31.7.2007 | 21:26
Stutt og laggott
Það kom að því sem mig grunaði. Komin með sýkingu í hundsbitin síðan á sunnudag. Lét kíkja á skurðina í gær, fékk stífkrampasprautu en engin sýklalyfin. Átti að bíða og sjá til, fannst það nokkuð bratt en doktorinn hefur síðasta orðið. Rokin upp í hita, með köldu og alles í kvöld og bólgan litlu minni í hendinni. Það kemur sér vel að eiga ráð undir hverju rifi, nú sem oft áður.
Styttist í þjóðhátíð, krakkarnir fara til Eyja á morgun og við Sigrún, stútungskellingarnar, mætum á svæðið á fimmtudag ef allt gengur eftir. Ekkert smá mál, fá pössun fyrir tíkurnar hér og þar og vinna fram á síðustu stundu. Það er meira mál að koma þeim fyrir en ungabörnum. En hvað gerir maður ekki fyrir þjóðhátíð? Þetta verður hins vegar trúlega mín síðasta en hef ekki farið í 7 ár. Ég sem mátti ekki missa af einni hér áður fyrr. Búin að redda regngalla sem ekki mun veita af ef spáin gengur eftir. En það er engin þjóðhátíð nema að það rigni og blási, svo einfalt er það
Snemma í háttinn með hitalækkandi á náttborðið þetta kvöldið. Eins gott að rífa sýkinguna úr sér með hraði og hlaða batteríin til að standa sig. Til Eyja hef ég ekki komið í 6 ár. Vinir og vandamenn munu gæta bús og véla á meðan, ekki mun veita af á þessum verstu og síðustu tímum.
Athugasemdir
Blessuð.
Enn komin í sama farið. Fylgist með fréttum af ykkur á blogginu. Var súr yfir að missa af þér um helgina. Komst ekki til að svara einu símtali en svona er það, mér datt bara ekki í hug að síminn á Seljalandi væri ennþá tengdur. Hefði hringt í hann ef ég hefði vitað það, komst bara að því á sunnudeginum þegar ég hitti Haffa fyrir tilviljun á íþróttahátíð í Búðardal. Við skruppum aðeins á bæjarhátíðina á Grundarfirði á laugardeginum. Komum heim í kvöldmat svo stoppið var ekki langt. Við förum á Hornafjörð um verslunarmannahelgina, leggjum einnig í hann á morgun með regngallan í farteskinu. Óska þér góðrar ferðar og skemmtunar og mundu hundsbit = sýklalyf, alltaf. Hafðu .það gott og við heyrumst og sjáumst.
Kveðja
Lóa.
Sigurbjörg (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 11:41
Góða skemmtun á þjóðhátíð. Hef sjálf aldrei farið þangað og geri varla úr þessu. Farðu varlega.
Gíslína Erlendsdóttir, 1.8.2007 kl. 20:04
Heil og sæl Lóa
Ég var álíka súr að missa af þér Lét mér detta í hug að biðja þig um að sauma mig sem veitti ekki af en mundi þá eftir íþróttahátíðinni og hugsaði til umferðarinnar á Vesturlandsveginum með hryllingi ef ég hefði beðið fram á kvöld.
Þú veist að ég get ALDREI verið símalaus, auðvitað er síminn tengdur
Ég veit að hundsbit er = og sýklalyf. Sprenglærður doktorinn með fína titilinn var ekki sammála þannig að svo fór sem fór. Er á batavegi, læt skurðina gróa secundert, ör skipta ekki máli.
Góða skemmtun fyrir austan, ég verð í rigningunni á þjóðhátíð svo fremi sem það verður flogið. Orðin of gömul í Herjólf. Verðum í sambandi, verð meira heima við í ágúst, ef allt gengur upp.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 1.8.2007 kl. 21:37
Það var leitt að heyra Gíslína að þú hafir aldrei komið á þjóðhátíð. Það er viðburður sem ég hef alla tíð hvatt alla að prófa að sækja, a.m.k. einu sinni. En þá verða líka aðstæður að vera þannig að maður kúldrist ekki í tjaldi inni í dal, heldur í heimahúsi og skemmta sér með heimamönnum. Í Eyjum bjó ég í 11 ár þannig að ég er nokkuð heimavön.
Vertu ekki of viss um að þú farir ekki úr þessu, skora hér með á þig að mæta að ári, ég skal sjá um að vel fari um þig og þína famelíu
Hafðu það sem best um helgina
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 1.8.2007 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.