7.8.2007 | 01:30
Búin á því
Þá er maður kominn upp á fastalandið, gjörsamlega búin á því. Ekki það að guðaveigarnar hafi borið mig ofurliðið, heldur ferðalagið, umstangið og útiveran. Var reyndar ekki dugleg í Dalnum, fór á föstudagskvöld og svo aftur í gærkvöldi. Brekkusöngurinn er náttúrlega toppurinn á þjóðhátíð og ekki klikkaði Árni Johnsen frekar en fyrri daginn. Það er einfaldlega magnað að syngja með honum á sunnudagskvöldinu og horfa síðan á blysin sem lýsa upp dalinn. Engin orð lýsa þeirri tilfinningu.
Ekki tókst okkur systrum að standa undir nafni: "tvær úr Tungum", sú eldri fékk nóg og flaug upp á fastalandið á laugardagskvöldinu. Leyni því ekki að vonbrigðin og undrunin voru mikil en svona er lífið og mennirnir ólíkir. Hálf vængbrotin og miður mín, því er ekki að neita. Vond tilfinning þegar menn slá ekki saman í takt, ekki síst ef það fer fram hjá manni.
Mér fannst svolítið sérstakt að keyra um Vestmannaeyjabæ, fátt breyst á 6 árum og rataði maður hiklaust. Búðirnar vöfðust ekki fyrir mér né aðrir merkilegir staðir. Mér fannst ég hins vegar ekki komin "heim" þannig lagað séð. Bjó í Eyjum í 11 ár samtals, þykir ofboðslega vænt um Eyjarnar en sá kafli virðist einfaldlega liðinn í mínu lífi. Mér leið reyndar eins og ég hefði aldrei farið, aðeins skroppið frá.
Hitti reyndar fáa heimamenn en Ellý, þessi elska lét sig hafa það að kalla á eftir mér í brekkunni þar til ég heyrði. Frábært að hitta hana, eiginlega svolítið magnþrungin stund. Rosalega þykir mér vænt um hana, tilfinningar sem ekki er hægt að tjá, aðeins finna. Auðvitað hitti ég fleiri; Möggu Ársæls og Hjalla og Jónu Heiðu sem klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn, ég hefði viljað spjalla meira við þau. Hólmfríði hitti ég ,fyrrum yfirmann minn út á flugvelli sem breytist ekki neitt, alltaf 17 ára í anda. Við ekki alltaf sammála, en sammála um að vera ósammála. Lea, fyrrum vinkona mín, vildi hins vegar lítið við mig tala. Það var samt gaman að hitta hana enda stórbrotinn karakter þar á ferð.
Þegar upp er staðið, var það fyllilega þess virði að fara á Þjóðhátíð. Erfitt að mörgu leyti, allt of margar tilfinningar og líkamlega var þetta ögrun. Stóð mig reyndar vel, held ég, ekki síst í göngunni. Krakkarnir hreint út sagt magnaðir, bæði mín eigin og vinir þeirra, ekki síst úr Dölunum. Ótrúlega skemmtilegir og frábærir í alla staði. Þvílíkir gullmolar og engin leið að gera upp á milli þeirra
Framundan vinnuvika, nældi mér reyndar í "bronchitis" á ferðalaginu en vona að ég verði til í slaginn í fyrramálið. Svaf í allt kvöld. Ótrúlega tómlegt að koma í hús, enginn Haffi eða Kata og tíkurnar ýmist á hundahóteli eða hjá Söru. Kisan Ísafold, reyndar ekki vikið frá mér frá heimkomu og tók vel á móti mér. Það fjölgar hjá okkur á morgun þegar krakkarnir og tíkurnar koma heim.
Einkennilegt hvernig þessi veikindi hafa breytt forgangsröðun manns, þjóðhátið var eitt af því sem ég setti í forgang ef ég hefði þessi veikindi af. Brekkan með krökkunum, brennan, flugeldasýningin og brekkusöngur. Tilfinning sem ekki er hægt að lýsa. Nú er því forgangsverkefni lokið, áfram heldur lífið og næstu verkefni taka við. Efst í huga mér er sveitin og kyrrðin. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að eftir þjóðhátíð fer að skyggja á næturna, daginn fer að stytta. Haustin eru reyndar minn uppáhaldstími.
Krakkarnir að fara út á næstu 2-3 vikum og miklar breytingar framundan. Óttast að mörgu leyti breytingarnar en fagna þeim líka, systikinin orðin fleygir fuglar og vel í stakk búin til að takast á við tilveruna. Það er ég líka þó ég sé ekki enn búin að marka næstu skref, málin í farvatninu en engar endanlegar ákvarðanir ennþá. Það var góður endir á helginni að spjalla við stoltið mitt, hana Auju, ótrúleg manneskja og fagmaður þar á ferð sem ber nafn sitt með réttu; Auðbjörg Hlakka til að fylgjast með ferli hennar.
Úff, hvað er gott að vera komin í sitt hreiður. Nú er að krossleggja fingur með heilsufarið og horfa fram á við. Næsti kafli er framundan og ekkert annað en að taka á honum. Er hins vegar alveg búin á því núna
Er hisFlokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:50 | Facebook
Athugasemdir
Alltaf gott að fara í smá ferðalag og skipta um umhverfi þótt það sé líka erfitt, sérstaklega ef maður er ekki fullfrískur. Vona að þú hafir ekki náð þér í veikindi og jafnir þig fljótt. Settu þér skemmtileg markmið og mundu að ímynda þér að þú hafir nú þegar náð þeim það flýtir fyrir. Ef þú getur þá mæli ég með að þú farir á heimasíðuna hans Matthew Manning og halir niður hugleiðslunum hans, skrifir þær á diska og hlustir á þær á hverju kvöldi áður en þú ferð að sofa. Ótrúlegt hvað það hjálpar við að róa hugann og verða bjartsýnni. www.http://www.matthewmanning.com/
Gíslína Erlendsdóttir, 7.8.2007 kl. 11:34
Eitt enn, sá þessa síðu sem er alveg stórgóð fyrir fólk eins og okkur sem berjumst við erfiðar hugsanir og sjúkdóma. http://jonabjorgsaetran.blog.is/blog/jonabjorgsaetran/#entry-265780
Gíslína Erlendsdóttir, 7.8.2007 kl. 11:35
Kærar þakkir fyrir þessar góðu ábendingar, búin að fara á báðar slóðirnar. Hreint út sagt frábærar, báðar tvær. Er búin að hala niður hugleiðslur hans og mun ég hlusta vel á þær.
Þér ratast satt orð á munn þetta með erfiðar hugsanir og sjúkdómana. Hugsanirnar oft erfiðari en veikindin per se. Á það til að láta biturleikan og særindin ná yfirtökum, þarf virkilega að takast á við það enda verst fyrir mig sjálfa.
Frábært að heyra frá þér, nú sem áður
Baráttukveðjur
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 7.8.2007 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.