Í kremju

Síðustu dagar búnir að vera erfiðir.  Búin að standa á mínum blessuðum krossgötum með blikkandi ljósum í allar áttir. Var loks búin að taka ákveðna stefnu, sátt við hana og létti verulega.  Lífið gjörbreyttist við það að vita hvert ég stefndi þó það væri ekki sársaukalaust að taka ákvarðanir.  Er hins vegar háð ákvörðunum annarra í því tilliti og hef verið í nagandi óvissu síðustu dagana.  Óvissu sem er óþolandi þegar mikið er í húfi.  Og það sem verra er, ég verð að sætta mig þetta óvissuástand enn, get ekkert gert til að hagga því né haft áhrif á gang mála. Ekki bætir úr skák að mig grunar að ég verði að hverfa af þeirri braut sem ég hafði markað og byrja upp á nýtt.  Enn og afturCrying

Mér finnst það kvíðvænlegt að kryfja málin til mergjar, enn og aftur og fara aftur á byrjunarreitinn.  Sumir halda því fram að örlögin séu fyrirfram ákveðin en ég hlýt þá að spyrja; af hverju getur maður einfaldlega ekki fengið þá að vita í hverju þau eru fólgin og getað gengið þá hreint til verks?  Spurningar sem ég fæ aldrei svör við, ætti svo sem að vea búin að venjast því.  Hlutirnir hafa heldur aldrei gengið snuðrulaust fyrir sig hjá mér þannig að þessi staða ætti ekki að koma mér á óvart. 

Leyni því ekki að ég er spæld og svekkt.  Það tók mig óratíma að komast að niðurstöðu og loks þegar ég var orðin sátt og tilbúin til að feta ákveðnar leiðir, klikka hlutirnir.  Urrrrrrrrrrrr, hvað þetta er pirrandi.  Ekki það að ég veit, af fenginni reynslu ,að ég mun rífa mig upp úr þessu svekkelsi og byrja upp á nýtt, er ekki vön að pompa niður í langan tíma en veit að næstu skref og aðrar leiðir verða mun flóknari. Pinch

Ég spyr mig stundum, líkt og flestir aðrir; "hvað hef ég gert til að eiga alla þessa erfiðleika skilið"? Ég veit að einhverjir væru tilbúnir með svarið en eina skýringu fékk ég um daginn af andlega sinnaðri manneskju.  Við, sem sé, veljum okkur það sjálf þegar við fæðumst að kalla yfir okkur alla heimsins erfiðleika til þess að vera þroskaðri sálir og betur í stakk búin til að halda áfram "hinum megin". Ég gat ekki stillt mig um að segja að það hlyti að vera eitthvað meira en lítið að hjá einstaklingum sem fyrirfram veldu sér slíkan farveg.  Sjálfeyðingahvöt á hæsta stigi í öllu falli.  Ekki það að ég geri lítið úr andlegum málefnum, spiritisma, indjánum eða hvaða nöfnum sem slík "trúabrögð" boða, ég kaupi hins vegar ekki þessa skýringu.  Kristinn trú  boðar ákveðnar skýringar á erfiðleikum mannanna en ég, satt best að segja, skil þær ekki alltaf.GetLost

Þrátt fyrir allar heimsins áhyggjur á herðum mér, skín sólin og því engin spurning að nýta sér góða veðrið  Ut skal ek, í þetta sinn að moldvarpast, reita arfa í gríð og erg og grafa gamla drauga.  Nóg er af illgresinu í víðasta skilningi þess orðs.Whistling

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Það hefur reynst mér vel að líta svo á að ef eitthvað gengur ekki eftir eins og ég ætlaði þá hefur það einfaldelga ekki átt að gerast.  Engum tíma eytt í svekkelsi og haldið á fram með gönguna.  Þegar einar dyr lokast opnast aðrar en það þarf að hafa augun opin til að sjá það.  Í mótlætinu felast nefnilega tækifæri Gunna mín og stað þess að eyða tíma í að velta sér uppúr því sem þú hefðir viljað gerast er vænlegra að eyða tímanum í að finna ný tækifæri.  Oft eru væntingar manns óraunverulegar þegar maður fer að skoða málin eftirá og spurning er kannski að skoða betur hvað það er sem þú vilt , síðan hvernig er hægt að ná því og fara svo af stað.   Og svo má einnig leyfa tímanum að ráða, oft koma tímar, oft koma ráð.  Og þangað til skaltu njóta augnabliksins og dagsins í dag, leyfa morgundeginum að koma fagnandi og gærdeginum að hverfa inn í fortíðina.  

Kveðjur úr sólinni fyrir vestan

Kata sys 

Katrín, 12.8.2007 kl. 16:13

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Bestu þakkir fyrir þessi orð, þau virka.  Ég er alveg sammála þér í þessum efnum og veit að í hverju mótlæti felast ný tækifæri.  Sumu er ekki ætlað að verða, það sér maður gjarnan eftir á.  Ég er bara orðin svooooooooooo þreytt.

Erfiðast er að geta ekki haft nein áhrif á gang mála eða niðurstöðu og vera algjörlega öðrum háður í þeim efnum.  Er vön að treysta hlutum varlega og alls ekki fyrr en þeir eru í höfn og alltaf með "back up plan".  Nú brást mér bogalistin, gleymdi "back upinu" og of fljót á mér að treysta.

Auðvitað lærum við eins lengi og við lifum, reynslan oft harður skóli. Ég ríf mig upp, á því er enginn vafi, þarf einungis að finna hvað er fyrir framan tærnar á mér, þarf helst alltaf að vera búin að sjá næsta leik áður en núverandi fer fram. 

Biðjum að heilsa í Víkina

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 12.8.2007 kl. 20:59

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Trúi þessu líka að það sem ekki gengur eftir átti ekki að gerast, hef svo oft lent í því og séð það greinilega eftir á. Er ekki bara best að flytja úr sveitinni.....í aðra sveit ef því er að skipta....og skipta alveg um umhverfi. ÉG þekki eina konu sem ákvað að segja upp í vinnunni...orðin hundleið þar...og fara til Kanaríeyja að vinna á bar, hún er meira að segja eldri en ég svo ekki er unggæðinghætti um að kenna.    Þessi kona á uppkomna syni og engan mann svo henni fanst tilvalið að prófa eitthvað nýtt búin að vera á sama stað bæði í vinnu og heimili áratugum saman. Held að þú þurfir á einhverju svona að halda.  Varðandi örlögin og trúna þá er ég svolítið sammála þér Guðrún, fyrir okkur mannverur þá gengur þessi speki ekki upp.....nema við áttum okkur ekki á því fyrr en eftir þetta líf.....en mikið hlýtur lífið að vera betra hinum megin ef það á að réttlæta mótlæti þessa lífs.

Hafðu það gott og vertu glöð.

Gíslína Erlendsdóttir, 13.8.2007 kl. 18:07

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þú hefur 100% rétt fyrir þér Gíslína, nú sem oft áður.  Það er einmitt heila málið, ég veit að það er kominn tími á gagngerar breytingar í mínu lífi.  Erfiðast hefur verið að taka ákvörðun um hvort ég ætti að skipta um umhverfi. 'Eg væri svo sannarlega til í að fara til Kanaríeyja ef von væri um einhverja vinnu þar

Já, það þarf mikið til ef réttlæta á mótlætið hérna megin eins og þú þekkir manna best sjálf.  Ætla mér hins vegar að bíða lengi eftir því að komast að því og ég veit að það sama gildir um þig.

Takk fyrir hlýjar kveðjur; ákvað kl. 06 í morgun að vera  brosandi í allan dag;  lét  ekkert hafa áhrif á það.  Gangi þér vel í rannsóknunum í vikunni og hafðu það sem allra, allra best

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 13.8.2007 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband