfélagi við erum í þeim efnum. Sum okkar halda launum til lengri tíma, önnur til skemmri tíma. Í öllu falli tekjuskerðing þegar til lengri tíma er litið og hvað gerist þá?

Jú, ósköp einfaldlega safnast upp vanskilin, bankarnir, Íbúðarlánasjóður, leigutakinn, rafmagnið, hitinn, síminn og hvað það er hjá hverju og einum; allt lendir í vanskilum. Vextirnir hrannast upp og í svæsnum tilfellum gjaldfellir bankinn allt, hreinlega lokar og hirðir allt. Það eru ekki allir heppnir með viðskiptabankan sinn.

Í ofanálag bætist við kostnaður vegna læknismeðferðar, lyfja, rannsókna og styttri innlagna; ÞRÁTT FYRIR AFLSÁTTARKORTIN!  Svo ekki sé minnst á landsbyggðartútturnar sem þurfa að greiða fyrir gistingu ef þær eru svo ólánssamar að eiga ekki aumingjagóða ættingja eða vini sem skjóta yfir þá skjólshúsi.

Skömmin er ólýsanleg og vanmátturinn alger. Að standa ekki í skilum við skuldbindingar er hræðilegt, að geta ekki veitt börnum sínum það sem þau þurfa er enn hræðilegra. Að vera ekki gildur þjóðfélagsþegn og skila sínu til baka til samfélagsins er óbærilegt. Að þurfa að þiggja bætur er skref sem flestir eiga erfitt með að taka. Láta sig hafa það á meðan baráttan stendur hæst og kraftarnir þurfa að beinast að þeirri baráttu.  Lenda svo í kerfinu og þurfa að berjast um hæl og hnakka til að sækja um það sem er "lögbundinn réttur" allra Íslendinga, bætur sem enginn getur lifað af með, þrátt fyrir allar skattagreiðslurnar í gegnum tíðina.  Svo ekki sé minnst á aldraða.

Og hvað er til ráða? Fátt eitt annað en að láta þetta yfir sig ganga, reyna að klóra í bakkann og það sem öllum finnst sjálfsagt; að bera sig vel! Vera duglegur!

Staðreyndin er nefnilega sú að þegar fólk greinist með alvarlega og lífshótandi sjúkdóma þá er það krafa samtímans að standa sig. Láta yfir sig ganga erfiðar meðferðir, endurhæfingu og allt sem því fylgir. Umfram allt að berjast fyrir sínu lífi; alveg sama hvað það kostar. Þú verður! Og það brosandi á vör.  Missa aldrei kjarkinn!  Láta aldrei deigan síga.  Allt fyrir lifsneistan.  Auðvitað eru flestir, ef ekki allir sem greinast með slíka sjúkdóma á sama  máli. Baráttan snýst um að berjast fyrir lífi sínu, engin spurning!

Það sem gleymist hins vegar oft í hugsun þjóðarsálarinnar og vina og vandamanna; það er miklu meira en ærið starf að klást við þá staðreynd að vera kippt út úr atvinnulífinu, að vera að heyja sinn lífróður, berjast við veikindi og aukaverkanir. Sá hinn sami þarf að kljást við aðra erfiðleika á sama tíma; fjárhaglegar breytingar og örðugleika, smánarlegar bætur og lítillækkun þegar kemur að skuldaskilum vegna tekjulækkunar/leysis. Og ekki síst það að vera kippt út úr daglegu lífi, félagslegum samskiptum og svo lengi má telja.

Hver hafa svo skilaboðin verið að öllu jöfnu? Jú þau eru einfadlega þessi: Stattu þig!

Í öllu falli hefur umræðan fremur verið sjúkdómamiðuð, fjárhagsleg áhrif þess að vera kippt út af vinnumarkaðnum eru ekki rædd. Aðgengi þeirra að vinnumarkaðnum sem hafa greinst með alvarlegan sjúkdóm þegar ástand leyfir, er skert ef ekki með öllu útilokað.  Ég fagna því mjög að umræðan skuli opnast um þessi mál. Krabbameinsveikir og aðrir sem veikjast af langvinnum og eða alvarlegum sjúkdómum eiga við fleiri vandamál að stríða en veikindin þó menn virðist forðast þá umræðu. Staða þeirra gagnvart bótum og ríki eru til háborinnar skammar og ekki mönnum bjóðandi, svo ekki sé minnst á það niðurlægjandi ferli að sækja um rétt sinn. Flestir upplifa það sama þegar það ferli hefst; þú þarft að berjast fyrir þínum rétti og tilfinningin er sú að um ölmusu er að ræða.

Vonandi breytir opinská umræða þessum málum til bóta, fyrir alla hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Til hamingju Þórdís Tinna og Gísína.  Markmiði ykkar er náð; þ.e. að ná athygli ráðamanna og þjóðarinnar og opna umræðuna. Nú er bara að halda áfram!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Guðrún - Smá innlegg frá mér. Að ganga eftir því sem manni ber er oft erfitt, samanber stúlkuna í Tryggingarstofnun sem tjáði mér í vetur að ég gæti bara fengið aðra leiðina greidda í ferðakostnað því ég væri ekki farin austur aftur. - Ég var að koma beint frá lækninum og átti leið niður í bæ áður en ég fór heim... Einhvern veginn var þetta eins og lögheimilið væri úti á landi í þykjustunni. Ég varð nærri kjaftstopp - fór heim - og til að fara á Selfoss í Tryggingarstofnun þarf ég að taka mér frí úr vinnu - opið til 1500 þar. Ég fór síðar þangað til að sækja um afsláttarkort - og fá ferðirnar greiddar. Fyrstu viðbrögð afgreiðslustúlkunnar voru að spyrja hver segði að ég ætti rétt á ferðapeningum. Þegar ég sagðist hafa greinst með krabbamein og væri í eftirliti þá sagði hún að það væri ekki á mér að sjá....Hvernig ætli hún sjái fólk eins og mig fyrir sér?? Kveðja, Ingibjörg í Þorlákshöfn

Ingibjörg Þ.Þ (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 10:01

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Nákvæmlega Ingibjörg. Það eru einmitt fleiri sem upplifa þessa reynslu frá TR. Það er komið fram við mann eins og maður sé að misnota kerfið eða þaðan af verra.

Það yrði ágætt ef TR léti framkvæma þjónustu- og viðhorfkönnun meðal skjólstæðinga. Ansi hrædd um að starfsfók fengi falleinkunn þar.

Nú er ekkert annað að gera en að opna umræðun enn meira og vekja athygli á þessum málum, þau eru í skelfilegum farvegi.  Það eru ekki allir jafnheppnir og ég að geta farið í vinnu á ný. Ég fæ þó tækifæri til að vinna upp tekjuskerðinguna, bæði vegna minna veikinda og vegna fráfalls maka. Kerfið, bankarnir og fleiri aðilar hafa ekki sýnt mér skilning á aðstæðum, síður en svo og veit ég að svo er um marga fleiri.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.9.2007 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband