7.7.2007 | 20:09
Litlu samfélögin
Eins og við var að búast fór þessi dagurinn í svefn, endalausan svefn. Ég næ að urra mig áfram á meðan vinnutörn stendur og er síðan eins og sprungin blaðra þegar skylduverkum lýkur. Heimilisstörfin hlaðast upp og um leið rykið og óhreinindin. Er samt alveg klár á því að úthaldið er meira núna en í síðustu viku og enn meira en fyrir 3 vikum þannig að ég er á réttri leið. Finn það ekki síst á heldur minni verkjum svona í heildina séð þó þeir geti verið slæmir á köflum.
Veikindin hafa sett strik í mitt líf sem og fjölskyldu minnar í nokkur ár, haft mestu áhrifin síðasta árið og í raun kollvarpað öllum áætlunum, fjárhag og markmiðum. Fátt er um fína drætti þegar kemur að mótvægisaðgerðum í þeim efnum, maður verður bara að bíta á jaxlinn og reyna að vinna sig út úr málunum. Tryggingakerfið meingallað og í raun varasamt með skemmd epli í körfunni. Ég hefði seint trúað því að óreyndu og hef í gegnum tíðina talið okkur Íslendinga búa við gott velferðar- og heilbrigðiskerfi. Hef ósjaldan talað um kosti þeirra og það öryggi sem við búum við. Þar hef ég verið á villugötum líkt og fjölmargir. Kosturinn við erfiða reynslu er auðvitað sá að maður lærir, reynar "on the hard way"
Mér er ansi oft hugsað um vald, valdbeitingu og misbeitingu valds á síðustu vikum og mánuðum, ekki síst í fámennum byggðalögum. Vald er vand með farið og skelfilegt þegar það lendir í höndum einstaklinga sem hafa ekki hæfni né getu til að fara rétt með það. Sumir eru jafnvel "valdasjúkir". Oftar en ekki er slíkir einstaklingar ákaflega sjálflægir og eigingjarnir og leggja höfuðáherslu á eigin hagsmuni, metnað og markmið. Við slíkar aðstæður er öðrum einstaklingum beinlínis ógnað, lífsskilyrði og öryggi þeirra er beinlínis háð vilja og duttlungum þeirra sem fer með valdið.
"Valdamiklir" einstaklingar hafa yfirleitt lögboðið vald, t.d kosnir til að stjórna eins og í sveitarstjórnum. Í litlum byggðalögum gegna þeir, að öllu jöfnu, öðrum störfum og hafa nokkur yfirráð í krafti þeirra. Þannig geta þeir haft áhrif á það hverjir fá atvinnu og geti búið í byggðalaginu. Slíkar aðstæður eru hættulegar þegar einn til tveir einstaklingar ráða bókstaflega yfir örlögum annarra. Í öðrum tilfellum er um að ræða embættismenn, s.s. presta, sýslumenn, lögreglumenn, kennarar,lækna o.fl. aðila úr opinbera geiranum. Í enn öðrum tilfellum má sjá bankastjóra og áðra úr fjármálageiranum. Þegar slíkir einstaklingar komast til valda er hætt við að óbein völd þeirra verða mikil. Það gefur auga leið að prestur, sýslumaður og læknar svo fáein dæmi séu tekin, gegna mikilvægum störfum sem fela m.a. í sér trúnað við aðra. Erfitt getur reynst þeim að aðskilja pólitísk störf og embættisstörf. Sumir beinlínis nýta sér aðstöðu sína sem þeir hafa í störfum sínum til að hafa bein áhrif á skjólstæðinga sína, þekkt eru dæmi þar sem þeim er beinlínis ógnað, fylgi þeir ekki viðkomandi að málum. Hver vill hafa sýslumanninn, prestinn eða lækninn á móti sér?
Þegar einstaklingar úr fjármálageiranum komast til valda í pólitísku umhverfi síns byggðalags, gefur auga leið að þeir geta haft gríðaleg áhrif á afkomu og líffskilyrði viðskiptavina sinna. Ekki það að það sé algilt að menn skilji ekki þar á milli og misbeiti valdi sínu, beint eða óbeint,en þau tilfelli eru sannarlega til. Í þeim byggðalögum þar sem íbúar kjósa einstaklinga í valdamiklum stöðum til áhrifa, er þessi hætta alltaf til staðar.
Í öllu falli tel ég alla sem búa í litlu samfélagi kannast við þessar vangaveltur og vita við hvað er átt. Margir hafa lent í þeirri bitru reynslu að vera sviptir atvinnu sinni, búsetuskilyrðum og jafnvel ærunni. Neyðst til að taka poka sinn og hypja sig á brott með skottið á milli fótanna. Hefja nýtt líf annars staðar. Oft tekur það mörg ár að öðlast sjálfstaust og fóta sig að nýju. Eftir standa sigrihrósandi valdfíklar með valdið í sínum hendum, hafa fengið umboð frá kjósendum og plantað sínu fólki í aðrar áhrifastöður í samfélaginu. Það er eins gott að setja sig ekki upp á móti valdaklíkunni, annars kann illa að fara.
Við þessi skilyrði eru einstaklingar valdir inn í samfélagið í stað þess að þeir velji það til búsetu. Hvernig er slíkt samfélag í raun? Það er stöðug ólga meðal íbúanna sem þora ekki að tjá sig um óánægju og skiptar skoðanir, þeir gætu misst allt sitt. Þeir tjá sig í hálfum hljóðum við eldhúsborðið, úti í mjólkurhúsi eða í krónni. Menn eru óánægðir og ásáttir, tala illa um hvorn annan og lífið fer að snúast um það að finna veikleika og galla annarra, ekki síst þeirra sem fylgja ekki straumnum enda hagur þeirra að fylgja þeim sem ráða. Það kraumar og kraumar og á endanum sýður upp úr. Smáspýjur hér og þar til að tappa af ólgunni. Það breytist hins vegar fátt nema þá helst að hlutirnir fara niður á við, traust og trúnaður farið til fjandans og allir uppi á móti öllum. Svona getur þetta reyndar gengið lengi, jafnvel í áratugi. Þeir sem ekki sætta sig við þessi lífsskilyrði verða að hypja sig á brott ellega að hafa verra af. Svo ótrúlegt sem það virðist hljóma, sætta íbúar sig við slíkar aðstæður þegar upp er staðið, óttast breytingar og berjast í raun gegn þeim.
Samfélög sem eru undir ógnarstjórn sýna litlar framþróun, stöðnun ríkir enda illa tekið á móti nýrri hugsun og nýjum straumum. Þau eru lítt búsældarleg og afkoman fremur döpur. Fjárfest er í gæluverkefnum þeirra sem fara með völdin og eiga þau verkefni sjaldan samleið með vilja íbúa eða hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hægfara en stöðug hnignun er afleiðingin. Samfélögin verða "út undan" og lítt samkeppnishæf við önnur byggðalög um nýja íbúa enda hætt við að það jafnvægi sem valdhafar hafa komið á, raskist.
Hvað er til ráða við aðstæður sem þessar? Framsýnir leiðtogar sem fá fólk í lið með sér að móta sameiginlega sýn, stefnu og markmið er sú lausn sem er varanleg. Að virkja alla þá krafta sem samfélagið býr yfir til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum byggðalagsins og íbúanna. Þeir þurfa að tileinka sér breytta hugsun gagnvart valdhöfum. Í stað þess að lúta ógnarstjórn þurfa þeir að líta á þá sem fulltrúa sína sem fara með umboð sitt, samfélaginu til bóta. Íbúar þufa að geta treyst valdhöfunum og trúnaður þarf að ríkja. Þeir þurfa einnig að vera opnir fyrir nýjum hugmyndum, líta á skoðanaskipti sem eðlilegan hlut og viðurkenna að einstaklingar eru misjafnir eins og þeir eru margir. Samfélög eiga ekki að vera einsleit og mótast af valdaklíku hverju sinni, þau eiga að búa yfir fjölbreytleikar þar sem virðing er borin fyrir skoðunum, trúarbrögðum, þjóðerni o.s.frv. Ég tel fullsannað í mörgum samfélögum að gamla lagið, þar sem nokkrir ráða öllu, stenst ekki tímans tönn og er þeim síst til framdráttar. Við búum á 21. öldinni; lýðræði á að vera sjálfsagt mál. Þeir sem eru á öndverðu meiði, eru einmitt þeir sem sækjast eftir áhrifum með eigin hagsmuni í huga og misbeita hiklaust valdi sínu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.